12.10.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Mér hefur verið tjáð, að hv. 1. þm. Eyf. hafi komið hér fram með fyrirspurn til ríkisstj. og þá sérstaklega til hv. dómsmrh. og kirkjumrh. Ég átti í morgun alllangt samtal vegna þeirra atburða, sem gerzt hafa nú undanfarið, og er ég mönnum sammála um það, hversu smánarlegt og fyrirlitlegt athæfi það er, sem sumar persónur leika hér við mestu menn þjóðar vorrar liðna. Ég nota tækifærið, þótt ég sé undir sök að ósekju, og leyfi ég mér að segja þetta :

Það mun vera meira en eitt ár síðan þingkjörin nefnd sneri sér til forsrh. með þau tilmæli, að bein Jónasar Hallgrímssonar skálds yrðu flutt hingað heim til fósturjarðar hans, og einkum var þetta gert vegna þess, að breyta átti kirkjugarði þeim, sem skáldið hvíldi í, í almenningsgarð. Í júnímánuði s. l. skrifaði Þingvallanefnd mér svo bréf og knúði fast á, að ég leyfði, að okkar hjartkæra skáld yrði flutt heim og herra Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði yrði falið að rannsaka þetta og flytja jarðneskar leifar skáldsins heim. Aðrir menn komust svo í þetta og þar á meðal herra Sigurjón Pétursson verksmiðjustjóri.

Ég þarf svo ekki að lýsa þeim atvikum, sem hafa gerzt í máli þessu. Þau eru þjóðarskömm. Það var mikil dirfska af hv. 1. þm. Eyf. að hlaupa með þetta mál inn í þingið, en fyrir utan stjórnmáladeilur ættu okkar dýrmætustu eignir að standa og okkar heitt elskaða skáld. Mér finnst það hefði borgað sig fyrir þennan virðulega þm. að loka ekki augunum fyrir þessu.