02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við síðustu umr. lét ég hjá líða að ræða um nokkur atriði, sem hafa komið fram í sambandi við þetta mál, vegna þess, hversu þá var langt liðið á fundartímann. Hins vegar tel ég rétt að taka þetta fram við þessa umr. Ég hefði viljað óska eftir því, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur. Ég man, að það kom ekki nægilega fram við fyrri umr., hvernig hugsað er í framtíðinni að láta þessar verksmiðjur bera sig fjárhagslega. Ég hefði viljað fara fram á, að hæstv. ráðh. gæfi nokkrar yfirlýsingar um það atriði. Þetta er veigamikið atriði. Því hefur verið haldið fram af sumum hv. þm., að hér væri verið að leggja gífurlegan skatt á sjómenn um alla framtíð, þar sem síldarverðið verði að miða við, hvernig þessar verksmiðjur geti borið sig fjárhagslega. Það væri ekki úr vegi, að menn vissu, að hverju ætti að ganga. Hugsanlegt væri, að ríkissjóður tæki að sér að greiða niður verksmiðjurnar, sem kostuðu 43 millj. kr., en búizt var víð, að mundu kosta um 20 millj. En sé því slegið föstu, að þetta verði ekki greitt niður af ríkissjóði, heldur verði þessi mistök greidd með lægra verði á síldinni til sjómanna á hverjum tíma, þá er verið að gera gróðamöguleika einstaklinga, sem reka verksmiðjur, enn þá meiri en áður. Sé hins vegar ætlazt til þess, að ríkissjóður greiði þetta með sérstöku framlagi úr ríkissjóði, þá þarf að leggja þessar álögur á bak skattþegna. En hvor leiðin sem farin yrði, þá er það þó ekki nema rétt, að þjóðin fái að vita, hvar skattar þessir og kostnaður kemur niður. Mér þætti gott að fá þetta upplýst hér í þinginu, áður en málið er afgr. Hv. þm. Str. benti á ýmis mistök, sem orðið hefðu við byggingu opinberra bygginga á öðrum stöðum, og nefndi nokkur atriði. Ég hygg þetta sé ekkert nýtt, og vegna þess, að þetta er ekkert nýtt og hefur allt of lengi við gengizt, er því meiri nauðsyn að spyrna við fæti og setja l. um þessi mál. Áður en ég fór að taka þátt í stjórnmálum, þá man ég ekki betur en mikið væri talað og býsnazt yfir fjósinu á Hvanneyri á sínum tíma. En ég hygg það hafi verið byggt undir stjórn hv. þm. Str. (HermJ: Nei, nei.) Það var mikið rætt um stórkostleg mistök í sambandi við það, einnig áttu sér stað mikil mistök við byggingu landsspítalans. Og ég vil líka minna á stórkostleg mistök í sambandi við kaupin á hraðbátunum, því að hvernig sem reynt er að fegra það mál, hefur ríkissjóður tapað 700 þús. kr. á þeim kaupum.

