22.04.1947
Neðri deild: 117. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

197. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það væri nú viðkunnanlegra, ef hæstv. fjmrh. væri hér við, og mun ég bíða, ef hv. forseti vildi láta senda eftir honum. Og vegna þeirra óska, sem fram hafa komið um að hraða þessu máli, þá væri hyggilegt, ef ríkisstj. vildi upplýsa, hvers vegna hún er að breyta stjórn þessa fyrirtækis. Er það tilgangurinn með þessu frv. að hindra að þessi starfsemi verði framkvæmd? Það er vitað mál, að síldarniðursuða og síldarniðurlagning á sér mikla möguleika hér á landi. Undanfarið hafa Íslendingar selt síldarafurðir sínar án þess að fullvinna þær. Nokkrar smáar verksmiðjur hafa þó undanfarið unnið að því að setja matéssíld í dósir, og hefur tekizt að skapa allsæmilegan markað fyrir þá vöru í Ameríku. Þetta hefur allt verið í smáum stíl, en það eru tvímælalaust spor í rétta átt að leggja allt kapp á að við vinnum úr öllum hráefnum okkar. Hins vegar hefur stjórn síldarverksmiðjanna staðið í vegi þessara framkvæmda, og má hér t. d. minna á, að er bæjarstjórn Siglufjarðar hafði undirbúið að koma upp Rauðku, þá var meiri hl. síldarverksmiðjustjórnarinnar á móti því. Og nú er lagt til að stjórn síldarverksmiðjanna eigi að sjá um byggingu niðursuðuverksmiðju. Mér lízt nú ekki á það. Ég held, að núverandi stjórn síldarverksmiðjanna hafi nóg á sinni könnu, og mér þykir nú rétt að víkja hér nokkuð að öðru máli í þessu sambandi.

Í fimm ár hefur verið talað um að koma upp lýsisherzluverksmiðju. Því hagar svo til, að afurðir herzluverksmiðju væri hægt að selja til flestra landa í heiminum, sem framleiða smjörlíki og sápur. Nú voru á síðasta ári samþ. lög um að taka lán til þess að byggja þessa verksmiðju, en hins vegar virðist nú, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að ekkert sé meir gert í þessu máli. Nú er og vitað, að brezki feitmetishringurinn er algerlega andvígur því, að herzluverksmiðja verði byggð á Íslandi, en sá hringur hefur verið nær einráður um kaup á hráefni til iðnaðar síns frá Íslandi. Nú væri gott að fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í þessum efnum og hvers vegna hún ætlar að gera breytingar á stjórn síldarverksmiðjanna. Ég tel það mjög óheppilegt, og það kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, ef nú á að stöðva byggingu herzluverksmiðju.

Nú liggur hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um síldarniðursuðuverksmiðju, og nú vill minni hl. n. fresta umr. um málið, þar sem frsm. hefur fjarvistarleyfi, en hæstv. fjmrh. vill, að málið gangi hart áfram, en mætir ekki til þess að svara spurningum. En það er nú ekkert undarlegt, þó að menn mundu spyrja um eitt og annað í sambandi við þessi mál. Ég held þess vegna, að það væri heppilegt, að umr. um þetta mál færu þannig fram, að hæstv. ríkisstj. gæfi nokkrar skýringar á því, hvað það er, sem hún stefnir að í þessu máli. Það liggja ekki fyrir frá ríkisstj. neinar sérstakar upplýsingar um það, hver hennar stefna sé í atvinnumálum okkar. En þar virðist aðallega koma fram sú tilhneiging að reyna að hefta einhvern veginn þær miklu atvinnuframkvæmdir, sem síðasta ríkisstj. hóf og var komin á veg með, því að þau frv., sem hér hafa verið flutt á þessu þingi frá hæstv. ríkisstj., virðast miða að því að draga nokkuð úr þessum framförum og reyna að hindra það, að þessar stórfelldu framkvæmdir, sem síðasta ríkisstj. hafði hug á eða hafði undirbúið, nái fram að ganga. Hins vegar var það svo, að við síðustu kosningar var því lýst yfir af hálfu þeirra flokka, sem nú mynda ríkisstj., að þeir vildu vinna að því að halda nýsköpun atvinnuveganna áfram og vildu vinna að því að koma upp meiri verksmiðjum í landinu, sérstaklega að því er snertir að vinna úr hráefnum okkar. En enn hefur ekki komið fyrir þetta þing — og er þó hæstv. ríkisstj. búin að hafa tvo og hálfan mánuð til þess að athuga sinn gang —, þá hefur ekki, svo að ég muni, komið fram eitt einasta frv., sem ætti að miða að því að gefa ríkisstj. fjárforráð eða annað slíkt til þess að leggja í neitt af þessum fyrirtækjum.

