05.02.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

Stjórnarskipti

Einar Olgeirsson:

Sósíalistaflokkurinn er í andstöðu við þessa ríkisstj. Heildsala- og landsbankavaldið, peningavaldið í Reykjavík, hefur lamið þessa stjórn saman þvert ofan í vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í síðustu kosningum. Með þessari stjórn taka þeir menn, sem samþykktu flugvallarsamninginn, einir við völdum á Íslandi. Með þessari stjórn taka þau öfl, sem fjandsamlegust hafa verið nýsköpuninni, yfirráðin. Fagrar yfirlýsingar um nýsköpun, jafnvel góður ásetningur í þessum stjórnarherbúðum, mun ekkert duga, meðan hugrekki og vilja vantar til þess að lyfta þeirri loppu dauðans af atvinnulífi þjóðarinnar, sem hvíldi eins og mara á stórhuga framfaraviðleitni fráfarandi ríkisstj., brjóta landsbankavaldið á bak aftur. En um það er ekki orð í stjórnarsamningnum.

Þessi ríkisstj. mun geta lifað góðu lífi á verkum fráfarandi ríkisstj., líkt og heildsalarnir lifa góðu lífi á vinnu þjóðarinnar. Togarar nýsköpunarstjórnarinnar munu nú sigla í höfn, einn til tveir á mánuði, en hve marga mun þessi stjórn kaupa sjálf? Það heyrist ekki orð um það né nokkrar raunhæfar nýsköpunarráðstafanir í yfirlýsingu ríkisstj. Hvað er nú orðið um skilyrði þess flokks, sem áður þóttist öll skilyrði hafa sett fyrir nýsköpun atvinnulífsins og öðrum umbótum, Alþfl.? Eru þau nú gleymd, af því að kosningar eru nýafstaðnar, en ekki fram undan eins og í fyrra?

Þessi stjórn tekur við á mestu uppgangstímum, sem yfir Ísland hafa komið. Fram undan er hækkandi verð á öllum okkar afurðum og ótakmarkaðir markaðsmöguleikar, ef hagnýttir eru. En þjóðin þarfnast þess, að sá auður, sem streymt hefur inn í landið og getur haldið áfram að streyma inn í það, verði fyrst og fremst í höndum þjóðarheildarinnar, en safnist ekki á örfáar hendur og skapi hér og viðhaldi efnahagslegu einræði nokkurra auðmannafjöldskyldna. Þjóðin þarfnast þess, að gróðamöguleikar verzlunarauðvaldsins hverfi úr sögunni, en fjármagninu sé í enn stærra stíl en hingað til beint til framleiðslunnar til þess að auka velferð almennings á öllum sviðum.

En með þessari stjórn fá þau öfl, sem enga trú hafa á landi og þjóð, heildsalarnir og bankavaldið, — afæturnar í þjóðfélaginu, völdin yfir framleiðendunum, jafnt launþegum sem eigendum atvinnutækjanna. Bankavaldið er farið að láta framleiðendurna finna það nú þegar. Vér efumst ekki um vilja afturhalds þessa til þess að leggja til atlögu við alþýðu landsins og leiða aftur atvinnuleysi og kauplækkun yfir fólkið. Alþýðan er reiðubúin að taka á móti, hvenær sem á hana yrði ráðizt. En réttlætisgrundvöll mundi skorta fyrir öllum slíkum ráðstöfunum gegn henni. Nú væri þvert á móti hægt að skapa efnahagslegan grundvöll til þess að útrýma með öllu fátæktinni úr landi voru, versta bölinu, sem þjóðin hefur þekkt. Sósíalistaflokkurinn vildi vinna að því að það væri gert. Nú er í staðinn mynduð stjórn til þess að viðhalda og efla auð og völd nokkurra afturhaldssamra kaupsýslumanna og voldugra, þröngsýnna embættismanna í bönkum ríkisins.

Sósíalistaflokkurinn mun berjast gegn þessari ríkisstj. Hann mun hins vegar láta málefni ráða um afstöðu sína til frv. hennar og aðgerða og styðja það, sem nýtilegt kynni að koma frá henni. Hann mun, áður en langt um líður, rannsaka, hverju fylgi þessi stjórn eigi að fagna á Alþ., og kærast væri honum, að það yrði einnig reynt sem fyrst, hvert fylgi hennar væri með þjóðinni.