02.05.1947
Neðri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

197. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. meiri hl, sjútvn„ þá hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Fjórir nm., SK, FJ, PO og SkG, eru sammála um að mæla með samþykkt þess, en einn nm., ég, var frv. mótfallinn. Það er af ýmsum ástæðum, sem ég hef ekki enn skilað áliti um málið, sérstaklega af því, að ég hef ekki fengið skjöl, sem ég ætlaði að fá, sem ég tel, að upplýsi nokkuð þetta mál. En ég vænti þess, að það verði nú mjög bráðlega, sem það nál. getur komið fram. Og þó málið sé til 2. umr., þá er kannske ekkert um það að segja, þó að þetta nál. liggi ekki fyrir, vegna þess að vitað er, að ríkisstj. hefur gert samþykkt um þetta, mál og því er ætlað fram að ganga, hvað svo sem líður öllum röksemdum. Það skiptir því kannske ekki svo miklu máli, þó að þetta nál. liggi ekki fyrir fyrr en við 3. umr. Samt sem áður ætla ég að ræða nú um ýmis atriði þessa máls.

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. (FJ) hefur verið nokkuð fáorður um þetta mál og fáorðari en ástæða er til, vegna þess að hér er um allmerkilegt mál að ræða. Hann vísaði í raun og veru eingöngu í þessum fáu orðum, sem hann sagði, til þeirra röksemda, sem fram komu í grg. fyrir frv. og til þeirra tiltölulega fáu orða, sem tekin eru fram í nál. hv. meiri hl. n. Ég vil nú fara nokkrum orðum um þau rök, sem þar eru fram færð fyrir þessu tiltæki að leggja niður sérstaka stjórn þessarar verksmiðju og leggja forráð fyrir henni undir stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Það er talið sem fyrstu rök fyrir þessu, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi, áður en l. frá 1946, um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins, voru sett, undirbúið stofnun niðursuðuverksmið ju á Siglufirði á þann hátt að styrkja íslenzkan námsmann til þess að nema fiskiðnað í Bandaríkjunum. Þessi maður er dr. Jakob Sigurðsson, sem hv. þm. á við, og hann hafði stundað nám þarna í mörg ár, áður en stjórn síldarverksmiðja ríkisins talaði við hann. En stjórn síldarverksmiðja ríkisins gerði, eða framkvæmdastjóri þeirra, ráðstafanir til þess, að þessi maður kynnti sér sérstaklega niðursuðu síldar, og mun hann hafa dvalið líklega um það bil ári lengur í Ameríku vegna þess, og hann gerði það til að kynna sér möguleika hér á Íslandi til að koma upp þessum iðnaði, þegar hann kæmi heim. Þarna er í grg. farið alveg rangt með. Og ég býst við, að þetta líti nokkuð spánskt út fyrir þessum unga manni, að síldarverksmiðjur ríkisins hafi kostað hann til náms. En að námi loknu var hann að athuga þetta fyrir síldarverksmiðjur ríkisins og ferðast og kynna sér vinnuaðferðir og hráefni og tækni í sambandi við þetta í því skyni, að hann gerði frekari athuganir, þegar hann kæmi heim, um stofnun niðursuðuverksmiðju. Eftir að Jakob Sigurðsson kom hingað heim, gerði hann mjög fljótt till. um það, hvað gera skyldi í þessu efni. Hann lagði það til, að þá þegar réðust síldarverksmiðjur ríkisins í að byggja hér síldarniðursuðuverksmiðju. Og hann hafði í fórum sínum tilboð um fullkomnar niðursuðuvélar, sem hann hafði fengið á ferðum sínum í Ameríku fyrir síldarverksmiðjur ríkisins. Hann rökstuddi