13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

10. mál, útsvör

Bjarni Benediktsson:

Það er aðeins út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, en hann fær aldrei skilið það, að hvernig sem íslenzk löggjöf er samin, má alltaf búast við, að einhver ágreiningur verði um framkvæmd hennar. Við getum ekki gert neina löggjöf svo um þetta, að ekki kunni að verða ágreiningur um eitthvert atriði eða misjafn skilningur á orðum hennar. Og þótt hv. þm. Barð. sæti á þingi í þúsund ár, mundi honum ekki takast það. Hv. þm. Barð. segir, að það þurfi að fá úr þessu skorið. Já, það er hægt með því að fara til dómstólanna, og það hefur verið gert, en sá úrskurður hefur ekki verið á þann veg, sem þessi hv. þm. getur unað við, og þess vegna vill hann nú fá nýja löggjöf um þetta efni. Og efni þeirrar löggjafar er það að takmarka vald og mat dómstóla um heimasetu manna og félaga. Ég held, að þótt farið yrði nú að búa til nýja löggjöf um þetta efni og tína úr og banna dómstólunum að dæma eftir því, þá séum við litlu bættari með nýrri löggjöf, enda er það ekki það, sem vakir fyrir hv. þm. Barð., að sú löggjöf verði eitthvað skýrarl. Hv. þm. hefur fengið úrskurð dómstólanna, en af því, að sá úrskurður var ekki að hans skapi, vill hann koma í veg fyrir með nýrri löggjöf, að þeir dómstólar geti gefið slíkan úrskurð.