09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Ég get ekki að því gert, þótt hann af pólitískum ástæðum vilji láta líta svo út sem sænsku blöðin hafi rétt eftir mér. Það verður að hafa það, og hann verður að sitja við sinn keip, ef hann vill, og ég býst við, að þess muni sjást merki í blaði hans. En það er ekkert óvenjulegt, að svona frásagnarvillur eigi sér stað hjá blaðamönnum, sem hingað koma. Blaðamaður, er kom hingað af tilefni Heklugossins, sendi t. d. út skeyti til blaðs síns, þar sem hann sagði, að þjóðarsorg væri hér vegna Heklugossins. Hann sá nefnilega, að flaggað var í hálfa stöng um allan bæinn, er hann leit yfir hann á föstudaginn langa. Þessir blaðamenn eru að skapa „senation“, og til þess búa þeir til æsingafregnir í blöð sín. En varðandi spurninguna um það, hvað íslenzka ríkisstj. hefði í hyggju að gera til þess að stöðva það álit erlendis, að hér væri um bandarískan herstöðvasamning að ræða, þá býzt ég við, að erfitt muni vera að stöðva það, sérstaklega vegna þess, að hér er starfandi stjórnmálaflokkur, sem heldur þessu fram, og það er kunnugt á erlendum vettvangi. Hins vegar vil ég taka undir það, er hv. þm. G-K. sagði, að það mundi æra óstöðugan, ef mótmæla ætti öllu því fleipri, sem hinir og þessir blaðamenn erlendir segja um íslenzk málefni. Og ég sé ekki, að íslenzka ríkisstj. hafi nú frekar en endranær tilefni til þess að láta koma fram mótmæli út af þessu fleipri erlendu blaðamannanna, sérstaklega þar sem stórblaðið, sem ég átti nákvæmast viðtal við, Morgontidningen, skýrir frá viðtalinu við mig með fjögra dálka fyrirsögn, sem ætti að falla hv. 2. þm. Reykv. vel í geð: Ryssarna avstängdes ej frän Ísland. Þetta er höfuðatriðið, og það sýnir, að það hefur ekki verið ætlunin að útiloka Rússa frá Íslandi. Sem sé þetta telur blaðamaðurinn það merkasta úr viðtalinu við mig, fyrir Morgontidningen.