þessar till. sínar með því, að það væri engin sérstök nauðsyn á því að rannsaka íslenzka hráefnið, vegna þess að íslenzka síldin væri fyrirtaks hráefni til niðursuðu og niðurlagningar, og þess vegna væri ekki ástæða til að gera tilraunir til að leiða í ljós neitt um það. En hann taldi, að þó að verksmiðjan keypti þá strax niðursuðuvélar og byrjaði starfsemi til undirbúnings, væri mjög auðvelt að vinna að því jöfnum höndum að framkvæma þessar rannsóknir. Mætti gera það af miklum krafti, bæði yfir síldarvertíðina og enn fremur yfir vetrarmánuðina, hvað snertir meðferð á saltaðri síld. En undirtektir stjórnar síldarverksmiðja ríkisins urðu honum ákaflega mikil vonbrigði, og fannst honum hann vera búinn að eyða tíma í Ameríku til lítils gagns, ef ekki ætti að ná fram að ganga, að meira yrði gert í þessu efni. Þegar hann lagði fram skýrslu sína til stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, var það hið eina, sem hann fékk, að formaður bað hann í öllum guðanna bænum að sjá til þess, að enginn maður sæi þessa áætlunargerð að svo komnu máli. Þetta þótti honum ákaflega einkennilega við brugðizt og fannst benda á, að ekki væri neinn sérstakur áhugi á ferð fyrir niðursuðu, og fékk þegar illan bifur á því, hvernig máli þessu yrði borgið í höndum stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, sem honum hafði fljótt á litið þótt eðlilegast, að tæki að sér þetta verk. Í fyrsta lagi er það, að engin stofnun í síldariðnaði okkar hefur eins miklu fé yfir að ráða eins og síldarverksmiðjur ríkisins, einnig mörg hús, og fasta starfsmenn. Og mætti segja, að þótt reistar yrðu einhverjar verksmiðjur, væri það ekki svo mikill ábætir, að síldarverksmiðjur ríkisins gætu ekki bætt þessu á sig. Á þeim forsendum var dr. Jakob fylgjandi því á þessu stigi málsins að koma upp þessari niðursuðu. Ýtarlegar tilraunir hafa verið gerðar í margs konar íslenzkum sjávarafurðum, og við eigum margar niðursuðuvélar til og frá, sem framleitt hafa margar tegundir vara. Öll þessi starfsemi hefur sannað, að íslenzk hráefni úr sjó eru ákaflega vel fallin til niðurauðu. Þannig taldi dr. Jakob ekki ástæðu til að gera frekari tilraunir um það, hvort íslenzkt fiskmeti og síld gæti orðið boðlegur niðursoðinn varningur. Hann telur það fullsannað og ekkert til fyrirstöðu, ef hægt er að framkvæma niðursuðuna svo ódýrt, að vörurnar séu samkeppnishæfar á erlendum markaði. Það taldi hann þýðingarmest að staðreyna. En slíkt er ekki hægt, nema keyptar séu fullkomnar vélar. Það kom á daginn, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafði ekki áhuga fyrir því, eins og sakir stóðu. Hef ég ekki orðið var við breytingu til batnaðar í því efni, heldur eru menn enn að hugsa um þetta sem smátilraunaverksmiðjur, þar sem einn til tveir menn fikta við þetta á hverju sumri, svo að hægt sé að taka upp dálítið fallegan póst í ársskýrsluna, sem bendi á forustu stjórnar verksmiðja ríkisins í þessu máli. En með því að sá tími er kominn, að slíkar tilraunir eiga að vera liðin saga, vildi dr. Jakob fá breytingu fram, þannig að komið yrði upp stórfelldum iðnaði. Hann útvegaði tilboð í þessar vélar, lagði það ásamt ýtarlegri grg. fyrir stjórn síldarverksmiðjanna. En hann talaði fyrir daufum eyrum.

