27.02.1947
Neðri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Einar Olgeirsson) :

Hv. þm. V-Húnv. hefur gefið út sérstakt nál., þó að hann hafi verið okkur sammála, hinum nm. í fjhn., um þetta mál, og að vissu leyti hefði verið nauðsynlegt að láta prenta dálítið af þeim skjölum, sem okkur hafa bætzt síðan í fjhn. En ég mun þó freista að láta duga að þessu sinni að lesa nokkuð upp úr þeim í sambandi við þær aths., sem hér hafa verið gerðar í sambandi við þetta mál, en allar víkja að því, að hv. þm. deildi sérstaklega á hagsýnina við þessar framkvæmdir. Um það vil ég segja, að lengi má deila um það í sambandi við okkar síldarverksmiðjur, hvenær sé rétt að leggja áherzlu á að byggja með miklum hraða. Mér virðist málið samt liggja þannig fyrir, að mesta hættan á tapi í sambandi við verksmiðjurnar liggi í því að hafa ekki verksmiðjurnar til, að það vanti verksmiðjur. Ég held, að mesta tapið,sem við höfum orðið fyrir í sambandi við okkar síldveiði, sé vegna þess, að við höfum ekki haft eins miklar verksmiðjur og við hefðum þurft. Nú var mikið unnið og stór átök gerð til þess að koma upp síldarverksmiðjum á skömmum tíma og reynt að hraða þeim svo, að þær yrðu tilbúnar fyrir þá síldarvertíð, sem þær áttu að koma að gagni. Ég held, að það hafi því verið hagsýni, að unnið var með eins miklum krafti og gert var þessi 2 ár að því að koma upp síldarverksmiðjum, og ef á að tala um óhagsýni, þá er hún fyrst og fremst í sambandi við það að vanrækja að koma upp verksmiðjum, meðan tækifæri var til þess, t. d. fyrir stríð, en hitt hagsýni að leggja svo mikla áherzlu á sem fyrrv. hæstv. stjórn gerði að koma upp þessum stóru síldarverksmiðjum, sem svo að segja tvöfalda afkastamagn síldarverksmiðjanna. Um hitt er engan hægt að saka, þó að aflinn brygðist og verksmiðjurnar kæmu því ekki að gagni á þeirri vertíð, sem til var ætlazt. Og út frá því sjónarmiði held ég, að það, sem hv. þm. sagði, að hefði verið rangt af fyrrv. hæstv. atvmrh. að fela sérstakri byggingarn. að sjá um þessa byggingu, en ekki stjórn síldarverksmiðjanna, þá efast ég ekki um, að það var rétt að fela framkvæmdirnar sérstakri n., því að það eitt tryggði, að eins mikið væri gert og gert var á þessu sviði. Eins og áður hefur verið minnzt á, vill stjórn síldarverksmiðjanna byggja minna og hægara og koma því upp á 3 árum, sem hefði verið hægt að koma upp á 2 og hægt hefði verið að koma upp fyrir síðustu vertíð, ef nauðsyn hefði verið, sem ekki varð. Þannig þýddi það vitanlega ekki að fela stjórn síldarverksmiðjanna að sjá um þessar framkvæmdir. Út frá þessu tel ég, að það hafi verið alveg rétt af hæstv. fyrrv. stjórn að flýta byggingunni eins mikið og gert var og láta vinna í eftirvinnu og næturvinnu, sérstaklega þegar síldveiðitíminn fór að nálgast allmikið.

Í skýrslu frá byggingarnefnd síldarverksmiðjanna er sundurliðað, hvernig dagvinna, eftirvinna og næturvinna skiptast, og vil ég leyfa mér að lesa þær tölur upp.

