18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

Olíustöðin í Hvalfirði

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Í tilefni af ummælum, sem fram hafa komið í dagblaðinu Þjóðviljanum í morgun og hafa í sér mikla og geigvænlega árás á ríkisstj., ef sönn væru, þá þykir mér rétt að fara um það mál, er þar um ræðir, nokkrum orðum.

Í blaðinu er gert að árásarefni á ríkisstj., að hún hafi fyrir nokkru samþ. sölu á olíustöðinni í Hvalfirði til tveggja félaga, Olíufélagsins h/f annars vegar og Hvalveiðafélagsins h/f hins vegar. Gangur þessa máls er sá, að í desember var ríkisstj. boðin til kaups olíustöðin í Hvalfirði, sem þá var í eign Bandaríkjastjórnar. Það tókust þegar samningaumleitanir um þetta, og þeim lyktaði með samningi, sem var undirritaður 30. jan. s. l. Var kaupverðið 2 millj. ísl. kr. Kaupverðið er svona lágt vegna þess, að af hálfu Íslendinga var því haldið fram, að stöðin væri illa sett og óhentug til varanlegs rekstrar og yrði því að miða kaupverðið við niðurrif. Voru öll olíufélögin hér á landi sammála um, að ekki væri vænlegt til frambúðar að starfrækja olíustöð þarna, a. m. k. ekki í eins stórum stíl og þar er nú. Hins vegar hefur komið fram, að það voru einkum þrír aðilar, er höfðu áhuga á að fá þessa stöð eða einhvern hluta hennar í sínar hendur. Sá fyrsti var Hvalveiðafélagið, nýstofnað félag, í öðru lagi Olíufélagið h/f, hlutafélag, sem S. Í. S., samband kaupfélaganna og olíusamlög víða um land hafa stofnað ásamt nokkrum einstaklingum, eingöngu í því skyni að fullnægja formi laganna. Annars er félagið í raun og veru eign sambands kaupfélaganna og olíusamlaganna. Þetta er algerlega íslenzkt félag í einu og öllu og hefur þann eina tilgang eins og önnur hliðstæð félög að verzla með olíu. Hefur það í því augnamiði gert samning við erlent olíufélag um kaup á olíu um nokkurt skeið. Félagið sjálft er algerlega íslenzkt og ekki að neinu leyti í höndum erlendra manna, hvorki beint né óbeint. Sama er hægt að segja um Hvalveiðafélagið. Þriðji aðilinn, sem hafði áhuga fyrir málinu, var Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda eða einstakir meðlimir þess. Var það vegna hinna nýju togara, sem nú eru að koma til landsins. Um öll þessi félög er svo ástatt, að þau hafa fram að þessu ekki haft neinn stað fyrir starfsemi sína. Ég hygg, að allir séu sammála um, að Hvalfjörður sé vel í sveit settur einmitt fyrir Hvalveiðafélagið. En hins vegar hvað snertir Olíufélagið og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, þá hafa þeir aðilar báðir litið svo á, að þessi stöð væri ekki líkleg í núverandi formi til þess að verða heppileg fyrir framtíðarrekstur þeirra. Hins vegar er mjög mikill skortur á olíugeymum hér á landi, og má í raun og veru segja, að starfsemi Olíufélagsins og hinna nýju botnvörpuskipa mundi að verulegu leyti hafa lamazt, ef þessir geymar hefðu ekki verið fyrir hendi, því að það tekur áreiðanlega fleiri en eitt ár eða tvö að koma upp nægum geymum, eins og nú standa sakir. Af þessum orsökum var það, að þessir aðilar lögðu á það mikla áherzlu að fá olíustöðina í Hvalfirði. Af hálfu ríkisstj. var lögð á það áherzla, að þessir þrír aðilar kæmu sér saman um óskir sínar til ríkisstj., svo að ekki þyrftu að verða árekstrar þeirra í milli. Niðurstaðan af þeim samningaumleitunum varð sú, að 11. marz 1947 ritar Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda ríkisstj. bréf, þar sem segir m. a.: „Togaraeigendur mæla með því, að Olíufélaginu h/f verði seld nefnd olíustöð með öllum mannvirkjum og tækjum, sem eru nauðsynleg til þess að reka stöðina á öruggan og tryggilegan hátt.“ Bréfið er undirritað af Kjartani Thors fyrir hönd félagsins. Þetta var gert, eftir að þeir einstaklingar í félaginu, sem höfðu hagsmuna að gæta í þessu sambandi, höfðu náð samkomulagi við Olíufélagið h/f um sameiginlega þjónustu fyrir báða þessa aðila um tiltekinn tíma. Og það má fullyrða, að ef geymarnir hefðu verið rifnir niður og ekki látnir þessum félögum í té, þá hefði það orðið til stórkostlegs baga eða stöðvunar fyrir hina nýju togara, eins og nú standa sakir, og hefði það haft í för með sér stórt fjárhagslegt tjón fyrir landið. Einnig hefði það dregið mjög úr starfsemi Olíufélagsins, sem í raun og veru er ekkert annað en samtök kaupfélaganna og olíusamlaganna víðs vegar í landinu. Þegar þetta bréf frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda var komið í hendur stjórnarvaldanna, þá skrifaði nefnd setuliðsviðskipta ráðuneytinu bréf, dags. 14. marz 1947, og leggur þar til, að þessar eignir verði seldar Hvalveiðafélaginu h/f og Olíufélaginu h/f. Síðar í marz áréttar nefndin þessa till. í ódagsettu bréfi, er barst ráðuneytinu síðustu dagana í marz, og gerir um leið frekari grein fyrir málinu. Var þessu þannig til hagað, að 1/3 verðmætisins féll í hendur Hvalveiðafélagsins, en 2/3 í hendur Olíufélagsins, auk nokkurra lausra muna, svo sem tankskips, sem ráðgert var að selja öðrum aðilanum, þannig að upp úr öllum eignunum, sem kostuðu nokkuð yfir 2 millj., fengist ríflegt kostnaðarverð, eða 2–3 hundruð þús. fram yfir.