Þá segir í grg., að þessi maður hafi verið á launum hjá síldarverksmiðjum ríkisins um nokkurra mánaða skeið til þess að kynna sér niðursuðu frekar og síðan hafi hann verið sumarið 1945 og 1946 yfir niðursuðunni á Siglufirði fyrir síldarverksmiðjur ríkisins. Þetta er rétt, og bæði þessi sumur voru soðin niður eitthvað 2–3 tonn af síld, aðallega í tómatsósu, og ýmislegt annað. Gafst þetta vel bæði sumrin. Þessar tilraunir fóru fram í mjög lélegum kofa með rimlagólfi, og lagði upp dauninn úr fjörunni fyrir neðan. Vélar voru mjög ófullkomnar til þess að loka dósunum og sjóða á eftir. Þarna voru 2–3 menn látnir vinna til aðstoðar doktornum. Staður þessi, sem honum var úthlutað, var þannig fullkomlega ósæmilegur til matvælameðferðar. Dr. Jakob kvartaði við stjórn verksmiðjanna og taldi staðinn óhæfilegan til þessa starfs, þar sem varla væri líft fyrir ódaun úr fjörunni, og enn fremur væri varla hægt að leggja neitt frá sér í þessum ómerkilega skúr, sem var notaður fyrir alls konar rusl. Aðbúnaðurinn var svo óhæfilegur, að réttast hefði verið fyrir stjórn síldarverksmiðjanna að minnast sem minnst á sína hluttöku í þessum tilraunum. Hins vegar báru þær þann árangur, að full ástæða var jafnvel fyrir þá, sem bölsýnastir voru, þegar dr. Jakob kom fyrst, að vilja snúa sér að meiri háttar framkvæmdum. Niðurstaðan fyrsta árið sýndi, að fullkomin skilyrði voru fyrir því að hagnýta þessi matvæli á þennan hátt. En í stað þess að vilja þá eftir fyrsta árið leggja út í framkvæmdir, ákvað síldarverksmiðjustjórnin að halda áfram tilraunum með sama hætti sumarið eftir, en ræðst ekki í að afla þessara véla, sem dr. Jakob útvegaði tilboð um. Og þegar svo var komið, komst málið á þann rekspöl, að það var tekið út úr höndum síldarverksmiðja ríkisins, og mun ég koma nánar að gangi þessara atvika. En ég tel mjög vafasamt, að slíkt starf sé falið síldarverksmiðjum ríkisins. Hér er verið að ráðast inn á ný svið í okkar síldariðnaði, og verðum við að gera okkur ljóst, hversu miklu skiptir, að vel takist. Er skaðlegt, að smávægileg sjónarmið skuli standa í vegi, eins og hvort borga þurfi sérstakri stjórnarnefnd, sem ráðh. hefur í hendi sér á hverjum tíma að ákveða. Ef ekki næst sami árangur með því að spara sér þessi útgjöld, er illa farið. Þegar ráðizt var í síldarniðursuðuverksmiðju á Siglufirði, var það fyrsta skrefið til rannsóknar á möguleikum þess að koma upp stórfelldri niðursuðu á okkar síld. Það er byggt á þeirri reynslu, sem fengin er á Kyrrahafsströndinni, en þar er niðursuða síldar orðinn stærsti þáttur í niðursuðuiðnaði Bandaríkjanna. Eftir þetta fyrsta skref okkar ættu að fylgja stórfelldar framkvæmdir. Við höfum það fram yfir þá á Kyrrahafsströndinni, að okkar síld er einnig vel fallin til söltunar. Við getum rekið okkar niðursuðuverksmiðjur á fjölbreyttan hátt, framleitt alls konar kryddsíld, matéssíld og sykursaltaða síld og verkaða í alls konar sósum .eins og Svíar hafa gert með geysilegum hagnaði til útflutnings. Þannig var meiningin að koma upp stórfelldri niðurlagningarverksmiðju með nýjustu tækjum, svo að við gætum orðið samkeppnisfærir með þær vörur, enda þótt lífskjör almennings á Íslandi séu nokkru hærri en hjá öðrum fiskveiðaþjóðum. Reynslan hefur sýnt, að eftir því sem við vinnum okkar vörur meir og göngum betur frá þeim til neytenda, svo að við þurfum ekki að hlíta milliliðum — því að þeir taka meginið af arðinum —, þá hefur okkur gengið betur í samkeppninni við önnur ríki. Þegar við flytjum út saltfisk eða ísaðan fisk og hertan fisk, höfum við átt erfiðast með samkeppnina við útlönd. En með hraðfrystan fisk og niðursoðinn höfum við staðið miklu betur að vígi á markaðinum, jafnvel þó að engar niðursuðuverksmiðjur séu til í landinu í þeim skilningi, sem stórþjóðirnar leggja í það orð. Þær eru einungis tilraunaverksmiðjur, byggðar af geysilegum vanefnum og ekki reknar af mönnum, sem hafa trú á, að þetta geti orðið stórfelldur iðnaður, og þora því ekki að ná í stórtækar vélar, óttast, að við getum ekki selt framleiðsluna. En hefði verið hafizt handa, þegar dr. Jakob kom með sín tilboð, hefði verksmiðjan getað orðið tilbúin á s. l. hausti til að starfa að niðurlagningu síldar og áreiðanlega fyrir vertíð 1947 til þess að vinna að niðursuðu fisks og síldar. Hefði þá verið hægt að fá úr því skorið á árinu 1947 og 1948 og kannske 1949, hvort hér væri um framtíðaratvinnurekstur að ræða, og þá jafnframt að gera ráðstafanir til að koma upp slíkum iðnaði í viðeigandi stíl. Það er beðið eftir úrslitum um þessar tilraunir með geysilegri óþreyju á öllum þeim stöðum norðanlands, þar sem hægt er að sjóða niður síld. Það var því full ástæða til að stytta sem mest þann tíma, sem færi í það eitt að gera smávægilegar tilraunir með þessi, hráefni. Þessar tilraunir eru nú orðnar tiltölulega lítils virði: En stjórn síldarverksmiðjanna hefur ekki viljað sinna málinu frekar árum saman.

