29.04.1947
Efri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þetta mál fara í gegnum þessa hv. d. án þess að segja örfá orð um það, en þau verða ekki mörg. — Mér er sagt af kunnugum manni, sem kom núna frá Noregi, að Norðmenn hafi nú lokið við að reisa tvær síldarverksmiðjur með 10 þús. mála afköstum hvor á sólarhring, og þær kosti innan við 10 millj. íslenzkra króna samanlagt. Ég hef þessar upplýsingar frá einum bankastjóranum hér í bænum, en hann er gagnkunnugur útgerðarmanni, sem er nýkominn frá Noregi. Með öðrum orðum er verðið á þessum verksmiðjum hér, eins og búizt er við, að það muni verða, fjór- til fimmfalt á við verðið á þessum norsku verksmiðjum. Mér þykir það heldur ekki óeðlilegt, samanborið við það, sem það hefur kostað að reisa verksmiðjur í Noregi áður, þó að þeir hafi komið þessum verksmiðjum upp svona ódýrum. En þegar við hugsum um þetta, getum við kannske rennt grun í, að það sé ekkert óeðlilegt, sem fjmrh. sagði hér áðan og kom það frá kunnugleika hans á atvinnulífinu, ekki sízt síldarútveginum sem og sjávarútveginum yfirleitt, það kom frá manni, sem hefur bæði reynslu og þekkingu á þessu sviði —, að maður stæði með hryllingi frammi fyrir þessu. Það er orðið yfir það. Því að hugsum okkur þann þrældóm, sem þeir menn, sem við þetta eiga að vinna á næstunni, að síldarframleiðslunni, verða á sig að leggja, sem allt er unnið fyrir gíg og eingöngu til þess að borga þær fjárhæðir, sem virðist hafa verið sóað hér, án þess að þörf hafi verið á því. Það er ekki fljótgert að borga niður 43 millj. kr. Það tekur langan tíma og kostar mikla fyrirhöfn og vinnu að ná saman slíkri upphæð. Og þar sem það kostar það má, þegar mesta flóðið hefur verið, getum við gert okkur í hugarlund, hve miklum erfiðleikum það muni valda, eins og fjmrh. minntist á, að skrifa niður þessar verksmiðjur. Það er enginn vafi, að hér hafa átt sér stað mistök og þau stórkostleg. Ég skal ekki segja, hverjum það er að kenna, en það er rétt, að það verði upplýst. Það getur ekki gengið lengi að þola ríkisframkvæmdir eins og þessar, án þess að málið sé rannsakað ofan í kjölinn og þeir seku látnir þola sína refsingu. Annars er þetta þjóðfélag komið út á svo hálan ís, að ég sé ekki, hvernig á að ráða við hlutina. Ég skal ekki segja, hvort þessir menn hafa unnið sér til refsingar í tugthúsi, þó að það væri eðlilegast, að þeim yrði gert það. En ég vil bara segja það, að ef svo er ekki, að þessir menn hafi unnið til tugthúsvistar, þá þarf að breyta íslenzkri löggjöf og það sem fyrst, til þess að ekki sé hægt að standa þannig að opinberum framkvæmdum án þess að vinna til refsingar — og hennar þungrar. Það segi ég óhikað, að það eru rök, sem þurfa að koma.

Ég skal ekki fara mikið út í einstaka liði. Það er upplýst, að einu félagi eru borgaðar 800 þús. kr. fyrir að líta eftir verkinu. Þó er það þannig, að fyrir margs konar teikningar er greitt alveg sérstaklega, og það er þannig, að verksmiðjustjórnin á ekki einu sinni frumteikningar af sínum eigin verksmiðjum. Verksmiðjurnar fengu afrit af frumteikningunum og urðu meira að segja að borga fyrir afritin, en þeir, sem gerðu frumteikningarnar, geta selt þær aftur með hagnaði þeim, sem kunna að vilja byggja verksmiðjur. — Því miður er það orðið nokkuð algengt, að áætlanir eins og sú, sem hér hefur verið minnzt á, standist ekki, og þetta dæmi, sem hér liggur fyrir, er mjög sláandi. Að vísu hafa orðið verðsveiflur á því tímabili, sem hér um ræðir, en engar verulegar. En þessi saga er í fimm liðum: Fyrst eru það 10 millj., síðan 20 millj., þá koma 27 millj., í fjórða skiptið 38 millj. og svo loks 43 millj. Hvernig halda menn, að hið opinbera sé sett og við með okkar fjármál, ef opinberar framkvæmdir eiga að byggjast á öryggi eins og þessu. Þetta er á fleiri sviðum en með þessar verksmiðjur. Mér er sagt, að Torfastaðir séu komnir hátt á fimmta hundrað þús. kr. — ekki veit ég, hvort það er satt —, en vinnubrögðin þar voru slík, að presturinn þar sagði frá því, að hann hefði þó svo mikil völd á sínu heimili, að hann ætlaði ekki að þola þessa menn, sem þar unnu, í námunda við sitt heimili. Það er sagt, að viðgerðin á Gimli kosti 300 þús. kr. Ég ætlaði ekki að trúa því og lét segja mér það tvisvar, og þetta er hús, sem á víst að rífa, helzt eftir 1 eða 2 ár, því að það þarf að fara að byggja opinberar byggingar.

