10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans. Ég vil bara benda á það að lokum, að þörfin er orðin svo brýn, að í þessum efnum er nauðsyn aðgerða nú tafarlaust, og ef þessir verktakar á Siglufirði neyðast til þess að grípa til róttækra aðgerða, þá skaðast byggingarfélögin á Siglufirði um líklega hundruð þúsunda króna. Það verður því að fá einhverja bráðabirgðalausn á þessum málum fyrst í stað, meðan verið er að finna einhverja varanlega lausn málanna. Þeim, sem sáu það fyrir, að þessir örðugleikar gætu orðið á framkvæmd þessara l. um verkamannabústaði, og málin heyra undir hjá ríkisvaldinu, ber skylda til að greiða úr eftir föngum. Á það var bent hér í þinginu, að það þyrfti að ákveða, að Landsbankinn skyldi vera skyldugur til að lána til þeirra bygginga, sem byggðar væru samkv. þeim l. og vitað var, að byggðar yrðu á næstunni, til þess að bygging þeirra þyrfti ekki að stöðvast. Þá áleit meiri hl. hv. þm., að slíkt væri ekki tiltækilegt og að ekki væri þörf á því. En það hefur komið á daginn, að það hefur verið full þörf á því, og ég sé ekki annað en að ríkisstj. þurfi að fara fram á það við Landsbankann, að hann leggi fram það fé að láni, sem nauðsynlegt er að leggja fram til þess, að þarna verði ekki úr málaferlum á Siglufirði, vegna þess að verktakar þurfa að fá kröfur sínar vegna þessara bygginga greiddar.

Ég vænti þess, að eitthvað verði í þessu gert af hálfu hæstv. ríkisstj. nú sem allra fyrst.