13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Mér þykir verra, ef hv. þm. Str. getur ekki dokað við augnablik.

Hv. þm. V-Sk. flutti hér fyrirspurn áðan, svo sem venja er, og eftir að hann hafði fengið þau svör, sem mér virtist hann eftir atvikum sætta sig við, var hann ánægður, en það var ekki alveg því að heilsa með hv. þm. Str. Hann kom hér fram í annað sinn, frá því hæstv. dómsmrh. fór af landi burt. (HJ: Hvenær var hitt skiptið?) Þegar ráðizt var á dómsmrh. út af vopnaflutningsmálinu. Ég upplýsti, að von væri á dómsmrh. innan 3–4 daga. Mér hefði fundizt það sæmra fyrir þennan hv. þm. að bíða með að hella úr skálum reiði sinnar, þangað til hæstv. dómsmrh. var til staðar. Ég lýsti því yfir, að ég hefði ekki sett mig inn í málið, vegna þess að dómsmrh. hefði óskað eftir að það væri látið bíða, þangað til hann kæmi. Ég get ekki svarað öðru til, en get þó upplýst, að hann fékk málið í sínar hendur aðeins skömmu áður en hann sigldi. Það var ekki aðeins, að hann fjallaði um málið. Honum var það skylt, og hann vildi afgreiða það og ákvað, að það skyldi bíða eftir sér. „Hvar er okkar réttarfar“, segir hv. þm., „ef á að liggja á málum í lengri tíma?“ Ég vil nú benda honum á það, að oft hefur verið legið á málum í lengri tíma en hér hefur átt sér stað. Það er ekki til eftirbreytni, en ég vil halda því fram, að oft hafi dregizt lengur en þessu sinni að afgreiða mál. Það mætti þessum hv. þm. vera kunnugra en mér. Það hefur nú að vísu liðið meira en mánuður, en ég ætla, að það hafi oft áður komið fyrir hér á Íslandi. Ég get ekki játað, að hér sé um vitavert athæfi að ræða, og ítreka það, sem ég sagði áðan, að þar sem dómsmrh. er fjarverandi í opinberum erindagerðum, frá því að úrskurðurinn féll, er ekki undarlegt að málið hefur dregizt. Ég sé ekki að neinn sérstakur voði hefði verið á ferðum fyrir réttarfarið í landinu, þótt hv. þm. hefði látið það bíða í 3–4 daga að hella úr skálum reiði sinnar. Ég býst við, að þegar dómsmrh. kemur, geti hann gefið full og skýr svör, t. d. um það, hvers vegna ekki féll úrskurður í málinu þessa fáu daga, sem hann var við, eftir að rannsókn var lokið. Ég álít sem sagt, að það hafi ekki verið hv. þm. samboðið að ráðast að hæstv. dómsmrh., eins og hann gerði, þegar þm. vissi, að hans var von á hverri stundu.