13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Hv. þm. S-M. vildi halda því fram, að embættisstörf ættu ekki að geta stöðvazt af brottför. Það þyrfti alltaf að vera dómsmrh. í landinu og málin að ganga sinn gang, hver sem í hlut ætti. Þetta getur verið rétt, en ég vil undirstrika þann mun, sem er á því, að Finnur Jónsson eða ég geri þetta, því að málið er honum ekki einasta skylt, heldur er hann aðili. Ef ég hefði átt að sjá um málið, hefði ég orðið að kynna mér það, og það er ekki víst, að það hefði gengið fljótar á þann hátt en með því að láta það bíða. Finnur Jónsson dómsmrh. ákvað, að málið skyldi liggja, þangað til hann kæmi heim, og þá skyldi það tekið upp. Það er einkennilegt, að þetta mál skuli vera tekið upp nú, þegar ekki eru nema 3–4 dagar, þangað til ráðh. kemur heim, og þá getur úrskurður fallið í málinu.