28.04.1947
Efri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til n., og vildi þá mega benda henni á, hvort eitt atriði í frv. muni vera nógu skýrt orðað. Það stendur í 12. gr.:

„Ríkisstjórnin skal sjá um, að lögmæt hreppsnefndarkosning geti farið fram í Egilsstaðahreppi fyrsta sunnudag í júlímánuði 1947. Allir, sem búsettir voru 1. janúar 1947 á því svæði, sem hinn nýi Egilsstaðahreppur tekur yfir, eiga kosningarrétt við þær hreppsnefndarkosningar.“

Mér dettur í hug, hvort ekki þurfi að bæta inn í: „allir kjörgengir og kosningabærir menn“. Það er ekki meiningin með þessu að fara í bága við kosningal. og kannske ekki hægt að skilja þetta svo, en ég vildi þó vekja athygli á þessu.

Ég skal ekkert um þetta mál segja nema það, að ég er ánægður yfir því. Það hafa áður verið fluttar um þetta tillögur, en það hefur ekki náð fram að ganga fyrr en nú, að það er tekið upp á arma hæstv. stjórnar, sem ég er henni þakklátur fyrir.