02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er mikið búið að ræða þetta verksmiðjumál út af því frv., sem hér liggur fyrir, um að hækka lántökuheimildina úr 27 og nú síðast í 43 millj. kr.

Það er ómögulegt að neita því, að það er ósamræmi í því, þegar fyrst er ætlazt til, að verksmiðjan kosti ekki nema 10 millj.— kr., síðan 20 millj., í 3. sinn 27 millj., þá í 4. sinn 38 millj. og nú, á meðan verið er að afgreiða þetta frv., er talið, að ekki nægi minna en 43 millj. kr. Um þetta hafa menn rætt, og flestum sýnzt á einn veg, að þetta sé eitt af því fágætasta, sem þeir hafi kynnzt. Inn í umr. hefur svo fléttazt tal um önnur dýr fyrirtæki. Síðast minntist hv. þm. Barð. á fiskimálanefnd. Þar mun flokksbróðir hans fara með forustuna, og þykir mér líklegt, að hann viti, um hvað hann er að tala. Sömuleiðis er það rétt, að það virðist nokkuð mikið, að teikning á einu húsi kosti 600 þús. kr., og fer maður þá að skilja, að verksmiðjur geti orðið nokkuð dýrar, þegar teikning k;ostar meira en ½ millj.

Það er ekki undarlegt, þó að það séu fyrst og fremst opinberar framkvæmdir, sem verða fyrir krítískum hlutum, en það er af því, að öll plögg eiga að vera opinber í sambandi við hinn opinbera rekstur, en það er ekki, þegar einstaklingur er að koma upp byggingum. Hver vissi um kostnaðinn á Korpúlfsstöðum? Hver skipti sér af því, hvort þeir væru vel fallnir til stórrekstrar? Nú, þegar þeir eru komnir í opinbera eign, er talað um, að það þurfi að brjóta allt niður, sem áreiðanlega var lagt í gífurlegt fé á sínum tíma. Við hljótum að sjá, þegar mistök í sambandi við opinberan rekstur liggja fyrir, en um hliðstæða hluti hjá einstaklingum vita menn ekki.

Það á enga miskunn að sýna, þegar fram kemur óforsjálni eða vítaverð ótrúmennska í opinberu starfi, en íslenzk stjórnarvöld hafa verið mjög alvörulítil um þetta. Ég er því á þeirri skoðun, að það ætti að skipa mjög strangt eftirlit með opinberum framkvæmdum í landinu, en ég er sannfærður um, að á þeim er mikið sleifarlag.

Ég tel það eitt meginatriði í sambandi við þetta mál, að menn geri sér grein fyrir, hvaða afleiðingar það hefur, að síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði og Skagaströnd koma til með að kosta 43 millj. kr. Þessi stofnkostnaður kemur ekki til með að liggja lengi á verksmiðjunum. Þær velta honum af sér með því að ákveða verðið lægra en annars, og sjómennirnir fá því lægra fyrir afla sinn. Nú er það svo, að það verð, sem síldarverksmiðjurnar setja upp, ákveður líka verðið hjá verksmiðjum í einstaklingseign, svo að þær ákveða verðið lægra og stinga gróðanum í sinn vasa. Mér finnst ekki óeðlilegt, að heldur en að svo fari, sé komið fram með frv. um það, að ríkissjóður borgi þær milljónir, sem síldarverksmiðjurnar hafa orðið dýrari en ráð var fyrir gert, því að þetta sé fyrir handvömm. Slík mistök á sjómannastéttin ekki að borga, heldur ber ríkinu að borga þau, ef um þau er að ræða.

Ég hygg þó, að ekki sé hægt að koma þessu saman við það frv., sem hér er um að ræða. Hér liggur fyrir að taka ákvörðun um að afla nauðsynlegs fjár til þess að ljúka þessum byggingum fyrir næstu síldarvertíð, og það eru hagsmunir sjómannastéttarinnar, að það megi takast, hvað sem um þau afglöp er að segja, sem nú hafa átt sér stað.

Ég hef gert grein fyrir því áður, að ég tel, að rannsókn eigi að fara fram. Það hefur hæstv. ráðh. tekið vel undir og jafnvel sagt, að hún skuli fara fram. Það þarf að upplýsa, til hvaða aðila peningarnir hafa farið, að hve miklu leyti þetta kemur til með að bitna á íslenzkri sjómannastétt og hvort ekki muni rétt að leggja þessa byrði á herðar ríkisins með sérstöku frv., en þetta frv. er ekki hægt að undirbúa, fyrr en sú rannsókn hefur farið fram, sem hér hefur verið rætt um. Út af þessu sé ég mér ekki annað fært en að greiða atkv. með hækkuninni í 4. eða 5. sinn.