09.04.1947
Neðri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Það er út af spursmálinu um þetta nafn. Dómsmrh. segir, að það hafi verið maður, sem hét Sigurður Guðmundsson, og þykir honum undarlegt, að þessir sænsku blaðamenn hafi haft samband við hann, og að annað föðurnafn hafi verið sett í blöðin. Ég skal þá taka það fram, að hér er talað um tvo menn, annar þeirra er Sigurður Guðmundsson, og út af þessum misskilningi hringdi blaðið Þjóðviljinn til þessara manna til þess að grennslast fyrir um, við hvern væri átt, og þá kemur í ljós, að það er dósent Sigurður Þórarinsson. Til þess svo að fullvissa mig um þetta, átti ég tal við Sigurð Guðmundsson og spurði hann að þessu, svo að þarna fer ekki milli mála.

Viðvíkjandi því, hvort ég og mínir líkar ættu að hafa fyrir því að „dementera“ þá vitleysu, sem eftir okkur er höfð, þá mætti það æra óstöðugan, því að meira að segja í þessu litla viðtali, sem forsrh. hefur átt við blaðamenn, hefur hann ekki getað látið vera að skrökva til um afstöðu okkar sósíalista. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þótt ég hafi ekki fyrir að „dementera“. Ég er ekki forsrh. á Íslandi, og þess vegna er ekki lagt svo mikið upp úr því, sem kann að hafa verið eftir mér haft. Hitt er allt annað mál, hvað sjálfur forsætisrh. segir og „dementerar“.