13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

10. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Ég hef ekki óskað eftir öðru en að ákvæðin væru svo skýr, að dómstólarnir þyrftu ekki að búa til nýyrði. Það er talað um heimasetu í staðinn fyrir heimilisfang. Hæstiréttur hefur ekki talið sér fært að fara eftir ákvæðum l., nema því aðeins að búa til nýyrði í málið til þess að ná því marki, sem hann vildi.

Út af ummælum hv. þm. N-M. vil ég segja það, að ég get vel fellt mig við það, ef hv. allshn. vill fella burt 2. gr. frv. og það efni verði látið bíða, því að hún kemur ekki þessu máli við, en er aðeins um, að skipting útsvara skuli eigi framkvæmd, ef bæði sveitarfélögin, sem þar er talað um, séu í sömu sýslu. En viðvíkjandi burtskráningu, sem hv. þm. talaði um, og þær upplýsingar, sem hann gaf, eru rangar. Það hefur fallið dómur í slíku máli, og það hefur alltaf verið venja, að ef maður fer af skipi, er hann afskráður, og það hefur fallið dómur um það þannig, að ekki er hægt að krefja um þetta gjald.

Nú er ástandið þannig, að fjöldi manna leitar úr sveitinni og atvinnuvegirnir taka vinnuaflið frá sveitunum, þeir eru að drepa sveitirnar með því að taka frá þeim vinnuaflið, og svo með því að draga frá þeim útsvörin.

Ég ætla ekki að fara frekar nú út í fullyrðingar hv. þm. N-M., en ég öfunda hann ekki af að standa við þær þegar að því kemur. En eins og ég sagði áðan, get ég fellt mig við það, ef n. telur það réttara nú að fella niður 2. gr. frv., ef 1. gr. verður samþ. En þó að 2. gr. falli niður nú, þá verður barátta um hana tekin upp síðar.