Það eina, sem virðist vera hugsað fyrir, eftir því sem virðist koma í l jós, það er að breyta um stjórn á undirbúningi málanna. Ósjálfrátt skapast hjá manni sú hugmynd, að ekki verði sérstaklega mikið úr framkvæmdum, þegar maður í það minnsta horfir upp á framtaksleysi og hugsunarleysi á þeim sviðum, sem ég álít, að mest væri undir komið, að reistar væru verksmiðjur, eins og t. d. síldarniðursuðuverksmiðja. Og manni hlýtur að detta í hug, að með þessu sé beinlínis verið að stefna að því að hindra þær framkvæmdir. Það er líka í samræmi við þá stefnu, sem komið hefur fram hjá hæstv. ríkisstj., þar sem þetta kemur greinilega fram í því frv., sem hún hefur flutt um fjárhagsráð, þar sem fyrst og fremst er talað um að gefa valdið í hendur einnar n. til þess að takmarka og neita, á meðan hinar nýju og miklu atvinnuframkvæmdir standa yfir. Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á þessu, vegna þess að þær breytingar, sem hér er um að ræða og lagt er til, virðast vera undarlega í samræmi við einmitt þær tilhneigingar, sem komu í ljós við umr. um fjárhagsráð, og reyndar í samræmi við alla afgreiðslu á till. um verklegar framkvæmdir á fjárl. og annað slíkt.

Það er ekki nema eðlilegt að nokkur tortryggni skapist hjá þm. í sambandi við þessa meðferð mála, og hefði í það minnsta verið fróðlegt að fá einhverjar upplýsingar frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, hverjar hennar fyrirætlanir væru í þessu efni og hvað það væri, sem hún hugsaði sér að gera, hvort hún hugsaði sér að framkvæma það, sem henni er upp á lagt, svo framarlega sem þetta frv. yrði samþ.

Það hefur í sambandi við niðursuðuiðnaðinn hér á landi verið af hálfu einstakra manna, sem rekið hafa niðursuðuverksmiðjur, dálítið um það rætt; að sá iðnaður mundi ekki vera hér sérstaklega glæsilegur til frambúðar. Ég held, að það sé alveg þveröfugt. Ég held, að gallinn á þeim niðursuðuverksmiðjum og niðurlagningarverksmiðjum hér á landi fram að þessu hafi fyrst og fremst verið sá, að það hefur verið ráðizt í þetta í allt of smáum stíl. Verksmiðjurnar hafa verið of litlar, og þegar framleiðslan hefur tekizt vel, hafa þær engan veginn fullnægt þeirri eftirspurn sem hefur verið fyrir þessar vörur. Ég veit, að stundum hafa komið pantanir erlendis frá í þessar vörur, en ekki hefur verið hægt að sinna slíkum pöntunum vegna smápantana hér í landinu sjálfu, vegna þess að verksmiðjurnar eru svo litlar, að þær hefðu ekki getað afgreitt allar þær pantanir, þó að þær ynnu að því allt árið. Það er því nauðsynlegt að koma hér upp stórum niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjum og sá iðnaður væri hafður eins vélrænn og í eins stórum stíl og frekast væri unnt. Og einmitt með því, að ríkið réðist í slíkar framkvæmdir, væri helzt hægt að tryggja það, að þetta væri rekið í nægilega stórum stíl. Það hefur verið hafinn undirbúningur að slíkum rekstri undanfarið með þeirri stjórn, sem hefur verið sett á laggirnar til þess að vinna að því að koma þessu upp.

Í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir þessu frv. segir á þá leið, að það virðist óþarfi að setja á laggirnar sérstaka stjórn fyrir hina fyrirhuguðu síldarniðursuðuverksmiðju.