Fyrir nokkru var samþ. að endurbyggja Sæbjörgu. Ríkissjóður átti að leggja fram ákveðna upphæð, 400 þús. kr., og fá þetta endurgreitt á 15 árum. En þegar farið var að endurbyggja skipið, þá kom í ljós, að áætlunin sem gerð hafði verið, var kolvitlaus. Ég benti strax á, að þessi áætlun stæðist ekki. En í hverju lá þetta? Það lá í því, að þetta hafði verið gert af manni, sem hv. þm. Str. hefur hælt á hvert reipi. (HermJ: Ég hef aldrei hælt Taylor.) Hins vegar bjargaði ég því, sem bjargað varð. Það er því meira en á einum stað, sem þessi mistök hafa átt sér stað. Ég vil segja, að mér finnst ganga of langt í þessum málum, þegar hallinn á uppskipun hér í Reykjavík er orðinn 450 þús., kr. á ári. Mér finnst þetta of mikið. Mér finnst slík ráðsmennska hlutfallslega verri stjórn en þetta með síldarverksmiðjurnar. Það kostar 50 kr. að koma út hverju tonni. Það kostar 104 kr. að dreifa því út um landið. En hjá þessari stofnun er samt 450 þús. kr. halli á hverju ári. Mér finnst ástæða til að láta slíkt mál í rannsókn. En það má ekki minnast á þessi mál. Það er eins og að stinga á kviku á samgmrh., ef á þetta er minnzt. Það má alls ekki tala um þetta. En það þarf að hækka fjárl. um ½ millj. kr. til að jafna þennan halla. Sannleikurinn er sá, að hér er um að ræða vinnusvik hjá þeim mönnum, sem þessu stjórna. Þetta snýr ekki að verkalýðnum, heldur þeim mönnum, sem hafa tekið að sér þessi mál og fá fyrir það stórkostlegt fé ár eftir ár. Þetta er farið að ganga svo langt nú, að það verður ekki þolað lengur. Þessir menn eru settir í alls konar stöður og störf, svo að þeir hafa ekki tíma til að sinna sínu aðalstarfi. Í þessu sambandi vil ég benda á, hvort ekki væri rétt að athuga líka eitthvað fiskiðjuverið hjá fiskimálanefnd. Það mál heyrir ekki aðeins undir viðkomandi ráðh., og þeir menn, sem þar koma nærri, eru ekki úr einum flokki, heldur öllum flokkum. En þeir hafa tekið sér mjög vafasaman rétt og tekið millj. kr. úr fiskveiðasjóði til þessara hluta. Aftur á móti er aðalstarf fiskveiðasjóðs að inna af hendi markaðsleit til útlanda. Það er upplýst, að þessir menn hafa notað úr þessum sjóði á undanförnu ári 30–40 þús. kr. til markaðsleitar, þótt inn í sjóðinn hafi verið tekið á móti á aðra millj. kr. Hitt féð hefur verið látið í fiskiðjuverið. Það má deila um það, hversu mikinn rétt þeir hafa haft til þess að gera þetta. Auk þessa ganga alls konar tröllasögur um það, að þetta allt sé orðið hlutfallslega eins dýrt og síldarverksmiðjurnar. Það væri ástæða til að rannsókn færi fram á þessu máli. Sama má segja um útvarpshöllina. Ég veit ekki betur en upplýsingar liggi fyrir um það, að búið sé að greiða 600 þús. kr. fyrir teikninguna. Það má vera, að sumum finnist ekkert við þetta að athuga. En sannleikurinn er sá, að það hefur þótt athugavert, að það skuli mega taka 600 þús. kr. til þess að greiða fyrir teikningu, sem svo engin vissa er fyrir, að verði nokkurn tíma notuð óbreytt. Ég tala nú ekki um það, sem síðar skeði, að sá hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir nú, leyfði sér að taka úr ríkissjóði 500 þús. kr. og lánaði þær án þess að spyrja fjmrh. eða Alþingi til stórs fyrirtækis hér í bænum, eða Silla og Valda. Þessum stórgróðamönnun er lánað til 10 ára. Það er Eysteinn Jónsson, sem hefur gert það. Hann hefur lánað 500 þús. kr. til Silla & Valda. Það getur verið að hægt sé að finna einhver rök fyrir því, að hægt sé að fara svona með ríkisins fé, en ég viðurkenni það ekki.

Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann muni, samkv. eindregnum till. þessarar d., láta fara fram rannsókn á byggingu síldarverksmiðjanna, og greiði ég þessu atkv. út úr d. í því trausti, að þessi rannsókn fari fram, og að hún verði svo ýtarleg, að ekki verði nokkur vafi á, hverjum þessi mistök eru að kenna, og að komið verði fram ábyrgð á hendur þeim mönnum, sem eiga sök á þessu, svo að þetta verði til leiðbeiningar framvegis í öllum þeim málum, sem þarf að taka sömu tökum. Enginn vafi er á því, að ef gerð er rannsókn og hún er gerð samvizkusamlega, þá ætti þetta að geta orðið fyrsta skrefið í þeim rannsóknum, sem þarf að gera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram og óska þess, að þau atriði, sem ég hef minnzt á, verði tekin til greina.