20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

Samningar við Tékka

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Í tilefni af því, að í grein í Þjóðviljanum þann 19. febr. s. l. eru bornar fram ásakanir gagnvart ríkisstj. út af því, að samninganefnd skuli ekki hafa verið send til Tékkóslóvakíu jafnhliða því, sem sendar hafa verið samninganefndir til þess að semja um sölu íslenzkra sjávarafurða til Sovétríkjanna og Englands, skal þetta tekið fram:

Á fundi utanrmn. hinn 10. þessa mán., þar sem rætt var um þessar sendinefndir, spurði, samkvæmt fundargerðinni, Einar Olgeirsson á þessa leið: „Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort þessi samninganefnd eigi einnig að fjalla um samninga við Tékkóslóvakíu.“ Þessu svaraði ég á þessa leið: „Út af fyrirspurn um samningana við Tékka vil ég geta þess, að núgildandi viðskiptasamningur rennur út um mánaðamótin. Hefur verið ráðgert, að sendiherra, Pétur Benediktsson, komi við í Praha á leiðinni austur eða hafi samband við stjórnina til bráðabirgða, en endanlegir samningar yrðu ekki gerðir, fyrr en sýnt er, hvernig fer með hina stærri samninga. Þetta sýndist ekkert óskynsamlegt, ef tékkneska stjórnin féllist á það. Ef ekki er gerð aths. við þetta, mun sendiherrann, sem nú er í Róm, hafa samband við stjórnina í Praha og leita eftir samkomulagi um þetta.“ — Hvorki Einar Olgeirsson né neinn annar fundarmanna gerði neina aths. við þetta, og tóku þó ýmsir síðar til máls, þar á meðal Brynjólfur Bjarnason, fyrrv. ráðherra. Samkvæmt þessu varð ekki litið öðruvísi á en svo, að allir utanrmnm. og aðrir þeir, sem staddir voru á þessum fundi, væru ríkisstj. sammála um, að þessi háttur á samningagerðinni við Tékka væri eðlilegur. Í samræmi við það var svo Pétri Benediktssyni þegar sama dag símað og hann beðinn um að hafa samband við stjórnina í Praha til að koma þessu fram. Mun sendiherrann að sjálfsögðu gera það á þann veg, sem hann telur vænlegastan, en hann er þessa dagana að ljúka samningagerðum við stjórnina í Róm fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram, að sá háttur, sem hafður var um þessa samningagerð, var ákveðinn með vitund og ég vil segja beinu samþykki utanrmn. allrar og reyndar einnig þeirra manna, sem áttu að fjalla um samninga við hinar þjóðirnar, sem ég nefndi. — Er því ekki ástæða til að sakast neitt sérstaklega við neinn yfir þeim hætti, sem upp hefur verið tekin í þessu efni.