10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

221. mál, bifreiðaskattur

Páll Zóphóníasson:

Ég hef aflað mér þeirra upplýsinga hjá bifreiðaeftirlitinu, að það muni láta nærri, að annar hver jeppi muni vera skráður sem fólksflutningabifreið, en hinir sem vörubifreiðar, og eftir því sem ég hef litið á þá skrá, sé ég, að það er hending, hverjir eru skráðir sem fólksbifreiðar og hverjir sem vörubifreiðar. Það fer alls ekki eftir notkuninni, því að ég sé, að hjá eigendum sumra bifreiðanna, sem nota þær ekkert til fólksflutninga, eru þær skráðar sem fólksbifreiðar, en aftur eru aðrir menn í bænum, sem nota þær sem fólksbifreiðar, en þar eru þær skráðar sem vörubifreiðar. Þess vegna held ég, að ef farið verður eftir skránni, sem liggur beinast við, þ.e. eftir því, til hvers konar nota bifreiðarnar eru skráðar, þá verði það mikið tilviljun og komi ekki rétt niður, hverjir borga gjaldið og hverjir ekki. og þurfi því að athuga, hvort ekki þurfi að taka fram í frv., að allir jeppar heyri þarna undir, hvernig sem þeir eru skráðir, eða koma þurfi til sérstakt vottorð, þegar borgað er af þeim, um, hvernig þeir séu notaðir, því að þeir eru notaðir sitt á hvað. Vil ég benda á, að ef innheimta á gjaldið af jeppunum eftir því, hvernig þeir eru skráðir, þá kemur það ekki rétt niður.