Nú held ég að það sé mál manna, að það sé ekki hvað sízt nauðsynlegt, þegar verið er að ráðast í ný fyrirtæki og slíkt fyrirtæki, að stjórn slíkra fyrirtækja sé í höndum kunnáttumanna og áhugamanna og slíkri byrjunarstarfsemi sé bezt tryggð framtíð og gengi með því, að framkvæmd þeirra mála sé falin mönnum, sem hafi þekkingu og áhuga fyrir, að framkvæmdin og reksturinn takist sem allra giftusamlegast. Á þetta þá líka allra helzt við þau fyrirtæki, sem framleiða vörur fyrir heimsmarkaðinn og þurfa að keppa þar við stór fyrirtæki. Ég held, að undanfarið hafi einmitt verið stefnt að því með því fyrirkomulagi, sem verið hefur á stjórn og undirbúningi þessara verksmiðja. Það hefur verið reynt að hagnýta þar þá beztu krafta og áhuga, sem við höfum í þessum efnum hér á landi. Ég álít þess vegna, að það væri mjög miður farið, ef nú ætti að fara að skipta um stjórn á þessum fyrirtækjum og fara að fela stjórn þeirra, ábyrgðina og valdið í hendur þeirra manna, sem ef til vill hefðu engan áhuga fyrir að koma þessu upp. Í það minnsta liggur það hvergi fyrir, að svo sé, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi nokkurn sérstakan áhuga á þessu. Hvað snertir hins vegar þau rök, sem koma fram í nál. meiri hl. n., að það geti orðið hagkvæmara á ýmsan hátt .að hafa þarna sameiginlega stjórn verksmiðjanna, þá er það ekki nema að litlu leyti rétt, því að það er fyrst og fremst eftir því, hvort okkur tekst að hafa þessar verksmiðjur það stórar og fullkomnar til þess að reka þennan iðnað í nógu stórum stíl og hvort undirbúningurinn fer nægilega vel úr hendi.

Mér virðast þær einu röksemdir hæstv. ríkisstj. fyrir þessu, að hafa ekki sérstaka stjórn fyrir þessar verksmiðjur, heldur sameina það stjórn síldarverksmiðjanna, vera þær að spara með þessu laun, sem stjórn niðursuðuverksmiðjanna annars fengi.

Ég tel þetta alveg fáránlega hugsun. Ég býst við, að ef stjórn síldarverksmiðjanna ætti að sjá um að koma þessu upp, þá hefði hún ekki sérlega mikinn tíma til þess að athuga og undirbúa það mál. Og ég tala nú ekki um, ef áhuginn hjá meiri hl. stjórnar síldarverksmiðjanna fyrir að reisa slíkar verksmiðjur væri af skornum skammti, þá er mjög illa farið, ef svona stjórnarbreyting væri gerð.

Möguleikinn á því, að við getum staðizt samkeppni við niðursuðuvörur annarra þjóða, ef rétt er á haldið, byggist fyrst og fremst á því, að okkar vara er sú bezta, sem völ er á, og í öðru lagi, að okkur takist við meðferð hennar að gera hana betri en aðrar slíkar vörur, og það er hægt, ef vel er haldið á málunum.

Ég held þess vegna, að ef það vakir fyrir hæstv. ríkisstj. að spara þarna stjórnarlaun þessarar verksmiðju til þess að gera þessar síldarafurðir samkeppnisfærar á heimsmarkaðinum, þá geri hún sér ekki grein fyrir því, hvað hún er að fara.

Það er mjög fjarri því, að stjórn síldarverksmiðjanna hafi ekki nóg önnur verkefni víðvíkjandi því að koma upp síldarverksmiðjum. Og það er vitanlegt, að það ríkir mikill áhugi fyrir því, ekki aðeins hjá eigendum þeirra báta, sem þar eru, og þorpum, heldur líka hjá síldarútvegsmönnum og sjómönnum yfirleitt. Það lítur þess vegna út fyrir, áð stjórn síldarverksmiðjanna hafi nægilegt verkefni að inna af hendi fyrst um sinn og þar að auki á hún að sjá um stærsta fyrirtæki, sem nú er til á Íslandi, fyrirtæki, sem líklega koma til með í sæmilegu síldarári að framleiða verðmæti, sem vel geta orðið um 200 millj. kr., svo framarlega sem stjórnin sér til þess, að vörurnar séu seldar á heppilegu verði. Það er þess vegna vissulega nægilegt verkefni fyrir stjórn síldarverksmiðjanna að vinna, ef hún annast nokkurn veginn sæmilega það verkefni, sem henni er falið, að ráðstafa upp undir helming alls verðmætis, sem landsmenn framleiða til útflutnings á hverju ári. Það er vitanlegt, að nú er verið að selja síldarolíu á 130–140 £ eða með öðrum orðum 3–4 þús. kr. smálestina. Og það er vitanlegt, að okkar síldarlýsisframleiðsla getur í sæmilegu ári farið upp í 50 þús. tonn af síldarlýsi, sem er á 3. þús. kr. tonnið, og ef það yrði svo mikið, yrðu það 150 millj. kr., sem hægt er að fá fyrir þessa vöru. Og þar að auki kemur svo síldarmjölið, sem stjórnin þarf einnig að ráðstafa, þannig að stjórn síldarverksmiðjanna á að sjá um sölu á verðmætum fyrir um 200 millj. kr. Og það virðist nú, að stjórn, sem hefur svona mikið og ábyrgðarmikið hlutverk með höndum, að reisa síldarverksmiðjur, fylgjast með möguleikum fyrir markaði fyrir afurðirnar og afla markaða og gera það alveg hlutlaust og hleypidómalaust, hafi nóg að gera. Það sýnist því lítið vit vera í því að ætla að íþyngja henni með því að koma upp sérstöku fyrirtæki og vinna það upp, þar sem sérstaka kunnáttu og áhuga þarf til þess að vinna slíkt fyrirtæki upp og ryðja þeim vörum braut á heimsmarkaðinum.

