09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Það er ekki nema gott um það að segja og er ánægjulegt, að hv. 2. þm. Reykv. hefur vakið hér máls á því, hvað fram hefur komið í sænskum blöðum út af viðtali, sem ég átti við sænska blaðamenn. Blaðamennirnir áttu allir sameiginlegt viðtal við mig, þótt einn blaðamannanna, frá stórblaðinu Morgontidningen, hafi haft nokkru ýtarlegra viðtal við mig en blaðamenn hinna blaðanna. Út af ummælum Stockholmstidningen, þá hef ég ekki séð þau nema í lauslegri þýðingu í Þjóðviljanum í dag. Tvennt er það í viðtalinu, sem er haft alveg rangt eftir mér, en í Morgontidningen hefur ekkert slíkt fram komið. Þar er sagt rétt frá því, sem ég lét uppi við sænsku blaðamennina, en Svenska Dagbladet, Dagens Nyheter og Stockholmstidningen hafa alrangt eftir mér, og það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að það var ekki nema eðlilegt, að hér kæmi eitthvað fram um þetta, og vil ég því taka þetta fram :

Í fyrsta lagi á ég að hafa sagt, að ef við hefðum ekki gert samninginn við Bandaríkin, þá hefðu Rússar komið hingað. Ég lét ekkert orð uppi, sem gat miðað í þessa átt. Í öðru lagi er það ólíklegt, að þessir blaðamenn gætu haft nokkuð slíkt eftir mér, en þeir virðast hafa blandað inn í viðtalið sínum eigin athugunum og ályktunum, og segir t. d. í Dagens Nyheter, að samningurinn við Bandaríkin sé frávik frá pólitísku sjálfstæði Íslands. Ég hef ekkert látið uppi eða sagt í þá átt, enda brýtur það líka í bága við fyrri yfirlýsingar mínar í þessu máli og afstöðu mína til málsins hér á Alþingi. — Þetta tvennt í sænsku blöðunum er því byggt á misskilningi og er komið annars staðar frá en frá mér, og má segja, að fullyrðingar sænsku blaðanna brjóti í bága við mína skoðun. Í Morgontidningen er í stórum dráttum rétt með farið. Í blaðaviðtalinu er sagt, að ég telji, að við Íslendingar hefðum gert rétt sem einn meðlimur og ein hinna sameinuðu þjóða er við tókum þá ákvörðun að greiða fyrir ferðalögum milli ríkja og að gera Ameríkumönnum hægara um vik að halda uppi samgöngum milli Ameríku og Þýzkalands, á meðan þeir hefðu þar eftirlit með höndum, en okkur sé, og hafi alltaf verið ljóst, að lega Íslands sé með tilliti til hernaðar hættuleg, en við hefðum fulla tiltrú til hinna sameinuðu þjóða, að sú alþjóðastofnun mundi skapa okkur sjálfstæði. Það er eftirtektarvert að bera saman, hvað Morgontidningen segir í sambandi við Rússa. Þar segir, að afstaða okkar til Rússlands sé hin bezta og að við hefðum þar verzlunarnefnd. Hér er líka farið rétt með, og önnur orð hef ég aldrei hér við haft.

Ég geri nú ráð fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. þekki innlenda og erlenda blaðamenn það vel, að hann kannist við það, hve þeir reyna oft að segja sem sögulegast frá og fá þá oft stærstu fyrirsagnirnar með því að rangfæra staðreyndir eða upplýsingar. Ég geri t. d. alls ekki ráð fyrir því, að hv. 2. þm. Reykv. hafi sagt kommúnistablaðinu í Ósló, að hann væri ráðh. í íslenzku ríkisstjórn., eins og þetta blað þó sagði frá. Af þessu mætti hv. þm. álykta, að innlendir og útlendir blaðamenn eru sízt alltaf sannsögulir. Þeir fara ekki alltaf rétt með. Ég vil svo þakka hv. þm. fyrir það, að hann gaf mér tilefni til þess hér á Alþ. að leiðrétta ummæli sænsku blaðamannanna. Ég sagði ekkert saknæmt við þá, og það er helber skáldskapur, þau ummæli, sem þrjú blöðin segja eftir mér varðandi stefnu okkar gagnvart Rússum.