18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

Olíustöðin í Hvalfirði

Einar Olgeirsson:

Hæstv. utanrh. vill halda því fram, að þau orð, sem stóðu um þetta mál í Þjóðviljanum, hafi verið til þess að spilla fyrir utanríkisviðskiptum við Sovétríkin, og er með áminningar í því sambandi. En ég held, að hann hefði átt að líta sér nær og gefa fyrst sessunaut sínum áminningu, því að enginn hefur eins greinilega reynt að spilla fyrir utanríkisviðskiptum okkar eins og forsrh., sem hefur leyft sér að láta það í ljós við sænska blaðamenn, að við hefðum orðið að veita Bandaríkjunum herstöðvar, því að annars hefðu Rússar heimtað þær. Og svo greinilega hafði forsrh. gert þetta, að blaðamaðurinn frá blaðinu, sem vinveittast er forsrh., Morgentidningen, reyndi ekki að breiða yfir þessa skoðun ráðh. Þegar ég svo fer að ræða þetta hér á Alþ., þá neitar ráðh. að hafa sagt þetta, en neitun hans er ekki sterkari en það, að þegar ég krefst þess, að hann „dementeri“ og það erlendis, þá lætur hann nægja að mótmæla með viðtali í Alþýðublaðinu. Ef slík framkoma er ekki beinlínis tilraun til þess að spilla fyrir samningum við aðrar þjóðir, þá veit ég ekki, hvernig það er hægt. Ég býst við, að núverandi ríkisstj. verði oft í vandræðum, ef þessar tvær línur í Þjóðviljanum marka afstöðu hennar út á við, enda er forsrh. hræddur, en hann er ekki hræddur við þessar tvær línur í Þjóðviljanum, því að hann veit, að ummæli eins blaðs, sem auk þess er í stjórnarandstöðu, setja ekki Sovétríkin á annan endann. Allt öðru máli gegnir um það, sem forsrh. lætur hafa eftir sér. Þess vegna geta ummæli forsrh. haft mikil og ill áhrif fyrir viðskipti okkar við aðrar þjóðir og miklu alvarlegri afleiðingar en tvær línur í Þjóðviljanum. Hæstv. dómsmrh. hefði því átt að líta sér nær með sínar föðurlegu áminningar. Þær hefðu betur átt við sessunaut hans, hæstv. forsrh.

En ef við ræðum áfram um það, sem blöðin hafa sagt, þá langar mig að spyrja, hvað líði 40 millj. kr. boðinu í þessa umræddu tanka, sem Morgunblaðið gat um á sínum tíma, og hvaðan það tilboð var. Viðvíkjandi því sem ráðh. upplýsti, að tankarnir tækju 70 til 80 þús. tonn, þá er neyzla togara á einu ári, ef hann kaupir alla olíuna hér heima, ríflega áætluð með 2 þús. tonnum. Það gera því 60 þús. tonn í allt. Nú veit ég ekki um verðlag hér, en venjulega er olía ódýrari erlendis og þess vegna alltaf óhætt að gera ráð fyrir, að helmingur olíunnar sé keyptur erlendis af togurunum sjálfum. Það er því ekki nema um 30 þús. tonna neyzlu að ræða. Þess vegna eru geymarnir óeðlilega stórir fyrir okkar þörf. Það má náttúrlega segja, að það sé praktiskt að taka stóra slumpa af svona vöru, en borgar sig þá að láta þessa stóru slumpa liggja. Til þess þarf að minnsta kosti mjög mikið kapítal, sem þjóð okkar hefur ekki of mikið af til þess, sem nauðsynlegt er að gera. Það má segja, að það sé hægt að taka í taumana eftir þrjú ár, ef geymarnir reynast of stórir fyrir þörf okkar, en þá geta viðkomandi aðilar komið með alls konar mótbárur, sem verða ekki niður kveðnar.

Menntmrh. þykir það furðulegt, að nokkur skuli láta sér detta í hug, að þau samlög og félög, sem standa að Olíufélaginu h/f, muni ljá sig til nokkurs, sem verði okkur til tjóns. Ég skal viðurkenna, að það mun vera andstætt vilja slíkra samlaga. En nú eru tíu hluthafar í þessum félagsskap, og það má ekki kjósa aðra en þessa tíu hluthafa í stjórn. Eða má kannske kjósa hvern sem er í stjórn? Ég er hræddur um, að það megi ekki k jósa nema persónulega hluthafa, og með allri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum, þá er ekki víst, að ætlun samlaganna, sem hluti eiga í þessu félagi, ráði alltaf því, sem þessir hluthafar gera. Frá sjónarmiði auðhringanna er það hámark „diplomati“ að tryggja sér völd í gegnum umboð annarra félaga. Það er langt frá því, að ég haldi því fram, að þetta erlenda fyrirtæki muni nota þessa aðstöðu sína nú, þvert á móti mun það að líkindum láta okkur sæta góðum kjörum, jafnvel þó að það tapi á því, til þess að skapa sér sterka pólitíska aðstöðu og vinsældir. Vegna höfuðtilgangs Standard Oil getur slíkt verið mjög sniðugt, því að auðvitað er aðalatriðið, að geymarnir standi áfram. Þessar aths. menntmrh. eru því úr lausu lofti gripnar. Það eðlilega og sjálfsagða var og er, að þessir geymar séu rifnir niður eða að minnsta kosti sá hluti þeirra, sem við alls ekki höfum not fyrir.