Árið 1945 sundurliðast þannig þau vinnulaun, sem Almenna byggingafélagið greiddi á Skagaströnd:

Dagvinna kr. 602505,92

Eftirvinna — 210222,99

Nætur- og helgidagavinna —160733,21

1946:

Dagvinna kr. 1111187,33

Eftirvinna – 401694,94

Nætur- og helgidagavinna — 612398,88

Vinna samtals þessi tvö ár við verksmiðjuna á

Skagaströnd :

Dagvinna kr. 1713693,25

Eftirvinna – 611917,93

Nætur- og helgidagavinna — 773133,09

Þetta er, þegar það er borið saman við byggingarkostnaðinn í heild, engin voða summa. Nú hefur það verið svo við allar byggingar, sem unnar hafa verið á undanförnum árum hér á landi, að þar hefur verið a. m. k. mikil eftirvinna, þannig að þarna er ekki um neitt sérstakt að sakast. Hins vegar er það rétt, að næturvinna var þarna meiri, þegar á leið, en sá kostnaður er, eins og kemur fram í skýrslunni, ekki neitt, sem hefur þar afgerandi þýðingu, og enga þýðingu, þegar það er borið saman við, hvað þarna var í húfi, hvort verksmiðjan yrði til fyrir síldarvertíðina eða ekki.

Þá gerir byggingarn. grein fyrir ýmsu, sem hafi orðið atriði í því að hækka kostnaðinn frá því, sem fyrst var ráð fyrir gert. Það er verðhækkun á vélum og allur kostnaður, sem varð í sambandi við að reyna að flýta verkinu. Enn fremur þurfti að fá sérmenntaða menn úr Reykjavík til að annast vélauppsetningu og ýmis kostnaður við ferðalag þeirra og áð síðustu allur kostnaður vegna hækkandi vísitölu. En ég held, að viðvíkjandi áætlunum um slík fyrirtæki sé ekki um mikið að sakast. Ég þekki ekkert fyrirtæki, sem gerð hefur verið áætlun um, að það hafi ekki farið stórkostlega fram úr áætlun, þannig að þessi hækkun kom engum á óvart. Það er það venjulega um byggingar nú á tímum.

Þá fór hv. þm. nokkuð inn á það, að Almenna byggingafélagið hefði fengið allmikið greitt fyrir umsjón sína. Félagið hefur, eftir því sem fskj. bera með sér, sem birt eru í því sameiginlega nál., greitt í vinnulaun á báðum stöðunum um 6½ millj. kr. En það hefur haft ýmislegt fleira að gera en að greiða vinnulaun. Umsjónarlaun, liður nr. 28 við Skagastrandarverksmiðjuna, eru samtals 400 þús. kr. Almenna byggingafélagið hefur upplýst í bréfi til eins nm. í fjhn., að árið 1945 hafi laun starfsmanna á byggingarstað verið 73822,75 kr., verkamannakostnaður 26954,90 kr., slysatrygging 16093,00 kr., ferðakostnaður starfsmanna, sem voru á staðnum, 4273,65 kr. og símakostnaður 12950,50 kr. Þetta er dæmi af því, hvað fer í beint útlagðan kostnað á þessum liðum, sem eru nr. 25 við Siglufjarðarverksmiðjuna og nr. 28 á Skagaströnd. Hins vegar held ég, að það mætti bera þetta saman við það, sem er venja hér í Reykjavík hjá mörgum félögum og eins hjá því opinbera. Þessi byggingarfélög taka yfirleitt 15% álag á vinnulaun, sem þau greiða. Sé sá mælikvarði lagður hér á, þá verður það mun hærra en það, sem Almenna byggingafélagið hefur fengið greitt fyrir umsjón sína. Í járnsmíði og öðru slíku hefur verið heimilað í l. um allmörg ár að taka 40% álag á vinnutaxta. Því fer fjarri, að ég álíti þetta rétt, þó að það hafi viðgengist. En þegar þetta er þannig heimilað, jafnvel af n., sem ég held, að hv. þm. V-Húnv. hafi eitthvað haft með að gera á sínum tíma að koma á og beri því meðábyrgð á þessum taxta, þá virðist það, sem Almenna byggingafélagið hefur fengið greitt í umsjónarlaun annars vegar og vélsmiðjan Héðinn hins vegar, ekki fara fram úr hófi, miðað við þann gróða, sem tíðkast að slík félög áskilji sér, og miðað við þá aðstöðu, sem þau hafa í þessu þjóðfélagi til þess að geta haft eitthvað upp úr því, sem þau vinna. Hér er síður en svo, að tekinn hafi verið óhæfilegur gróði á þessum kostnaðarliðum.