Ég er að vísu ekki nákunnugur því, hvað stjórn síldarverksmiðjanna hefur lagt á sig undanfarið til . þess að afla markaða fyrir þær vörur, sem hún hefur með að gera, síldarlýsi og síldarmjöl, eða hvaða ráðstafanir hún hefur gert til þess að afla hæsts verðs fyrir þær vörur, en mér er nær að halda, að atorka hennar hafi ekki verið það mikil á því sviði, að það gefi ástæðu til þess að fara að fela henni sérstaklega að fara að taka að sér að koma upp nýjum fyrirtækjum, sem þurfa á því að halda, að unnið sé að af áhuga og fullum krafti að útvega markað fyrir.

Ég held þess vegna, ef það væri eitthvað erfitt að afla þeirra markaða, þá væri alveg sérstök ástæða til þess, að menn, sem maður getur verið öruggur um, að hafi virkilega áhuga fyrir málinu, sjái um slíkt. Mér er nær að halda, að meiri hlutinn í stjórn síldarverksmiðjanna gangi jafnvel fram hjá að hagnýta nógu vel möguleikana á því að selja síldarafurðir okkar, ef þau tilboð koma frá vissum löndum. Ég er hræddur um, að frekar sé tilhneiging hjá henni að hrinda frá sér mörkuðum, sem fyrir eru, heldur en að leggja sig í líma við að hagnýta þá.

Við verðum að gera okkur ljóst, að ef við ætlum að vinna upp íslenzka stóriðju á sviði fiskframleiðslunnar, þá þurfum við að berjast nokkuð fyrir því úti um heim. Það er áreiðanlegt, að það verður af aðilum úti um heim reynt að hindra það, að okkar vara komist inn á heimsmarkaðinn. Það þarf vafalaust að sækja fast á, og það er alveg hreint gefið mál, að okkar baráttu fyrir því að ryðja okkar vörum rúm á heimsmarkaðinum verður að vera framfylgt af trú á, að við getum sigrað í slíkri baráttu.

Ég man eftir því, strax og byrjað var að tala um niðursuðu, bæði síldar- og fiskniðursuðu í stórum stíl, þá skrifaði einn iðjuhöldur á Akranesi, sem hafði haft niðursuðuverksmiðju undanfarin ár, í Morgunblaðið, og sagði, að í raun og veru væri það fjarri lagi að fara að koma upp niðursuðuiðnaði hér, markaðurinn væri svo slæmur fyrir þær vörur, að í raun og veru væri þetta alveg fráleitt.

Ég vissi þess vegna um ýmsa menn, sem misstu alveg kjarkinn til að byrja með og hættu við slíkt. Landsbankinn var ekki fáanlegur til þess að lána til þessara fyrirtækja. En fyrir niðursuðuvörur og niðurlagningarvörur var haldið áfram að afla markaða, og að lokum hefur þetta farið svo, að hægt var að sýna fram á, að hægt er að selja íslenzkar niðursuðu- og niðurlagningarvörur út um allan heim og eftirspurnin eftir niðurlagningarvörum síldarinnar var í Ameríku svo mikil, að ekki var hægt að fullnægja henni. Landsbankinn, sem ekki vildi taka þennan lið framleiðslunnar inn á stofnlánadeildina, er farinn að vinna að því, að slíkar verksmiðjur komist upp.

Það er því breytt viðhorf til þessarar framleiðslu hér á landi. Og er búið að viðurkenna af þeim, sem vit hafa á þessum málum, að þarna sé í uppsiglingu ein af okkar þýðingarmestu greinum í síldar- og fiskiðnaði. Ég held þess vegna, að það þurfi að tryggja það, að unnið sé af fullum krafti að því að koma upp síldarniðursuðu- og síldarniðurlagningarverksmiðju ríkisins. Og ég held, að þetta sé ein af þýðingarmestu greinum okkar fiskiðnaðar og hún komi til með að gefa landinu einna öruggastan arð.