09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að það væri einkennilegt, að tveimur eða þremur sænskum blöðum skyldi hafa borið saman um nokkur atriði, sem ég teldi þó, að ég hefði ekki sagt. Þegar að er gáð, þá er þetta ekki þannig. Eins og ég hef þegar rakið, sagði blaðamaðurinn við Morgontidningen, en hann átti við mig rækilegast viðtal, ekkert í þessa átt. Var hann þó viðstaddur, þegar hinir blaðamennirnir voru hjá mér. Af þeim blaðaúrklippum, sem ég hef séð, er það að sjá, sem aðeins Dagens Nyheter hafi það eftir mér, að ég hafi gefið það til kynna, að samningurinn við Bandaríkin væri frávik frá pólitísku sjálfstæði okkar. Svenska Dagbladet segir ekkert um það, og hinum blöðunum ber ekki saman um þetta atriði. En hvað sem þessu líður, þá er þó það aðalatriði málsins, að ég hef ekkert slíkt sagt, enda er það, eins og ég hef áður bent á, mjög ólíklegt og óhugsanlegt, að ég hafi viljað láta hafa það eftir mér í erlendum blöðum, að bandaríski samningurinn væri frávik frá pólitísku sjálfstæði Íslands. Það er í fullu ósamræmi við skoðun mína og málflutning varðandi mál þetta. Það má segja, að þessi frásögn beri með sér, að hún sé röng.

Mér er ekki kunnugt um neitt viðtal við flokksbræður mína á Íslandi í sænskum blöðum, þar sem svipuð skoðun eigi að hafa komið í ljós, og ég get ekkert um það sagt, en tel það ólíklegt. En sé það hins vegar, mun það koma í ljós, og einnig hvort þá sé rétt eftir þeim mönnum haft. Og það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þegar slíkt kemur fyrir í erlendum blöðum og ég er borinn fyrir þessu, þá er full ástæða til að andmæla, enda hef ég þegar undirbúið viðtal við mig í Alþýðublaðinu, þar sem ég mótmæli þessum frásögnum sænsku blaðanna. Hv. 2. þm. Reykv. sagði það réttilega, að hættulegt væri vegna erlendra dóma að láta í l jós þá skoðun, að samningurinn um Keflavíkurflugvöllinn væri herstöðvarsamningur og þar væri bandarísk herstöð. Það er skaðlegt fyrir sjálfstæði Íslands. En mér hefði ekki dottið í hug, að hv. 2. þm. Reykv. væri að ávíta aðra fyrir að láta í ljós þá skoðun, því að hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans hafa látið þessa skoðun í ljós svo ákveðið og endurtekið hana svo oft, að það er áreiðanlegt, að hún er kunn á erlendum vettvangi. Ég vil taka undir með hv. þm., að slíkt er hættulegt. Vænti ég því, að hv. 2. þm. Reykv. og félagar hans hætti þessum óþurftarverkum gegn Íslandi og áliti landsins erlendis. Það mundi gleðja mig, ef þeir gæfu ekki framar meira og minna óvönduðum erlendum blaðamönnum vopn í hendur til að halda því fram, að hér væri herstöð erlends stórveldis. Það er mín skoðun, að víðs fjarri sé, að svo sé, og verður það okkur einungis til tjóns, ef á lofti er haldið.