12.10.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. var ekki staddur hér, er ég gerði fyrirspurn mína, en ég býst við því, að ef hann hefði verið viðstaddur, þá hefði hann ekki í slíkum tón talað. Ég tel það hvorki ósóma né sóma, þótt ég beri fram fyrirspurn á Alþ. og ég ætlaði mér ekki að ræða þetta á hv. Alþ. En ástæðan fyrir fyrirspurn minni er sú, að nánir ættingjar dáins manns hafa beðið mig um að grennslast fyrir sig um það, hver réttur þeirra væri í slíku tilfelli. Hæstv. forsrh. getur kallað þetta hræsni, ef hann vill. Hæstv. dómsmrh. segist ekki vera lögfræðingur, en mér finnst nú, að hann ætti að geta gefið hér upplýsingar sem æðsti maður dómsmála í landinu. Ég neita mér um að ræða það mál, sem var leitt hér inn í umr. Auðvitað get ég kannazt við það, að þetta mál var orsök fyrirspurnarinnar, en ég hliðra mér hjá að ræða um það. Ég hefði haldið, að nánustu ættingjar ættu að ráða því, hvað gjört sé við leifar látins manns. Hæstv. dómsmrh. vísaði mér til lögfræðings, og ég get sagt það, að ég hef spurt marga lögfræðinga, en án árangurs. Og þess vegna fannst mér rétt að spyrja tvo æðstu menn í landinu, sem þessi mál heyra undir, ráða.