13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Það voru aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. samgmrh. sagði, að hann hefði ekkert við það að athuga, þó að um þetta kæmu fram fyrirspurnir, en það hefði ekki átt að ráðast á neinn í þessu sambandi. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að það er mjög varhugavert þetta tal, sem nú tíðkast, um árásir. Allir skapaðir hlutir eru kallaðir árás. Ef menn leyfa sér að láta í ljós þá skoðun, að einhver stjórnarherra fari öðruvísi að en æskilegt væri, þá er það kallað árás, hvað hógværlega sem að er farið. Þetta er ákaflega varhugaverður tónn. Það er varhugavert að vera sífellt að hreyta í menn, þótt fundið sé að einhverju í embættisrekstri eða framkvæmd ráðh., og ég get ekki fundið, að hægt sé að kalla það árás, þótt bent sé á það, eins og hér hefur verið gert, að hér sé ekki að dómi ýmissa farið rétt að.

Svo er aðeins ein setning um málið sjálft. Hæstv. ráðh. sagði, að hér hefði orðið dráttur af eðlilegum ástæðum, en um þetta er meiningamunur, því að hér hefur verið bent á það, að þessi dráttur hafi orðið af óeðlilegum ástæðum. Hæstv. ráðh. segir, að þessi dráttur hafi orðið af eðlilegum ástæðum, af því að dómsmrh. hafi þurft að fara til Ameríku. Hitt er aðalatriðið að utanför hæstv. dómsmrh. átti ekki og mátti ekki hafa áhrif á það, hvernig þetta mál væri rekið, og hún þurfti ekki að hafa áhrif á það, vegna þess að hæstv. samgmrh. var fyllilega maður til þess að úrskurða um málið, eftir að hann hafði tekið við stjórnardeildinni. Þetta er aðalatriðið og það, sem hér hefur verið fundið að. Það vildi ég undirstrika í lokin.