02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

152. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., hefur sætt nokkrum breyt. í hv. Ed., þannig að í stað þess, að í frv. sjútvn. þessarar hv. d., sem raunar er stjfrv., var stofnfé Samábyrgðarinnar ákveðið 2½ millj., þegar frv. var afgr, héðan, hefur hv. Ed. nú fært þetta niður í 1 millj. kr. — Ég vil ekki halda því fram, að það sé sprottið af ókunnugleika, en það hefur greinilega verið tekið hér fram, að áhættufjárupphæðin hefur aukizt enn, síðan stofnféð var ákveðið 2½ millj. kr. — meira að segja fimmfaldazt á stríðsárunum —, svo að það er mjög í samræmi við vöxt rekstrarins, sem stofnfjárhækkunin hefur verið ákveðin hér í hv. d. Nú þykir vart fært að leggja út í deilur um mál þetta, þar eð svo áliðið er þings, og eftir því sem ég hef getað fengið upplýsingar um hjá hv. sjútvn. Ed., munu þeir ekki hafa neitt á móti þeirri breyt. á þskj. 740, þar sem lagt er til, að stofnféð verði hækkað úr 1 millj. kr., eins og hv. Ed. hafði ákveðið, upp í 1½ millj. kr. Er þetta því eins konar samkomulagstillaga.

Ég skal taka það fram, að þessi brtt. er frá sjútvn. — eins og þskj. bendir til —, en hv. þm. V-Húnv. var ekki viðstaddur, þegar hinir nm. ákváðu að bera fram þessa brtt., og sökum þess að hann hafði verið með því, að stofnféð væri 2½ millj., gerði ég ekki ráð fyrir, að hann mundi gera neinn ágreining út af því, þótt það yrði nú hækkað í 1½ millj. úr 1 millj. kr. Annars er hann nú hér staddur og hefur að sjálfsögðu óbundnar hendur um afstöðu sína til þessa máls.