25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

204. mál, brúargerðir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég flutti í byrjun þingsins nokkrar brtt. við brúalögin, þar sem ég óskaði eftir nokkrum brúm í Barðastrandarsýslu. Nú sé ég, að töluvert mikið af þeim hefur verið tekið inn á þetta frv., og er ég n. þakklátur fyrir það. Hins vegar hafa verið felldar niður 5 brýr, og skilst mér á grg. vegamálastjóra, að það sé vegna þess, að þær nái ekki 10 metra lengd. Ég mun sætta mig við þetta og ekki flytja brtt., en mig grunar, að síðar kunni að sannast, að þessar 5 brýr séu yfir 10 metra langar. En með þeim skilningi á málinu mun ég fella mig við þetta.

En í sambandi við þessar mælingar má geta þess, að þær voru ekki gerðar, þegar vatnsmagnið var mest. T. d. var gert ráð fyrir 12 metra langri brú á Haukadalsá, en í leysingum þarf að sundríða af þeirri brú til lands.

Sama er að segja um breyt. á III. tölulið. Ég geri ráð fyrir, að leggja beri þann skilning í þá grein, að þetta verði byggt af ríkisfé og ríkið beri þá allan byggingarkostnaðinn, er ráðuneytið hefur samþ. bygginguna, en þetta verði ekki af ríkisins hálfu kostað að helmingi á einum stað, þremur fjórðu hlutum á öðrum og að öllu leyti á hinum þriðja, heldur skilst mér, að ef ráðuneytið samþykkir brýr á sýsluvegi, þá kosti ríkið þær að öllu leyti, hvort sem þær eru minni eða stærri. Ef ríkisstj. samþykkir brýr, þá legg ég þann skilning í þetta, að ríkið greiði þær að öllu leyti, en ekki að þremur fjórðu hlutum, og með þeim skilningi greiði ég atkv. með þessari gr.