13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég hef nú heyrt andsvör hæstv. ráðh., og hafði ég að vísu grun um, að svona mundi vera um búið, eins og hann nú skýrði frá. En ég vildi láta það koma fram á réttum vettvangi, sem er hæstv. Alþ., er nú situr, sem er hinn venjulegi og rétti vettvangur fyrir slík mál sem þetta, hverjir sem í hlut eiga.

Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi nú verið áður sömu skoðunar og ég um það, að þessi dvöl hæstv. ráðh. (FJ) yrði nokkru skemmri en hún hefur orðið. Og ég fyrir mitt leyti get sagt, að ég átti, sama daginn og hæstv. burtfarandi dómsmrh. fór af landi burt, tal við hann — eða öllu heldur hann við mig — og reyndar oftar en einu sinni, um þetta mál, en síðast sama daginn sem hann fór. Kvaðst hann þá að vísu vera óákveðinn um, hvað hann gerði í málinu, en hann vildi gera eitthvað í málinu, áður en hann færi. En hann kvaðst búast við, að hann mundi ekki verða lengur að heiman en tvær til þrjár vikur. Skal ég engan dóm á það leggja, hversu mikil þörf er á þessari, dvöl þessa hæstv. dómsmrh. þar vestra. Það kemur ekki nema óbeinlínis þessu máli við. En það kemur því óbeinlínis við á þann hátt, að m. a. vegna þessa máls verður hver tími, sem þessi dvöl lengist að nauðsynjalausu, ef um slíkt væri að ræða, sem ég legg ekki dóm á, leiðinleg bið á heimkomu þessa manns. Ég hafði búizt við, að Finnur Jónsson mundi koma miklu fyrr heim en raun hefur á orðið, og vildi ég því ekki ónáða þann hæstv. ráðh., sem situr í hans stað hér sem dómsmrh., með því að vekja máls á þessu. En síðan í byrjun þessarar viku hef ég ætlað að vekja máls á þessu. En mér hefur ekki auðnazt að finna þennan hæstv. ráðh., sem gegnir nú störfum dómsmrh., hér í stólnum síðustu daga — og má reyndar vera, að hann hafi þá stundum verið hér, en ég þá ekki á fundi. Ætla ég ekki að deila á hann sérstaklega fyrir það.

En þessi aðferð öll í sambandi við það mál, sem ég hef gert að umtalsefni, er yfirmáta leiðinleg. Enginn veit, ef slíkt ætti að verða regla, að fara þannig að við héraðsdómara t. d., eða þá aðra embættismenn í landinu, hvar slíkt mundi lenda né hverjar afleiðingar, persónulegar og stjórnmálalegar, geta af slíku hlotizt, því að það er að sjálfsögðu þannig, að embættismenn þjóðarinnar hafa sinn fulla rétt, ef ekki sannast sök á hendur þeim — eins og þeir líka á sínum tíma verða að svara til saka á réttan hátt, ef þeim mistekst í störfum. Og það var ekkert komið fram um það opinberlega a. m. k., að sá embættismaður, sem hér á hlut að máli, hafi neitt misgáð sig í embættisverkum sínum, heldur munu það vera önnur, utanaðkomandi, tilfallandi atriði sem fóru hér á milli. Þó að hæstv. samgmrh., sem fer með dómsmálin nú, hafi að því vikið, að þetta mál, sem ég hef minnzt á, snerti Finn Jónsson dómsmrh. persónulega, þá er því til að svara, að slíkt mál sem þetta er meira mál en að það sé persónulega snertandi Finn Jónsson, vegna þess að slík meðferð, sem höfð hefur verið á þessu máli, getur snert meðferð mála gagnvart hverjum, sem er, af embættismönnum landsins. Þess vegna er þessi frammistaða, ef hún yrði regla, sem almenn regla alls kostar óhæf.

Nú ætla ég ekki að ræða þetta frekar, en mun eftir atvikum láta mér lynda svör hæstv. ráðh. Hann hefur ekki gert annað en það, sem hann hefur tekið að sér, sem sé að fást ekkert við þetta mál, og verður, úr því sem komið er, ekkert við því gert.