05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vildi rétt í sambandi við þetta beina því til hæstv. utanrrh. í sambandi við upplýsingar, sem hann gefur, hvort þeim samningum, sem átti að framkvæma samkv. l. um Keflavíkurflugvöllinn, sé lokið. Það var sett sérstök n. af hálfu ríkisstj. til þess að semja um yfirtökuna, og fróðlegt væri að heyra, hvort þessari yfirtöku væri lokið, og samningnum um það, hvað Íslendingar eiga að reka þarna, og annað slíkt. Ég lagði áherzlu á það, þegar frv. til þeirra l. var rætt, að þau l. væru gerð nákvæmari, til þess að ekki yrðu mjög mörg reglugerðarákvæði í þessu sambandi. Það var fellt. Og mér er ekki kunnugt um, að reglugerð sé enn komin um þetta.

Ég þekki ekki rekstur flugvallarins nú. En það, sem gert var ráð fyrir af alþm., er ekki klárað í sambandi við flugvöllinn. Hitt stendur óhaggað, að aðalrök þeirra hv. þm., sem greiddu atkv. með Keflavíkurflugvallarsamningnum 5. október í haust, voru þau, að svo framarlega að þessi samningur væri ekki gerður, væri ekki víst, hvenær hinn ameríski her færi burt héðan af Íslandi, og þeir túlkuðu það sem sigur fyrir íslenzkan málstað, að þessi samningur væri gerður, af því að nú, eftir samningsgerðina, flyttist ameríski herinn burt. M. ö. o., rökin voru, að bandaríski herinn sæti utan við lög og rétt, ef Bandaríkin fengju ekki samning viðkomandi Keflavíkurflugvellinum.