11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Fjhn. hefur ekki orðið sammála um þetta frv. Minni hl. hefur þegar skilað áliti á þskj. 621, en álit meiri hl. er ekki enn þá komið úr prentun, en það er aðeins örfá orð, þar sem lagt er til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.

Þetta frv. er, eins og menn sjá, 2 gr. Samkv. 1. gr. er ákveðið að hækka gjöld til ríkissjóðs af lakkris og lakkrísvörum, þannig að það verði kr. 2.10 pr. kg, í stað þess að það hafði verið kr. 0.70. Samkv. 2. gr. er ríkisstj. heimilað að innheimta til ársloka 1947 með 100% álagi gjald samkv. l. nr. 60 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum, að viðbættu 50% álagi samkv. l. nr. 94 1946, um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld með viðauka. Ef þetta frv. verður samþ., verða þessi gjöld þrefalt hærri, en þau voru upphaflega í l. 1939, eða kr. 6.30 pr. kg af þeirri vöru, sem þarna er um að ræða, sem eru aðallega sælgætisvörur, en engar nauðsynjavörur. Hefði því mátt gera ráð fyrir því, að um þetta frv. hefði ekki orðið neinn ágreiningur, þar sem viðurkennt er, að ríkissjóð vantar auknar tekjur, og virðist mér því ekki óeðlilegt að leggja þó nokkuð aukin gjöld á slíkar framleiðsluvörur, sem hér er um að ræða. — Eins og ég gat um áður, varð hins vegar ekki samkomulag um frv. í fjhn. Hv. minni hl. leggur til, að frv. verði fellt, og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir sínu máli, ef honum finnst ástæða til. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.