10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði hjá þeim hv. 1. þm. Eyf. og hv. 7. landsk., sem ég vildi gera að umtalsefni. Ég skal þá byrja á því að svara þeim glósum, sem hv. 7. landsk. sendi hæstv. fyrrv. atvmrh. út af Landssmiðjunni, en rekstur hennar undanfarið vildi hann taka sem dæmi um það, að ríkisfyrirtæki bæru sig ekki, og hefði maður haldið, að einhver annar hefði orðið til þess. En sannleikurinn er sá, að þegar fyrrv. atvmrh. tók við, þá var fyrirrennari hans búinn að skipa Landssmiðjunni stjórn og forstjóra. Það ólag, sem var á rekstri smiðjunnar, var fyrst og fremst því að kenna, að forstjórinn var óreglumaður. Þótt leiðinlegt sé að þurfa að lýsa því yfir hér, þá verður svo að vera, þegar fyrrv. atvmrh. er ásakaður. Það, sem fyrrv. ráðh. svo gerði, var aðeins það að víkja forstjóranum frá embætti og það eina, sem hægt er að ásaka hann fyrir, er, að hann skyldi ekki gera það fyrr. Þær röksemdir 7. landsk. að taka rekstur landssmiðjunnar sem dæmi um, að ríkisfyrirtæki beri sig ekki, geta því ekki staðizt, og ég verð að segja, að eðlilegra hefði verið, að slíkt álit kæmi frá öðrum flokki.

Hv. 1. þm. Eyf. talaði hér um skattaþörf ríkissjóðs og ásakaði sósíalista fyrir að vilja hækka fjárlögin. Ég man ekki betur en tvo s.l. vetur kæmu fram hækkunartill. við fjárlögin frá hans flokki, án þess að bent væri á nokkrar leiðir til tekjuöflunar. Það er annars undarlegt, að það er eins og forsvarsmenn þessa frv. ætlist til, að hv. 4. landsk. hafi helzt tilbúin frv. við þessa umr. um öflun nýrra tekna í ríkissjóð. Ég held nú, að andstöðumenn fyrrv. stjórnar hafi yfirleitt talið, að það væri verk stjórnarinnar. Ég vil leyfa mér að benda á, að það er ekki hægt á þessu stigi, þegar stjórnin kastar frv.sínum inn í þingið og ætlast til þess, að þau séu barin í gegn á einum degi. Ef nefnd hefði verið gert kleift að fjalla rækilega um þessi mál, þá hefðu sósíalistar getað komið fram með sínar till. Það er sannarlega einkennilegt, þegar fyrrv. stjórnarandstæðingar fjargviðrast út af því, að við sósíalistar skulum ekki leggja fram till. til tekjuöflunar. Það gerðu framsóknarmenn aldrei í sinni stjórnarandstöðu. Auk þess gefst stjórnarandstæðingum nú enginn tími til að koma fram með slíkar till. eins og þessi mál ber að frá hendi hæstv. ríkisstj.

Haustið 1945 var gerð tilraun til að koma í veg fyrir, að verðbólgan yxi mikið. með því að samkomulag var gert um það, að þau 9,8%, sem landbúnaðarafurðir hefðu átt að hækka í verði eftir sexmannanefndar-samkomulaginu, skyldu ekki ganga inn í landbúnaðarvísitöluna. Og á þessum forsendum var gefið eftir af neytenda hálfu, þannig að nokkur hluti af verðhækkun á neyzluvörum var tekinn út úr vísitölunni. En ég man ekki betur en að heimtað væri, að landbúnaðarafurðirnar væru verðlagðar upp í topp og líka heimtuð þau 9,8%, sem gefin voru eftir áður, þó að það hlyti að hafa í för með sér stórkostlega hækkun á vísitölunni og stórkostlega hækkun á niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Þetta, sem gert var í fyrra, þegar íslenzka smjörið var tekið út úr vísitölunni og neitað að taka upp þessi 9,8%, gerði það að verkum, að niðurgreiðslur urðu 10 millj. kr. minni,en ef farið hefði verið eftir fyllstu kröfum í þessum efnum. Þetta, að leggja þetta til, var tilraun til þess að lækka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. og ég hafði von um, að það væri þá hægt að færa lengra út þessa aðferð og halda áfram með hana til lækkunar á dýrtíðinni. En sú von mín hefur brugðizt, að þetta yrði reynt. Og nú er ekki aðeins svo komið, að við greiðum þetta niður úr ríkissjóði, heldur hafa verið greiddar niður aðrar vöruhækkanir úr ríkissjóði. Og þegar svo er komið, sjá allir, hvert stefnir með afkomu ríkissjóðs.

Þá vil ég enn þá leyfa mér að minna á þær fullyrðingar hv. 1. þm. Eyf., að ef allsherjareinkasala ætti að gefa ríkistekjur, þá mundi sá gróði koma niður á almenningi sem álögur, og vildi hann nota þetta sem röksemd fyrir því, að ekki væri eðlilegt að nota einkasölu til þess að afla ríkissjóði tekna. Telur hann þá, að vörutegundir þær, sem líklegastar eru til að gefa einstaklingum gróða, mundu ekki gefa ríkinu sama gróða, ef það verzlaði með þær? Telur hann, að ríkið mundi ekki geta grætt á verzlun með vissar vörutegundir, þar sem verzlunarstéttin græðir nú eins mikið og hún gerir? Ég tel ekki vafa á því, að það mundi vera hægt að láta ríkið reka einkasölu á ýmsum vörum til tekna fyrir ríkissjóð, án þess að það kæmi á neinn hátt niður á almenningi í vöruverðinu. Almenningur verður nú þegar að borga verzlunarálagninguna á þeim vörum, sem hér kæmu til greina. (BSt: Ég tók það fram, en ég hélt, að almenningur þyrfti að borga þetta samt sem áður, þótt um ríkiseinkasölu væri að ræða.) Almenningur þarf að borga álagninguna nú, og hann verður líka að borga hana, þó að hún sé tekin eftir öðrum leiðum. En það væri sá munur á því, að ef um ríkiseinkasölu væri að ræða, þá mundi verzlunarágóðinn renna til ríkissjóðs sem tekjur fyrir hann. Í sambandi við þetta vil ég benda á þær tekjur. sem ríkissjóður hefur af áfengisverzlun og tóbaksverzlun, og ég held, að það megi fullyrða, að þannig mætti taka ýmsar fleiri vörur.

Þá var hv. 7. landsk. þm. með fyrirvara um það, að það væru ekki þessi mál, sem samkomulagið um stjórnarmyndun hefði strandað á. því hefur raunar verið yfir lýst, að þarna hafi þessi hv. þm. farið með ósannindi. Og það liggur svo ljóst fyrir, að hann er svo rakalaus í þessu máli, að hann verður að grípa þarna til algerðra ósanninda. Ég get lýst yfir, að í fyrrv. stjórnarsamvinnu, sem hv. 7. landsk. þm. var ekki síður kunnugur en ég, þá var Alþfl. oftar en einu sinni búinn að leggja að Sósfl. um að fara þessar leiðir, eins og t.d. að leggja á benzínskatt, þó að Sósfl. fengist aldrei til þess að samþykkja það.