Önnur rök fyrir forgöngu síldarverksmiðja ríkisins í þessu máli en þau, að þær hefðu nokkurt „kapital“ yfir að ráða og þurfi því ekki að fá lán til að koma upp slíkri verksmiðju, voru í rauninni ekki fyrir hendi. Hins vegar hefur þetta breytzt á síðustu tveimur árum, svo að síldarverksmiðjur ríkisins eru búnar að binda allan ágóða frá fyrri árum í rekstri sínum vegna þeirra tveggja síldarleysisára, sem afstaðin eru. Þar með eru allar röksemdir fyrir því, að þessar verksmiðjur séu reistar af síldarverksmiðjum ríkisins, fallnar algerlega niður. Það verksvið að reisa niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjur er gersamlega óskylt öllum störfum síldarverksmiðja ríkisins. Ef horfið væri að því ráði að hafa ekki sérstaka stjórn þessarar niðursuðuverksmiðju, held ég það hefði verið miklu hyggilegra að leggja þetta starfssvið undir síldarútvegsnefnd, því að hún á að hafa yfirstjórn á þeirri meðferð síldar, sem, framleidd er til neyzlu. Síldarverksmiðjurnar eru aðeins til að bræða síld og framleiða mjöl og síldarlýsi sem hráefni til hvers konar fituvöru. Það finnst ekkert sameiginlegt atriði með þessum tvenns konar rekstri. Af þessu leiðir, að síldarverksmiðjur ríkisins hafa ekki einn einasta mann, sem hefur hina allra minnstu þekkingu hvorki á síldarsöltun né síldarniðursuðu. En síldarútvegsnefnd hefur hins vegar menn, sem hafa þekkingu á meðferð og verkun saltsíldar og mundu þess vegna hafa þýðingarmikla undirstöðuþekkingu á að stjórna fyrirtæki til að leggja niðursíld. Þetta sannar fullvel, að það er algerður misskilningur að leggja þessa starfsemi undir stjórn. síldarverksmiðja ríkisins. Ég hef áður lýst, hve áhuginn þar er takmarkaður fyrir þessu máli. Það bíða nú margar hafnir á Norðurlandi eftir því að geta hafið framleiðslu á niðurlagningu síldar, og er undarlegt, að síldarverksmiðjurnar skuli vilja einar bauka við þetta. Ég veit, að ekkert verður frekar framkvæmt, fyrr en falið verður sérstakri stjórnarnefnd að fara með þessi mál, sem komi upp slíkum verksmiðjum.

