12.12.1946
Sameinað þing: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi var lögð fram till. til þál. um greiðslu ríkissjóðs til jöfnunarsjóðs kjötsins. Þetta var gert í þeim tilgangi, að hægt væri að reikna út kjötverð til bænda fyrir áramótin með því verði, sem sá útreikningur sýndi, og þess var vænzt, að það fengi þá afgreiðslu, að það gæti komið bændum til góða á ársreikningum þeirra 1946. Um svipað leyti var lögð fram till. til þál. um kaup ríkissjóðs á ull, sem ég er meðflm. að. Það var gert til þess, að bændur gætu fengið verð fyrir ullina sína síðustu fjögur árin, sem ekki er enn búið að gera upp, og það var upplýst, að um litla ullarsölu væri að ræða frá fyrri tveimur árunum, en nokkru meiri frá hinum síðari. Þessu var vísað til fjvn. Nú er komið nærri áramótum, svo að ég finn ástæðu til þess að spyr ja að því, hvers vegna þetta mál fái ekki afgreiðslu, en sé saltað svona í n. Ég vil vænta þess, að hv. fjvn. sjái um, að þetta mál fái afgreiðslu þingsins, hvort sem hún verður sú, að það verði látið viðgangast, að bændur fái ekki uppgert sitt ullarverð, eða ekki. Ég geri ráð fyrir, að aðrar stéttir þjóðfélagsins gerðu sig ekki ánægðar með það að bíða eftir kaupgreiðslu í 4 ár, en hér hefur það verið gert af ríkissjóði að þvinga bændur til þessa. Ég vil vona, að hv. fjvn. sjái um, að þetta verði gert fyrir næstu áramót.