16.10.1946
Efri deild: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

10. mál, útsvör

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef á tveimur undanförnum þingum borið fram sams konar breyt. á þessum l. og nú á þskj. 12. Mér þykir ástæða til að fara nokkru nánar út í þetta vegna þeirrar óverjandi meðferðar, sem mál þetta hefur sætt í hv. d. á undanförnum þingum, og ég vænti þess, að hún leyfi ekki slíka málsmeðferð lengur. Málið var fyrst borið fram á þinginu 1944 og þá afgr. með rökst. dagskrá, er hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem deildin væntir þess, að ríkisstjórnin láti fyrir næsta þing endurskoða lagafyrirmælin um útsvarsskyldu vegna skiptingu útsvara og leggi frv. um það fyrir Alþ., telur d. ekki rétt að afgreiða nú frv. þetta og tekur fyrir næsta mál á dagskrá:“

Þegar þessi rökst. dagskrá var rædd hér í d., lýstu sumir þeirra nm., sem höfðu málið til meðferðar, yfir því, að þeir væru efnislega sammála breyt., en hins vegar þótti rétt, eins og þá var tekið hér fram, að láta fara fram heildarendurskoðun á lögum þessum þá þegar. Þegar ég bar frv. aftur fram 1945, þá kom aftur nál. frá sömu mönnum, eftir að málið hafði verið marga mánuði í nefnd, svo að ekki var hægt að taka það til umr. fyrr en á síðustu stundu. Þá var það aftur afgr. með rökst. dagskrá, er hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem upplýst er, að verið er að vinna að heildarendurskoðun útsvarslaganna og ráðgert, að frv. um það efni verði lagt fyrir Alþ. það, sem saman á að koma 15. febrúar n. k., telur deildin ekki rétt að afgr. nú frv. þetta og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Nú er það vitanlegt, að þessar upplýsingar hafa aldrei legið fyrir, það hefur aldrei verið gert neitt til að koma á heildarendurskoðun þessara laga, og forsendurnar fyrir þessari rökst. dagskrá eru því alrangar. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) segir í greindu nál., að hann sé samþykkur frv., en fellst á að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, ef heildarendurskoðun l. dragist ekki lengur en þar greinir frá. En endurskoðunin hefur enn ekki farið fram. Þing Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sem nú hefur setið hér, hefur tekið þetta mál til meðferðar og fengið það í hendur nefnd til athugunar, en skrifstofustjórinn í heilbr.- og félmrn. hefur sagt mér, að ekki muni verða gerðar ákveðnar till. um það fyrr en á næsta aðalþingi. Að fengnum þessum upplýsingum tel ég rétt að bera málið enn fram. Þótt endurskoða eigi lögin í heild, tel ég það vera rétt. Ef Alþ. vill samþ. það hér, gæti það orðið til leiðbeiningar fyrir fyrrgreinda nefnd, og hún gæti þá tekið þessa breyt. inn í sínar till. Ef það næði hins vegar ekki samþykki hér, þá næði það ekki lengra. En ég tel alveg óverjandi að leggjast þannig á þingmál eins og hér hefur verið gert, og vænti þess, að sú hv. n., er nú fær málið til meðferðar, hafi kjark til að segja annaðhvort já eða nei við því. Ég tel það hvorki þingræði né lýðræði, þegar einn eða tveir menn eru að þvæla mál og afskræma eða drepa þau og færa fyrir því alrangar forsendur. Ég vil benda n. þeirri, er fær þetta mál til meðferðar, á það, að deilur um þetta atriði eru sættar á hverju ári með bráðabirgðaúrskurði ríkisskattanefndar, sem á e. t. v. ekki stoð í neinum lögum, en hikað er við Hæstaréttarúrskurð, af því að Alþ. er treyst til að afgreiða málið. Ég tel ófært fyrir sveitarfélög að búa við þetta ófullkomna bráðabirgðaástand, að vera e. t. v. í óvissu um helming tekna sinna, hvort þær tilheyra þeim eða einhverjum öðrum. Ég skil ekki, hvað legið getur bak við það hjá löggjöfunum að vilja ekki afgreiða þetta mál. En ég treysti því nú, að það verði afgr. Það hefur hingað til verið í hv. allshn. Ég tel nú raunar, að útsvarsmál eigi að vera í heilbr.- og félmn., en ég legg þó ekki til, að breytt verði um n., því að ég vil enn reyna, hvort hv. allshn. fæst ekki til að afgreiða málið eins og skyldan býður að afgreiða það. Ég vil því leggja til, að því verði vísað til þeirrar n., og vænti, að það fái skjóta og góða afgreiðslu.