Þá er bent á í grg., að fyrir liggi upplýsingar um það, að íslenzkar niðursuðuvörur eigi í mjög óhagstæðri samkeppni um verð við niðursuðuvörur annarra þjóða. Ég vil nú segja, að þetta sé sagt alveg út í bláinn. Það liggja ekki fyrir upplýsingar um þetta. Við getum ekki um þetta sagt, fyrr en við sendum á markaðinn jafngóðar niðursuðuvörur og þær, sem eru í okkar samkeppnislöndum. Það fást engin úrslit, meðan við erum aðeins með allra úreltustu og „primitivustu“ vélar, vantar flutningatæki milli vélanna, svo að allt verður eintómur burður fram og til baka, og kannske er verið helminginn af deginum með þessa vöru og hina tegundina hinn helminginn, eða jafnvel 3–4 tegundir sama daginn, og skipta þarf um valsa og þvo vélarnar og raða starfsmönnum á ný. Það er ekki furða, að framleiðsla með slíkum vinnubrögðum verði ekki samkeppnisfær. Íslenzk niðursuða er ekki komin á laggirnar enn þá, við erum þar fullkomlega að ráfa í myrkri. En með því að koma upp verksmiðju með stórum nýtízku vélum getum við sannað, hvernig afstaða okkar er gagnvart öðrum þjóðum á markaðnum, og það er mjög nauðsynlegt.

Um stjórn þessarar verksmiðju má segja þetta. Formaður verður dr. Jakob Sigurðsson, sem ég býst víð, að menn verði sammála um, að eins og sakir standa sé sjálfsagt, að sé einnig framkvæmdastjóri. Segir sig sjálft, að hann mun því aðeins taka starfið að sér, að hann starfi þar alfarið. En þá mundi honum ekki detta í hug að taka laun fyrir sín formennskustörf í stjórninni. Þá eru laun hinna tveggja í stjórninni. Meðan verksmiðjan er ekki komin í gang, er ástæðulaust að launa þá — í hæsta lagi að veita þeim óverulega þóknun fyrir fyrirhöfn þeirra eftir því, hvað störfin yrðu mikil, og það hefur ráðh. aðstöðu til að kynna sér. Þetta mundi svara 2–4 þús. í hæsta lagi. Og að nefna þetta sem rök fyrir því, að niðursuðuverksmiðjan geti ekki orðið samkeppnisfær við niðursuðuverksmiðjur erlendis, er vitanlega svo hlægilegt, að furðulegt er, að slíkt skuli koma fram í grg. með frv., sem kemur frá stjórninni.

Ég hefði talið eðlilegt, ef það væri sparnaðarröksemdin, sem er ástæðan fyrir því, að út í þessa breyt. á fyrirkomulagi á stjórn síldarverksmiðjanna er farið, að þetta væri gert upp með tölum, hvað sparast og hvernig breyt. þessi afstaða hefur í för með sér gagnvart öðrum þjóðum. Ég get sagt hv. þm. það, að aðstaða okkar í niðursuðu gagnvart erlendum þjóðum er svo óhagstæð, að það eru meira en nokkur þúsund kr., sem eiga að skiptast niður á 700,000 dósa, það þarf að lækka um tugi aura hverja dós til þess að hafa sæmilega aðstöðu. Þó að allir starfsmenn niðursuðuverksmiðjanna störfuðu kauplaust og jafnvel þó að hráefnið væri gefið, þá værum við samt ekki samkeppnisfærir, — það er svo fáránlegt, hvernig þessi iðnaður er útbúinn hér á landi, enda eru niðursuðuverksmiðjur reknar fyrir innlendan markað og hafa getað hagnazt vel á því, að það hefur verið mikil dýrtíð í landinu og miklir peningar milli handa hjá mönnum, og hafa menn því gert meira að því að kaupa sér þessar síldarvörur til matar. Verksmiðjurnar hafa beinlínis verið miðaðar við þetta og hafa þess vegna fengizt til að gera framleiðsluna ódýrari og eru þess vegna ekki farnar að framleiða fyrir erlendan markað, sem neinu nemur.

