27.02.1947
Neðri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál, en vil þó aðeins gera nokkrar aths. út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að okkur hefði vantað verksmiðjur, og rétt er það, og þess vegna erum við með þessar framkvæmdir, að vantað hefur fleiri verksmiðjur. Hann sagði, sem líka er rétt, að ekki væri hægt að gera við því, þó að síldaraflinn brygðist stundum. Rétt er það.

Ég get sleppt því að ræða um það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi verið „innstillt“, eins og hann orðaði það. Hv. þm. Ísaf. hefur skýrt það mál með tilvitnun í skýrslu síldarverksmiðja ríkisins árið 1945, en þm. hafa fengið hana í hendur. Það kemur ljóslega fram, að allt frá því, að l. þessi voru sett á fyrra þinginu 1942, þá hefur stjórn síldarverksmiðjanna gert allt, sem í hennar valdi stóð til þess að undirbúa framkvæmdir þessar, þótt þær hins vegar tefðust vegna stríðsins. Hv. 2. þm. Reykv. lagði fram upplýsingar um eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Þetta tók ég fram áðan, en aftur á móti liggja engar upplýsingar fyrir um, hve mikil eftirvinna og helgidagavinna var hjá vélsmiðjunni Héðni eða verksmiðjunni á Siglufirði í þessu sambandi. Hv. þm. segir, að ekkert sé um það að fást, þótt unnin sé helgidaga og eftirvinna, samanborið við það, hve mikið sé í húfi, ef verksmiðjurnar komist ekki upp í tæka tíð. Ég hef nú einmitt fundið að því, að hvorug verksmiðjan var í standi og er það ekki enn. Nú segir hv. þm., að ekki sé um að sakast, þótt áætlun standist ekki.

Þrátt fyrir það eru þær upplýsingar gefnar í apríl s. l., að framkvæmdir séu það vel á veg komnar, að slá megi því föstu, að kostnaður fari ekki fram úr 27 millj. kr., þó að það svo komi seinna á daginn, að hann verði 38 millj. kr. Slík málafærsla sem þessi er, eins og allir hljóta að sjá, fyrir neðan allar hellur og óafsakanleg. Eftir því sem hv. þm. Ísaf. segir, þá vantar enn mikið á, að verksmiðjurnar séu nothæfar þrátt fyrir þessi miklu fjárframlög til þeirra. Getum við ekki átt von á 4. frv. um lántökuheimild fyrir þær, og hvað verður þá um háa fjárhæð að ræða? Viðvíkjandi greiðslunni til Almenna byggingafélagsins segir hv. 2. þm. Reykv., að hún fari ekki yfir það, sem venja er að greiða slíkum félögum fyrir sína fyrirhöfn, eða 15%. Mér finnst það ekkert þakkarvert. En að borga mönnum hærri þóknun eftir því, sem kostnaður við framkvæmdina vex, það álít ég í fremsta máta vítavert. Þá segir hv. þm., að vélsmiðjan Héðinn megi leggja á allt að 40% og sé ég og minn flokkur meðábyrgur um þennan taxta. Ég vil leyfa mér að gera þá aths., að Framsfl. á ekki fulltrúa í verðlagsráði.

Hv. þm. segir og, að meginhlutinn af greiðslunni til byggingarn. sé ekki laun nm., heldur annað. Nú liggur ekkert fyrir, er sýni, í hvað annað þessar 450 þús. hafa þá farið. N. hefur haft eftirlitsmenn bæði á Siglufirði og Skagaströnd og þar að auki einn byggingameistara til þess að líta eftir framkvæmdum Almenna byggingafélagsins og mann til þess að líta eftir vélum á Skagaströnd um tíma, auk þess einn skrifstofumann í Reykjavík. Benda má á það, að sumir þeirra manna, sem. n. hefur í þjónustu sinni, eru starfsmenn hjá ríkinu, t. d. er einn þeirra prófessor við háskólann og annar vélaeftirlitsmaður hjá ríkinu, og ekki er annað vitað en að þeir séu á fullum launum.

Þá minntist hv. 2. þm. Reykv. á það, að vextir og lántökugjald til Landsbankans væru 1700 þús.. kr., og kvað hann það drjúgan skilding fyrir ekki meiri vinnu en það væri fyrir einn bankastjóra að segja já. Ég býst við, að hv. þm. sé ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að þetta er ekki fyrir vinnu, heldur leiga eftir fjármagn. Hér er um ríkisfyrirtæki að ræða, en hvort hann græðir of mikið, það skal ég ekki um segja, en hitt er og víst, að á honum hvíla miklar kvaðir. Hv. þm. sagði einnig á þessa leið : „Það þýðir ekki að krítísera það, þótt einstök gróðafélög græði á ríkisframkvæmdum.“ Þessu er ég algerlega á móti. Það á ekki að eiga sér stað, að menn noti sér að skara eld að sinni köku, þegar um ríkisframkvæmdir er að ræða. Ríkið ætti að hafa á þessu annað lag.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að allir væru ánægðir yfir því, að verksmiðjurnar væru komnar upp. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á a. m. k. einn aðila, sem ekki er ánægður, en það er stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem ekki er ánægð með það, að verksmiðjurnar, þrátt fyrir allan kostnaðinn, eru enn ekki upp komnar og varla líklegt, að þær verði í nothæfu standi fyrir komandi vertíð. Allir hljóta að sjá, hversu ófært og óviðunandi það er.