Nú var mér kunnugt um, að nokkurrar tortryggni gætti af hálfu sumra varðandi mál þetta. Vildi ég af þeim orsökum fara varlega í þetta og krafðist þess vegna grg., áður en geymarnir voru afhentir, af hálfu þessara aðila um það, með hverjum hætti þessa geyma ætti að nota. Slík grg. var mér síðan send með bréfi, dags. 20. marz 1947, af hálfu Olíufélagsins, og fékk ég sérfróða menn, eftir því sem völ er á hér á landi, til þess að athuga hana í einstökum atriðum. Það var álit þessara manna allra, að grg. væri ekki hægt að hnekkja í neinu verulegu atriði. Það er að vísu svo, að þarna er um allmikla geyma að ræða, sem taka mikið olíumagn. En bæði er það, að þeir eru ýmissa tegunda og margs konar olíumagn þarf að geyma, og verður því geymslurímið ekki notað að fullu og því ódrýgra en ella. Botnvörpuskipaeigendur töldu sig á þessu stigi eiga erfitt með að segja um, hversu mikið rúm þeir þyrftu fyrir sig í þessum geymum. En óskir þeirra, sem þeir höfðu borið fram í bréfi 1. jan. 1946, voru á þá leið, að þeim yrði ætlað pláss fyrir 30 þús. smál. af olíu. Það er ljóst, að ef veruleg breyting yrði á togaraflotanum frá því, sem nú er búið að semja um, þá þyrfti geymslurúmið að vera mun meira, og ef flotinn verður aukinn, eins og nú er talað um, þá mundu eftir þessu hlutfalli að dæma geymarnir í Hvalfirði ekki hrökkva til. Sýnir það glöggt, um hversu háar tölur er hér að ræða varðandi hugmyndir útvegsmanna í þessu efni. En í grg. Olíufélagsins, sem þeir sérfræðingar, sem ég hef leitað til, hafa ekki treyst sér til að hnekkja í einstökum atriðum, er því lýst yfir af hálfu félagsins, að þeir geymar, sem ekki þyrfti að nota við rekstur stöðvarinnar, yrðu rifnir niður og fluttir til annarra staða á landinu eða ráðstafað á annan hátt eftir því, sem félagið teldi æskilegt.