Ég hef ekki heyrt það nefnt, og hv. form. meiri hl. gætti þess vandlega að ganga fram hjá því atriði, að einn einasti starfsmaður síldarverksmiðjanna gæti jafnhliða þessu starfi annazt störf í þessari niðursuðuverksmiðju. Í fyrsta lagi hafa síldarverksmiðjurnar engan starfsmann með sérþekkingu, hvorki um hráefni til niðursuðu né heldur um vinnuaðferðir, hvort sem er til niðursuðu eða til niðurlagningar. Þar að auki liggur það í augum uppi, að síldarverksmiðjur ríkisins eru allra fyrirtækja sízt til þess fallnar að reka þessa verksmiðju, vegna þess að síldarniðursuðuverksmiðjan verður rekin yfir sumartímann og þá verða síldarverksmiðjurnar ekki aðeins að hagnýta alla sína, starfsmenn, heldur líka að bæta við sig hátt á annað hundrað starfsmönnum, og er þess vegna ekki hægt að bæta neinum aukastörfum á starfsmenn verksmiðjanna. Verksmiðjurnar reyna að hafa eins fáa fasta starfsmenn og þær geta, vegna þess að þær vita það vel, að lengi af árinu verða þessir menn að ganga iðjulausir, en þetta gerir það líka sérstaklega skiljanlegt, að þær geta ekki bætt neinu á sína föstu starfsmenn fram yfir það að hugsa um rekstur síldarverksmiðjanna sjálfra. Það hefur verið bent á það, að síldarverksmiðjurnar hafi ráðið sér vélaverkfræðing og hann muni geta verið til aðstoðar við þessa verksmiðju. Hann hefur ekki kynnt sér niðursuðuverksmiðjur, en hins vegar lagt sig sérstaklega eftir síldarverksmiðjum, og gæti hann án efa gefið góð ráð, en hann gæti engan veginn fráskákað sér yfir síldveiðitímann frá síldarverksmiðjunum. Það eru þess vegna ekki til nein rök fyrir því, að síldarverksmiðjur ríkisins taki þessa niðursuðuverksmiðju að sér í því skyni, að þarna verði hrint af stað nýrri atvinnugrein til þess að bæta aðstöðu okkar, hvað atvinnu snertir, og til þess að fullnægja okkar afurðum. Það er sagt hér, að síldarverksmiðjur ríkisins hafi opna skrifstofu á Siglufirði allt árið, þær hafi tvo framkvæmdastjóra, vélaverkfræðing o. s. frv. Öll þessi rök er fásinna. Það kann vel að vera, að það sé ekki ástæða til þess að hafa sérstaka skrifstofu fyrir þessa niðursuðuverksmiðju. En það er ekkert einfaldara en að fela ráðh. að uppáleggja þessari síldarniðursuðuverksmiðjustjórn að hafa ekki sérstaka skrifstofu, en láta aðra skrifstofu annast reikningshaldið. Ég er hins vegar sannfærður um, að síldarverksmiðjur ríkisins muni ekki anna því og ekki kæra sig um að fá slíka viðbót yfir síldveiðitímann, því að þá er allt í svo fullum gangi hjá síldarverksmiðjunum, að þær hafa engan mann aflögu til nokkurrar starfsemi. Að það eigi að vera til þess að létta undir og spara útgjöld að fá síldarverksmiðjunum þetta í hendur, er því algerlega út í bláinn — síldarverksmiðjurnar geta þetta ekki.

Þegar þannig stendur með öll þau rök, sem fram hafa verið borin fyrir þessu máli, þá verð ég að spyrja : Hvernig stendur á því, að þetta mál er fram borið — hver er ástæðan fyrir því?

