10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Siglf. skal ég leyfa mér að geta þess, að það eru allmikil vandkvæði, eins og nú standa sakir, um lánaútvegun til bygginga verkamannabústaða. En það hefur verið reynt að vinna að því, eftir því sem föng frekast hafa leyft, að afla þó fjár til þeirra bygginga, sem nú eru í gangi af verkamannabústöðum.

Fyrir einu eða tveimur árum síðan var gerð veruleg tilraun með það að bjóða út stórt lán fyrir Byggingarsjóð verkamanna. Sáralítið af þessu láni fékkst. Sjóðurinn hefur ekkert fé, eins og sakir standa, en Landsbankinn hefur lánað honum um 4 millj. kr. eins og nú er. — Mér er kunnugt um, að þessi vandræði steðja að á Siglufirði, sem hv. þm. hefur hér lýst, og ég hef líka vonir um, að það verði hægt að ráða fram úr því á þann veg, að verktaki haldi áfram byggingum þarna á Siglufirði, en á því er mikil nauðsyn, eins og undirstrikað var af hv. þm.

Annars er það svo um byggingar verkamannabústaða, eins og hv. þm. Siglf. veit, að í löggjöfinni um það mál er gert ráð fyrir, að byggingarsjóður fái lán til þess að veita einstökum byggingarfélögum verkamanna hingað og þangað um landið. Þetta hefur sjóðurinn reynt, árangurslítið eða jafnvel árangurslaust, og hefur þess vegna orðið að grípa til þess til bráðabirgða að fá lán í Landsbankanum til þess að geta haldið áfram þeim byggingum, sem eru nú á ferð, einkum á Norðurlandi, einmitt á þeim stöðum, sem hv. þm. taldi upp. — Ég vil vænta, að það takist að útvega svo lán til þessara bygginga, að þær geti haldið áfram, því að það er mikil nauðsyn á því. En hvað snertir útvegun á miklu stærri lánum til bygginga verkamannabústaða, þá er ekki hægt að segja um það mál á þessu augnabliki. En mér er kunnugt um, að stjórnin muni á sínum tíma taka til athugunar, hvaða möguleikar væru á því að útvega lán í stærri stíl til þessara bygginga, og hefur þegar athugað það að nokkru. En ég sem sagt vænti þess, að bæði á Siglufirði og annars staðar á Norðurlandi geti þessum byggingum verið haldið áfram og stöðvist ekki, því að þess er mikil þörf, ekki sízt á Siglufirði, því að þar býr talsverður fjöldi fólks í síldarbröggum, eins og hv. þm. þekkir, og allir, sem þekkja til á Siglufirði, vita, að þeir eru ekki hæfir til íbúðar til vetrarsetu, enda ekki til þess byggðir, heldur til þess, að verkafólk noti þá til íbúðar yfir blásumarið. En það var búizt við, að þessir verkamannabústaðir, sem nú er langt komið að byggja, mundu létta nokkuð þar á.

Annars er það svo, viðkomandi því, sem hv. þm. minntist á, að þegar Síldarverksmiðjur ríkisins neyddust til þess að taka upp stórkostlegt húsnæði á Siglufirði, til þess að fagmenn, sem unnu fyrir þær, gætu haft húsnæði, þá gekk það út yfir fast búsett fólk á Siglufirði. Og gæti verið spurning um það, hvort ríkisverksmiðjurnar ættu ekki að reyna að reisa eitthvað af íbúðum sjálfar fyrir starfandi fagmenn sína, eins og sakir standa nú á Siglufirði.

En ég vonast til þess, að hægt verði að greiða úr þessum vandamálum á Siglufirði og annars staðar á Norðurlandi, þannig að byggingar þær á verkamannabústöðum, sem nú eru í smíðum, geti haldið áfram.