05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það er furðulegt, að hv. 2. þm. Reykv. skuli halda því fram, að samningurinn um afnotin af Keflavíkurflugvellinum hafi ekki verið haldinn af hálfu Bandaríkjastjórnar, því að enn þá hefur ekki neitt komið fram, sem bendir til þess, að samningurinn verði ekki haldinn. Það er rétt, að það er eftir að koma ýmsum atriðum, sem þessi samningur er um, í það lag, sem ætlun og samningar standa til, þarna suður frá. En það stendur í því sambandi á því, að af hálfu flugmálastjóra hefur vantað til skamms tíma alla skynsamlega grg. og till. um fyrirkomulag flestra atriða þarna suður frá, þannig að það gæti orðið stoð ríkisstj. til þess að semja reglur um þetta efni.

Í Þjóðviljanum í gær var sagt, að ríkisstj. hafi stöðvað hjá sér uppkast að reglugerð, sem hefði komið um þessi efni frá flugvallarstjóra og flugmálastjóra. Eftir því sem mér er tjáð, barst eitthvert frumuppkast að meginreglum um þetta til stjórnarinnar fyrir tveim dögum, og það er öll stöðvunin, sem hefur orðið á því máli hjá ríkisstj.