Ég mun þess vegna, áður en ég lýk ræðu minni, bera fram sérstaka fyrirspurn til hæstv. fjmrh. í þessu sambandi. Af því að frv. er fram borið á þessu þingi, þá gefur það til kynna, að þarna sé allt annað, sem fyrir ríkisstj. vakir, en þær röksemdir, sem bornar eru fram í frv., segja til um, og ég sé ekki, að það geti verið annað en það, að ríkisstj. ætli sér að stöðva þetta mál og láta reka á reiðanum, hvort þessari niðursuðuverksmiðju verður komið upp eða ekki. Ég sé ekki, að það séu til önnur rök. Mun ég leggja fram beina fyrirspurn til hæstv. ráðh., áður en ég lýk þessu máli. Maður skyldi halda, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu ákaflega mikla þörf fyrir aukin verkefni, þær vantaði eitthvað að fást við. En þegar á það er litið, kemur í ljós, að það er eitthvað annað en að síldarverksmiðjurnar þurfi á nýjum verkefnum að halda. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið reknar ákaflega mikið í sama stíl frá upphafi. Þær hafa verið hyggilega reknar, en hin tæknilega þróun hefur verið ófullkomin. Og það er einkennandi, að allar framfarir í vinnslu síldar eru fyrst teknar upp af öðrum aðilum en síldarverksmiðjum ríkisins. Það má t. d. nefna, að Hjalteyrarverksmiðjan hefur tekið upp marga nýbreytni, svo sem ýmiss konar tæki, sem ríkisstj. hefur ekki haft áhuga fyrir, fyrr en þau eru sett upp nú í sambandi við nýju verksmiðjuna. Þá hefur hún einnig alltaf keypt vinnslukvörn blindandi erlendis frá, þótt komið hafi á daginn, að þær eru miðaðar við allt öðruvísi síld en íslenzku síldina. Pressurnar hafa verið þannig, að ekki er hægt að hafa nema tvenns konar hraða á þeim, og hafa þær stundum ekki „funkerað“ fyrir það, að ekki hefur verið hægt að breyta hraðanum. Nú er farið að smíða pressurnar innanlands, og það hefur þau áhrif, að nú er hægt að hafa hvaða hraða, sem er, á þeim. Þetta veldur tímamótum í okkar síldariðnaði. En það voru ekki síldarverksmiðjur ríkisins, sem tóku þetta upp, heldur Rauðka.

Á hverju sumri hefur runnið í sjóinn í Siglufirði dýrmætt efni, sem er mörg hundruð millj. kr. virði. Það er talið, að ef allt það efni, sem runnið hefur þar í sjóinn frá síldarverksmiðjunum, hefði verið hagnýtt, þá hefði ekki þurft að selja neitt síldarmjöl innanlands, vegna þess að þarna er fundið efni, sem er líklega betra en síldarmjölið til skepnufóðurs. Það eru nú 6–7 ár síðan Þórður Þorbjarnarson benti síldarverksmiðjunum á, að það þyrfti að fara að vinna þetta efni, en síldarverksmiðjurnar hafa ekki fengizt til að gera tilraunir með þetta. Hjalteyrarverksmiðjan og Rauðka eru nú byrjaðar að hagnýta þennan úrgang, og þá hrekkur stjórn síldarverksmiðjanna við. Þá er það annað svið, sem síldarverksmiðjurnar hafa vanrækt, það er lýsisherzlan. Það er enginn vafi á því, að lýsisherzla er svo mikill atvinnuvegur fyrir Íslendinga, að það mundi gerbreyta allri þróun atvinnuveganna, ef við gætum tekið upp lýsisherzlu. Í staðinn fyrir að flytja síldarlýsið út óunnið, mundum við geta framleitt úr því vöru til útflutnings, svo sem: smjörlíki, sósur alls konar, ísrjóma og hvað eina. Megnið af ísrjóma erlendis er framleitt úr síldarlýsi. Og það liggur fyrir frá danskri verksmiðju tilboð um að útbúa rjóma úr síldarlýsi, sem hefur alla eiginleika sæmilegs rjóma. Möguleikarnir eru ótæmandi. Og ef farið er inn á þessi svið, þyrfti þarna ekki einn fagmann, heldur tugi fagmanna.

Ég vil svo að lokum, af því ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í d., leggja þá fyrirspurn fyrir hann, hvort það sé meining ríkisstj., að ráðizt verði í byggingu niðursuðuverksmiðjunnar sem fyrst, eða hvort það ber að skilja framlenging þessa frv. svo, að það eigi að halda áfram smávægilegum tilraunum á Siglufirði, en ekki eigi að ráðast í hina stórvirku verksmiðju. Þegar ég lét af störfum sem ráðh., lágu fyrir tilboð frá Ameríku um, að það væri hægt að fá vörur í slíka verksmiðju með þriggja mánaða afhendingarfresti. Þetta gerbreytir víðhorfinu. Það var einmitt þetta tilboð, sem Jakob Sigurðsson aflaði, þegar hann var í Ameríku. Ég vildi beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort það er meining ríkisstj., að ráðizt verði í þetta nú, eða hvort á að fresta því áfram.