Ég athugaði það verulega, hvort hagkvæmt væri fyrir ríkið að halda þessum eignum og ef til vill leigja þær til þessara nota, en þeir menn, sem vanir eru meðferð þessara mála af hálfu ríkisins, mæltu gegn því og vildu, að geymar þessir væru í því ástandi, að það væri ekki fengur fyrir ríkið að þurfa að halda þeim við. Auk þess væri það sýnilegt, að fjárhagslegur kostnaður við niðurrif og flutninga væri svo mikill, að mjög hæpinn vinningur væri að leggja út í slíkt. Mér sýndist engu að síður sjálfsagt að búa þannig um hnútana vegna þeirrar tortryggni, sem ég vissi, að af hálfu sumra manna var í þessu efni, að ríkið hefði sjálft úrslitatök í því, að þarna væru ekki geymar, sem ætla mætti, að notaðir yrðu til annarlegra þarfa. Þegar ég var búinn að kynna mér öll gögn í þessu máli og bera mig saman við ýmsa aðila um þetta efni, þá ritaði ég 31. marz 1947 bréf til setuliðsnefndarinnar, er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Með tilvísun til bréfs n. frá 14. marz s. l. og síðari grg. n., dags. í marz, hefur ráðuneytið ákveðið að heimila n. að selja olíustöðina í Hvalfirði ásamt tilheyrandi eignum, öðrum en landinu, er stöðin er á, svo sem nánar er greint í framangreindum till. nefndarinnar. Um þann hluta stöðvarinnar, sem ráðgert er að selja Olíufélaginu h/f, skal þó tekið fram, að geymarnir eru seldir til eðlilegs rekstrar félagsins og til niðurrifs að öðru leyti, og hefur ríkisstj. heimild til þess að þrem árum liðnum að krefjast þess, að stöðinni verði komið í það horf, sem samsvarar þeim rekstri, er reynslan hefur sýnt, að þörf er á. Þennan fyrirvara verður að gera á fullnægjandi hátt, þegar salan fer fram.“

Eins og málið lá fyrir, var ekki unnt á þessu stigi að gera sér grein fyrir, hver eðlilegur rekstur stöðvarinnar yrði eða hversu rúmfrekur. Taldi ég því skynsamlegast að láta reynsluna skera þar úr og áskildi ríkinu vald til þess að koma stöðinni í það horf, sem reynslan sýndi, að hæfilegum tíma liðnum, að væri heppilegt. Hitt fannst mér ekki koma til mála, að rífa niður þá olíugeyma, sem nú eru uppistandandi, er mundi leiða til stöðvunar á hinum nýja togaraflota og setja bátaflotann í augljós vandræði. Ég vildi ekki láta ímyndaða hræðslu. eða uppgerðarhræsni ýta mér út í svo þjóðskaðlegan verknað.

Þjóðviljinn segir, að samningar þessir séu gerðir fyrir Bandaríkjaher og ákveðinn amerískur borgari hafi staðið að þeim. Ég lýsi því hér með yfir, að við lögðum embættisheiðri mínum, að þau ummæli eru tilhæfulaus með öllu. Síðan ég tók við starfi utanrrh., hefur Bandaríkjastjórn aldrei sýnt nokkurn áhuga fyrir því, hvort olíustöðin í Hvalfirði yrði látin standa eða hún yrði lögð niður. Ég mun óhræddur leggja það undir rannsókn, sem gerzt hefur í þessu máli.

Því hefur verið haldið fram, að tortryggilegt sé, að engin opinber tilkynning hafi verið gefin út um þetta mál. En hér er um hliðstætt mál að ræða og afhending annarra setuliðseigna, sem farið hefur fram, án þess að nokkur tilkynning hafi verið um það gefin, enda eru slíkar tilkynningar ástæðulausar fyrr en að gefnu tilefni, eins og nú er orðið. Það, sem skeð hefur, þolir hvers konar gagnrýni, enda geta þeir menn, er þess óska, kynnt sér gögn málsins. En þeir vinna þjóðhættulegt starf, er með ósönnum ásökunum reyna að telja umheiminum trú um, að útlend herstöð sé hér á Íslandi til notkunar í styrjöld, er sömu menn halda fram, að sé í uppsiglingu. Þeir menn, sem sífellt bera fram þær upplognu sakir, stofna öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar í hættu. Ég tel mér skylt hér á Alþingi að afhjúpa blekkingar þessara manna fyrir þingheimi og alþjóð og lýsa því hættulega starfi, sem þeir hafa með höndum.