29.04.1947
Efri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka fjhn. fyrir það, að hún leggur til, að ábyrgðarheimildin verði hækkuð, en það er einmitt það, sem farið er fram á.

Því er ekki að leyna, að þetta er vandræðamál, og því miður er ég ekki þess umkominn að verða við óskum hv. þm. Dal. um að upplýsa þessi mál. Það má að vísu segja, að þegar gera á miklar framkvæmdir á verðbólgutímum, þá standast ekki alltaf áætlanir, en fyrr má nú rota en dauðrota. Ég segi þetta hvorki til þess að afsaka eða ásaka neinn sérstakan í sambandi við þetta mál, en það er mjög eðlilegt, að þm. og aðrir séu undrandi yfir þessum stöðugu hækkunum, sem, eins og hv. þm. Dal tók réttilega fram, er alls ekki séð fyrir endann á. En hvað sem þessu líður, finnst mér óhjákvæmilegt að ljúka þessu verki. Það er of miklu búið að fórna, til þess að það, sem komið er, verði látið ónotað. Eins og kunnugt er, hvarf fyrrv. atvmrh. að því ráði að skipa sérstaka n. til þess að sjá um þessar byggingar. Mér fannst þá, að þetta væri ekki illa ráðið, þar sem stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafði nóg á sinni könnu.

Nú hefur farið sem vitað er. Það var lagt kapp á, að þessar verksmiðjur yrðu tilbúnar á síðustu síldarvertíð, og ef til vill hafa menn af vanþekkingu lagt of mikið upp úr hraðanum og því farið sem orðið er, en það þarf ekki að minna frekar á það. Hins vegar ætti bygging þessara síldarverksmiðja að vera þingi og stjórn víti til varnaðar. Það ætti að minna á, að þegar vinna þarf stór verk á vegum ríkisins, er nauðsynlegt að gera meira en skipa stjórn. Sú stjórn verður að minnsta kosti að hafa aðhald bæði af hálfu Alþ. og ríkisstj.

Ég ætla mér vitaskuld ekki þá dul að fella neinn dóm í þessu máli, því að ég hef ekki haft tækifæri til að kynnast því nóg til þess, en hins vegar stöndum við alþm. hrelldir, og auðvitað þjóðin öll, yfir því, hvernig þetta hefur farið.

Vegna þess, sem skeð hefur í þessum málum, og þar sem skorizt hafði í odda með byggingarn. annars vegar, en stjórn síldarverksmiðjanna hins vegar, þá sá ég mér ekki annað fært sem ráðh. sjávarútvegsmála en að fela annarri hvorri þessara n. að sjá um, að þetta verk yrði fullgert. Ég valdi þá leið að fela stjórn síldarverksmiðjanna að láta ljúka verkinu, vegna þess að hún hefur allan rekstur verksmiðjanna með höndum. Nú er þess að sjálfsögðu að gæta, að hún á ekki góða aðstöðu, þar sem hún tekur við verksmiðjunum óstarfhæfum og mjölhúsinu á Siglufirði hrundu. Þetta hús eða efniviðurinn í það var keyptur í Englandi á vegum vélsmiðjunnar Héðins. Forstjóri Héðins er nú í Englandi. Hann kom til mín, áður en hann fór út, og ég fór þess á leit við hann, að hann reyndi að fá viðkomandi hús að einhverju leyti bætt, ef hann sæi sér fært. En þrátt fyrir það er ég vantrúaður á, að þannig hafi verið gengið frá samningum, að hægt sé að krefjast skaðabóta. Hins vegar gæti verið, að seljandinn vildi einhverja bót gera til þess að fá áframhaldandi viðskipti. Annars er svo margt í sambandi við þetta verk, sem ekki hefur unnizt tími til að rannsaka enn þá, og þess vegna get ég lítið sagt um það á þessu stigi.

Hv. þm. Dal. taldi jafnvel rétt að láta þetta bíða, en á það get ég ekki fallizt þrátt fyrir allt. Ég tel nauðsynlegt, ef þess er nokkur kostur, að fá verksmiðjurnar starfhæfar, eins fljótt og kostur er. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist. Ég vænti þess, að málinu verði hraðað, eftir því sem kostur er, því að það er búið að vera lengi á leiðinni, að vísu ekki í þessari hv. d., en hins vegar í Nd. Ég get svo getið þess að lokum, að formaður síldarútvegsnefndar hefur verið fyrir norðan nú undanfarið til að athuga þessi mál og kynna sér, á hvern hátt megi bezt og fljótast úr þeim bæta.