Viðvíkjandi kostnaðinum við sjálfa n., þá er það upplýst, að meginið af þessum kostnaði eru útgjöld, sem n. hefur haft við alla stjórn á þessu, en ekki nema hverfandi lítið farið til nm. sjálfra, hvort sem sá kostnaður er endanlega ákveðinn eða ekki. Það er rangt að gefa í skyn, að kostnaður við n. hafi verið svo geysilegur. Skrifstofukostnaður og nefndarkostnaður, laun umsjónarmanns, ferðakostnaður, teikningar og fleira, hefur verið á Siglufirði 250 þús. kr. og sams konar kostnaður á Skagaströnd 200 þús. kr. Þessi liður, sem hér hefur verið rætt um og mér fannst hv. þm. V-Húnv. gera óþarflega mikið að umtalsefni, er þess vegna í raun og veru ekki svo hár, að það sé til að fást um.

En það er einn liður, sem mér finnst virkilega hár og hefði verið ástæða til að minnast á, en hv. þm. V-Húnv. gekk fram hjá. Það er liður nr. 31 á Siglufirði og 35 á Skagaströnd. Það eru vextir og lántökugjald, 850 þús. kr. á hvorum stað. Af þessu er lántökugjald 380 þús. kr., 1% af þessu öllu saman. Ef á að fara að krítisera, hvað einstök félög taka og n., sem hefur stjórnað öllum framkvæmdum, þá finnst mér mega minnast á, hvað sjálfur ríkisbankinn tekur í gjald af svona fyrirtækjum. Það eru 38 millj. kr., sem teknar eru til láns í þjóðbankanum, og það kostar 1700 þús. kr. að leggja fram þetta fé í ekki meira en 1½ ár, og þar af er lántökugjald 380 þús. kr. Það er drjúgur skildingur fyrir ekki meira starf en að bankastjórinn svarar því játandi, að bankinn leggi féð fram. Það er nærri því eins mikið og það kostar hjá verksmiðjun. að stjórna þessu í 1½ ár. Kostnaðurinn við það er ekki nema litlu meiri en lántökugjaldið. Ég held því, að ef menn ræða málið út frá því sjónarmiði, að ríkið eigi að spara sem mest af peningum og óþarfa útgjöldum, þá sé þarna kostnaðarliður, sem sé kannske einna þyngstur. Ég skal alls ekki mæla því bót, að einkafélög séu að stórgræða, en það er nú einu sinni svona í því þjóðfélagi, sem við lifum í. Svona er búið að þessum félögum, svo að það er til lítils að krítisera það. Öll venjuleg atvinnufyrirtæki eru byggð á þessu prinsippi. Það er ætlazt til, að þau græði á þessu, og ég held, að þau hafi grætt minna á þessu en mörgum öðrum fyrirtækjum. En hér hefur mikið verið gert á skömmum tíma og gert vel. Hins vegar hefur sjálfur ríkisbankinn tekið aðra eins fjárfúlgu og ég nefndi fyrir að leggja féð fram í hálft annað ár. Þannig fer ríkisbankinn að, þegar hv. þm. V-Húnv. er að tala um, að eigi að spara fyrir ríkið. Og fyrir þjóðina, sem lengi er búin að stynja undir vaxtafargi og vaxtabyrði, sem búin er að vera böl fyrir sjávarútveg okkar áratugum saman, væri meir en ástæða til að gagnrýna þá pólitík af hendi ríkisstj. og Landsbankans að leggja á síldarverksmiðjurnar kr. 1700000 við að leggja fram fé til að koma þeim upp. Þess vegna er ég sammála hv. þm. V-Húnv. um það, að ekki þýði fyrir okkur að deila um þetta hér, þýðingarlaust í sambandi við það, sem fyrir liggur. Þegar þessar verksmiðjur eru komnar upp, verðum við ánægðir yfir því, að þær eru komnar upp. Og ef síldin heldur áfram að veiðast hér við land, mun þjóðin áreiðanlega hafa það mikinn hag af því að fá þessar verksmiðjur, að hún mun ekki horfa í það, hvort þær kosta nokkrum millj. króna meira eða minna, heldur, að verksmiðjurnar komist upp.