10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þetta verða aðeins fá orð og út af því, að mér finnst hv. 4. landsk. leggja nokkuð frítt út það. sem ég og hv. 7. landsk. höfum sagt, er hann segir, að við höfum enga leið séð til tekjuöflunar nema að taka af þeim fátæku. Það er rétt, að ég sagði. að ekki væri nóg að tala með almennum orðum um að taka af þeim ríku. Ég tók fram, að það þyrfti að benda á leiðir og koma með tillögur. Almenn slagorð hafa þar ekkert gildi. Við 7. landsk. vorum að lýsa eftir einhverjum leiðum hjá honum, en þær hefur hann enn ekki bent á, og er undarlegt, að hv. þm. stekkur á dyr, þegar verið er að tala við hann. Hann nefndi þó nokkur atriði um það, hvernig tekjurnar skyldu teknar af þeim ríku. Hann nefndi til dæmis, að fjölga mætti einkasölum. Það er hægt. Ríkið gæti meira að segja sett upp einkasölu á öllum innflutningi og hagað svo til með allsherjareinkasölu, að enga tolla eða skatta þyrfti að greiða. En ef allsherjar einkasala ætti að gefa allar ríkistekjurnar, þá yrði þjóðin eftir sem áður að borga ágóða ríkissjóðs. Gróðinn af einkasölunni hlyti alltaf að vera tekinn af almenningi. En að því leyti mundi verða tekið af þeim ríku, að nú rennur mikill hluti ágóðans í vasa einstaklinga, en vitanlega yrðu starfsmenn við einkasöluna, sem kaup þyrfti að greiða. Það er áreiðanlegt, að hvort sem einkasalan yrði meiri eða minni, þá gæti ágóðinn ekki komið annars staðar frá, en frá almenningi. Þá nefndi hv. 4. landsk. eignakönnun. Eignakönnunin er nú eitt af atriðunum í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., og þótt ekki sé komið fram frv. um það efni enn þá, þá verður það vafalaust, áður en þessu þingi lýkur. Með eignakönnun geta fengizt peningar eða grundvöllur til hærri skatta á ríku mennina. En þetta er ekkert nýmæli hjá hv. þm., heldur leið, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að fara. Loks bendir svo hv. þm. á þriðju leiðina, sem er að leggja hækkaða tolla á lúxusvörur, en það er einmitt það, sem þetta frv. fer fram á, og svo eyðir hann heilum degi í að mæla gegn þessu frv. Ég held því, að ef hann ætlar að gera þingmannsskyldu sína og benda á leiðir til að afla þeirra 35 milljóna, sem ríkissjóður nú þarfnast, þá verði hann að gera betur og benda á eitthvað annað, en t.d. allsherjareinkasölu, því að sá gróði, er ríkið hlýtur af henni. fæst aðeins frá almenningi. Ríkissjóður getur ekki grætt 200 milljónir á innflutningsverzluninni, nema með því að selja vöruna til almennings þeim mun dýrara, en hann kaupir hana.