13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Það á víst að vera eitthvert óratóriskt fiff að halda því fram, að ég hafi ráðist á dómsmrh. að honum fjarstöddum. Það vita allir, að ég hef ekki ráðizt á hann, heldur þann dómsmrh., sem alltaf er til staðar hjá íslenzka ríkinu, hvort sem hann heitir Emil, Finnur eða eitthvað annað. Það, sem ég vítti, var það að taka við máli og gera það sem vinargreiða að setjast á það, og ég held, að það verði erfitt að koma því inn hjá fólki, að ég hafi ráðizt á dómsmrh., af því hann var ekki viðstaddur. Ég hef ekki heldur ráðizt á hann í vopnasmyglunarmálinu. Það var talað um það, á meðan lögreglustjóri lá í ríminu, eftir að upplýst hafði verið um það samkvæmt Morgunblaðinu. Ég deildi ekki með einu orði á dómsmrh. — minntist ekki á hann einu orði, nema það, að hann ætti að fyrirskipa réttarrannsókn í málinu. Ráðh. sagði að ekki hefði borizt nein skýrsla, bara bréf. Ég get ekki nema brosað að því, því að hvað er bréf nema skýrsla. Ég réðist ekki á dómsmrh., en ég hélt því fram, að réttarrannsókn hefði átt að fara fram í málinu. En þessi dómsmrh., sem hér er, hefur gert árás á dómsmrh., því að hann fyrirskipaði rannsókn. Sá eini maður, sem hefur gert árás á fyrrverandi dómsmrh., er núverandi dómsmrh.

Ég skal ekki koma inn á þetta mál á þessu stigi, því að það er hægt að gera síðar. Dómsmrh. segir, að það hafi ekkert gert til, þótt það hafi dregizt í nokkrar vikur, en hann gerir sér ekki grein fyrir því, að hér er embættismanni vikið frá um stundarsakir og honum haldið utan við embættið. Það kann að vera, að mál hafi dregizt hér lengur en þetta, en það hefur oft ekki varðað neinu, en þessi dráttur varðar miklu. Og það er ljóst, að dómsmrh. á að svara til saka um mál, sem hann hefur tekið við, á meðan annar var ekki heima. Hann hefur tekið við málunum og á að afgreiða þau á réttum tíma. Það kom ekki fram nema tilraun til að svara í þessu máli. Það er óviðunandi, að embættismaður sé settur frá um stundarsakir, dómsmrh. hafi málið hjá sér í 7 daga, eftir að rannsókn er lokið, neiti að úrskurða málið í dómsmrn. og biðji kunningja sinn að setjast á málið, á meðan hann er fjarverandi — og á meðan á þessu stendur, er embættismaðurinn utan við embættið. Þetta er mál, sem þingið getur ekki látið afskiptalaust.