Mér er sagt, að Kaldaðarnes sé komið upp í 600–800 þús. kr., án þess að menn sjái, í hvað það hefur farið, og annar af endurskoðendum ríkisreikninganna tjáði mér það, að þeir teldu þetta fyrirtæki svo alvarlegt, að þeir ætluðu að ræða um það sérstaklega og skrifa ríkisstj. og vekja athygli hennar á því, að framkvæmdir af þessu tagi gætu ekki haldið áfram. Ef þessir menn eiga að halda áfram að vera í trúnaðarstöðum fyrir ríkið og halda áfram að sjá um opinberar framkvæmdir, þá held ég, að það hljóti allir hv. þm. að sjá, hvert stefnir, og allir sjá, að það er ekki sanngirni í því, að þessir menn sleppi með þetta ár eftir ár refsilaust. Sannleikurinn er sá, að þessir menn eru bókstaflega talað aðaltrúnaðarmenn ríkisins á vettvangi, sem er þýðingarmeiri en flest annað fyrir þjóðfélagið, fyrir fjármál þessa þjóðfélags í heild. Og ef það á að eiga sér stað, að það komi áætlanir frá þessum mönnum ár eftir ár, sem eru langt frá því að geta staðizt, og þeir eiga að annast framkvæmdir, sem gerðar eru, svipað þeim, sem hér er verið að ræða um, ef þeir eiga að halda áfram að vinna þessi verk, án þess að spyrnt sé við fótum — hvenær er þá hægt að spyrna við fótum? Hvaða hneyksli er svo stórfellt, að hægt sé að spyrna við fótum, ef ekki á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að rannsaka þessi mál og jafnvel að setja þetta undir sakamálsrannsókn? Ég fullyrði, að ef ekki er hægt að ná tökum á svona mönnum, sem staðið hafa fyrir opinberum framkvæmdum, þá verður að koma löggjöf um þetta. Það verður að koma löggjöf um það, að menn, sem gera áætlanir sem trúnaðarmenn ríkisins og sjá um framkvæmdir, sem þingið eða stjórnin veitir peninga til í trausti þess, að þeir geri það þannig, að áætlanirnar geti staðizt — það verður að koma löggjöf um það, að það sé hægt að refsa þeim, ef um vísvitandi vanrækslu eða óvarkárni er að ræða. Ég vil segja það í sambandi við þetta mál, að ég álít, að það þurfi að liggja fyrir ríkisstj. upplýsingar um það og það skuli prófað til þess ýtrasta, hvort það er hægt að koma fram ábyrgð á hendur þeim mönnum, sem standa að byggingu þessara síldarverksmiðja. Ef ekki er hægt að koma fram ábyrgð á hendur þessum mönnum, þá verður að koma sérstök löggjöf um þetta efni — löggjöf um þá menn, sem eru trúnaðarmenn ríkisins við slíkar framkvæmdir. Embættismaður, sem leyfði sér slíkt í embættisfærslu, hann mundi koma undir hegningarlögin, og þess vegna er ekkert óeðlilegt, þó að þessir menn komi undir sömu l. eins og aðrir embættismenn. Ég segi fyrir mig, að ég er alveg sömu skoðunar og aðrir þm., sem hér hafa talað. Ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessu frv., fyrr en fyrir liggur yfirlýsing frá ríkisstj. um það, að málið skuli rannsakað og skýrslur birtar um málið og þeir menn, sem kunna að vera sekir — það verði reynt að koma fram ábyrgð áhendur þeim. Og ef það er ekki hægt, þá vil ég skora á ríkisstj. að taka til athugunar að semja löggjöf um þessa trúnaðarmenn.