23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

Þinghátíð Finna

forseti (JPálm) :

Svo sem Alþingi er kunnugt, stendur í dag þinghátíð Finna, í minningu þess, að 40 ár eru liðin frá því að finnska þingið var gert að einni málstofu. Hafa forsetar af því tilefni sent ríkisþinginu málverk eftir Ásgrím Jónsson og jafnframt svo hljóðandi ávarp:

Finnland og Ísland skilja fjöll og lönd og mikil höf. Þó hafa finnska þjóðin og hin íslenzka um langan aldur vitað vel hvor til annarrar. Þegar í hinum elztu sögum Íslendinga er þess víða getið, að Finnland byggi harðfeng þjóð, sem varði land mitt af hreysti og ættjarðarást.

Finnar og Íslendingar eiga það sameiginlegt að vera útverðir norrænna þjóða og norrrænnar menningar, Finnar í austri, Íslendingar í vestri, og eiga þar báðar þjóðir mikilsverðu hlutverki að gegna. Þá er norrænar þjóðir finnast allar og talaðar eru þrjár þjóðtungur Norðurlanda, á og hvor þessara tveggja þjóða sína sérstöðu og séreign, Íslendingar sína fornu tungu, Finnar hina finnsku tungu. Báðar hafa þessar þjóðir löngum orðið að reyna erfið kjör og þurft vel að gæta frelsis síns og þjóðernis. Vér ætlum, að Finnum hafi vel að haldi komið að sínu leyti sú arfleifð norrænnar menningar, sem Íslendingar geymdu Norðurlandaþjóðum, og á Íslandi eru nokkur hinna mestu skálda Finnlands hverju barni kunn af þýðingum íslenzkra skálda. Og svo sem Finnar vita vel, að bókmenntir Íslendinga og forn menning varð þeim jafnan hið sterkasta vopn í baráttu sinni til sjálfstæðis og velgengni, svo vitum vér og Íslendingar, hver arfur yður Finnum var gefinn í fornum menntum og hinum dýrustu ljóðum, sem enginn kann að greina höfund að. Þau ljóð hefur þjóðin öll átt og ódauðleg gert sem snaran þátt menningar sinnar og tilveru, eins og var um Eddukvæði og hinar fornu sögur Íslendinga úti á Íslandi.

Hin síðari ár hafa tekizt meiri kynni en fyrr með Finnum og Íslendingum. Þjóðirnar hafa átt viðskipti saman, báðum til hagræðis. Hvor þjóðin um sig hefur kynnzt nýrri menningu hinnar, og Íslendingar hafa ekki miður en aðrir undrazt afrek hinnar finnsku þjóðar í listum og skáldskap, í hagnýtum verkum, og svo þar sem íþrótt eða atgervi skyldi þreyta.

Þjóðþing yðar Finna fékk á örlagatímum þá skipan, sem nú er. Það var þá endurvakið í nýrri mynd, af djörfum hug, af miklu frjálslyndi og víðsýni, til þess að verða brjóstvörn fyrir frelsi þjóðarinnar, framtíð hennar, menningu og velferð.

Þér Finnar gerið nú hátíðlega fjörutíu ára minningu þessa atburðar. Alþingi Íslendinga og alþjóð manna á Íslandi færir þjóðþingi Finna og finnsku þjóðinni hinar beztu árnaðaróskir og bróðurkveðjur á þessari þjóðarhátíð. Megi heill og hamingja fylgja þjóðþingi Finnlands og friður og blessun hinni finnsku þjóð. Megi yður Finnum auðnast að standa frjálsir og sterkir í bræðrafylkingu hinna norrænu þjóða í baráttunni fyrir betra heimi, fyrir frelsi og mannhelgi með öllum þjóðum.

Alþingi Íslendinga

Jón Pálmason

forseti sameinaðs Alþingis

Þorsteinn Þorsteinsson

forseti efri deildar

Barði Guðmundsson

forseti neðri deildar