03.02.1947
Neðri deild: 65. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

152. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að menn reki augun í, að Samábyrgðin á allmikið fé útistandandi, en það er misskilningur, að hún reki lánastarfsemi. Það er oft, að tryggingarstofnanir lána og það mikið, en stofnanirnar hafa hagað iðgjöldum þannig, að þær hafa grætt mikið fé. Má geta þess, að Tryggingastofnun ríkisins rekur lánastarfsemi. Samábyrgðin hefur ekki ætlað sér að safna fé, heldur hefur tilgangur hennar verið sá, að eigendum skipa væru sköffuð iðgjöld samsvarandi áhættu. Það er vitað mál, að bátatryggingafélög eiga flest sama og ekki neitt, enda iðgjöld öll hófleg. En Samábyrgðin hefur ekki lánastarfsemi, og hún hefur ekki aðgang að skipaeigendum, heldur aðeins að félögunum sjálfum, og það mun verða örðugt að ná því fé, sem Samábyrgðin á hjá bátaútveginum, enda sú regla að gefa félögunum ársfjórðungs frest, og henni er kunnugt, að félögin eiga ekki neitt nema útistandandi fé. Nú er augljóst, að félögin gætu betur borgað með því að hafa innheimtu sína í betra lagi. Ekki hefur tekizt að safna sjóðum, og er því ekkert reiðufé, sem hægt er að grípa til. Hér er staðreynd, að meðan Samábyrgðin endurtryggir, en tryggir ekki beint, hefur hún ekki fé. Allt, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að væru lán, eru ekki venjuleg útlán, heldur aðeins kröfur á félögin, sem þau geta ekki staðið í skilum með. Þetta sýnir reynslan, og er ekki hægt að komast hjá því, að Samábyrgðin eigi mikið fé. Samábyrgðin þarf að standa í skilum við endurtrygginguna, og það hefur hún lagt áherzlu á, og ég vil taka það fram, að síðan ég tók við, hefur engin kvörtun komið. Iðgjöld hennar þóttu lág, og þar sem ríkið ber ábyrgð, þá er starfsemi þessi ekki áhættusöm. Annarra skýringa er ekki þörf. Það leiðir af sjálfu sér; að Samábyrgðin eigi útistandandi skuldir, en hún hefur lagt áherzlu á að ná því fé, og er það ekki hægt nema með lögsókn.