09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga í sambandi við frétt í erlendum blöðum, er snertir flugvallarsamninginn við Bandaríkin. Þessi blöð hafa túlkað þennan samning sem herstöðvasamning, og kemur berlega fram í viðtölum nokkurra sænskra blaða, að forsrh. landsins hafi látið í ljós, er hann átti viðtal við sænsku blaðamennina, að hann væri ekki í neinum vafa um það, hvernig skilja bæri samninginn, og að hann teldi hann vera herstöðvasamning.

Í öðru lagi er sagt frá því, að forsrh. hafi fullyrt, að ef Bandaríkin hefðu ekki fengið umráð yfir Keflavíkurflugvellinum, þá hefðu Sovétríkin sótt um sams konar réttindi hér á landi. Ég held, að þetta sé nú í bága við greinilega yfirlýsingu sendiherra Ráðstjórnarríkjanna í Moskvu, að Ráðstjórnarríkin hefðu engan hug á því að sækjast eftir landsréttindum á Íslandi. Ég vildi nú fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. forsrh.

Þá kemur það fram í ummælum sænsku blaðanna, að undirstrikað er mjög greinilega, hver notkun gæti orðið af Keflavíkurflugvelli, ef til árásar kæmi á Evrópu, og er því ekki nema maklegt að spyrja hæstv. ríkisstj., hvaða aðgerðir hún ætli að nota til þess að „dementera“ ummæli sænsku blaðanna eða hvaða hlut hún á í þessum ummælum blaðanna.