27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

204. mál, brúargerðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt., sem langt er síðan útbýtt var hér í hv. d. Hún er um að bæta inn í kaflann um nýjar brýr einni brú yfir Þverá í Vopnafirði. En eftir að ég hef talað við vegamálastjóra og hann lýst því yfir, að samkomulag hefði orðið um það að taka ekki upp í frv. nýjar brýr yfir ár á sýsluvegum og í þess stað setja eitt almennara ákvæði um það, að brýr yfir ár á sýsluvegum mætti gera að öllu leyti fyrir fé úr ríkissjóði. Áður var það svo, að slíkar brýr mátti ekki gera nema að 2/3 hlutum kostnaðar fyrir fé úr ríkissjóði. Vegamálastjóri hefur sagt mér, að þetta hafi orðið að samkomulagi milli samgmn. beggja d. að taka ekki þessar brýr upp í brúal., heldur setja um þetta almenna ákvæðið. Vegamálastjóri hefur líka tjáð mér, að það væri sinn ákveðni vilji að taka þetta ákvæði um brýr á sýsluvegum þannig, og þó að það stæði svo í frv., að „brýr á sýsluvegum má gera að öllu leyti fyrir fé úr ríkissjóði“, þá gerir hann ráð fyrir því, að það verði framkvæmt eins og þar stæði „skal gera fyrir fé úr ríkissjóði“. Og eftir að ég hef fengið þessar upplýsingar hjá vegamálastjóra og kynnt mér III. lið, b-liðinn, og að hann verði framkvæmdur eins og ég hef áður lýst, að þessar brýr verði að öllu leyti kostaðar af ríkissjóði, þá tek ég mína brtt. aftur.