05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég er alveg óviðbúinn að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv., en strax og ég sá í einu blaði bæjarins, að hér hefði átt sér stað smygl til bæjarins á vopnum, sem varla má hugsa sér, að séu notuð til annars en að drepa menn með, því að þau vopn, sem þar var um að ræða, eru ekki notuð til annars, þá bað ég skrifstofustjóra í dómsmrn. að athuga, hvað lægi fyrir í málinu, og gerði hann það.

Það fyrsta, sem mér var kunnugt um málið, var ekki það, sem birtist í blaði Alþfl., heldur var það fyrsta, sem kom fram í þessu máli, í Morgunblaðinu um helgina, og þar sá ég fregnina fyrst, og var mér þá sagt, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði gefið blaðamanninum þessar upplýsingar. Hvað blaði Alþfl. viðkemur, sem hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til, og hvaðan það hefur fengið sínar upplýsingar, er mér ekkert kunnugt um, að minnsta kosti hafa þær upplýsingar ekki komið frá mér. Og eins og ég sagði áðan, strax og ég las þetta í Morgunblaðinu, bað ég skrifstofustjórann í dómsmrn. að athuga þetta, og hann gerði það á þann hátt, sem hann taldi réttast, og sneri sér til lögreglustjórans í Reykjavík og fékk hjá honum þær upplýsingar. sem þar lágu fyrir, og gaf mér þær. Ég hef hins vegar ekki fengið neina skriflega skýrslu um málið og bíð eftir að fá hana, en þangað til sú skýrsla liggur fyrir, get ég ekki gefið neinar frekari upplýsingar en ég hef nú gert. Það kom þó fram í þessu sambandi, að nokkuð væri síðan þetta vopnasmygl hefði átt sér stað, og þá hefði verið skerpt eftirlit í tollinum á varningi, sem gæti verið grunsamlegur .

Ég get ekki gefið frekari upplýsingar að sinni, en ef þess er óskað, mun ég láta skriflega skýrslu lögreglustjórans koma hér fram.

Hvað viðvíkur skothríðinni í Hafnarfirði, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á, þá hygg ég, að hún eigi ekkert skylt við það, sem hér er um að ræða, og sú rannsókn, sem gerð hefur verið út af henni, er ekki gerð af lögreglustjóranum í Reykjavík, heldur lögreglustjóranum í Hafnarfirði, og er þegar tekin fyrir af honum.

Annað, sem hv. þm. minntist á, um hagnýtingu í pólitískum tilgangi og fleira þvílíkt, sem hann lét sér um munn fara, skal ég ekkert segja um að svo stöddu, því að það kemur ekki beinlínis þessu máli við.