16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

10. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir, að ég get að fullu fellt mig við þær brtt., sem gerðar hafa verið af hv. allshn. í þessu sambandi. Hvað snertir brtt. við 1. gr., þá eru brtt. við hana í raun og veru í samræmi við það frv., sem ég hef borið fram hér þrisvar sinnum á undanförnum þingum og aldrei hefur fengizt samkomulag um í n. Og þó að hér sé um að ræða nokkuð annað orðalag, þá er náð í raun og veru alveg því sama, sem ég hef farið fram á, að lögfest yrði. Get ég því verið ánægður með þá brtt. og þakka hv. n. afgreiðsluna á þessari gr. frv.

En ég vildi nú, af því að það eru nú fjórir lögfræðingar í allshn., gjarnan fá það upplýst, hvort það hefur borið á góma í n., hvort það teldist rekin atvinna frá einum stað, að togari kemur þangað einstöku sinnum og kannske að jafnaði til þess að taka vatn og vistir og hafa þar önnur viðskipti, en lætur þar hins vegar ekki afla á land. En út af þessu atriði hefur í raun og veru allur misskilningurinn spunnizt, en ekki eingöngu út af þeim dómi, sem hv. þm. Str. las upp. Og á ég þar sérstaklega við þau dómsatriði, sem voru í sambandi við Suðurfjarðarhrepp og Reykjavíkurbæ. Því að svo er um annað fyrirtæki, sem á togara og á heima í Suðurfjarðarhreppi og hefur haft nákvæmlega sömu stjórn í Rvík, þar sem allar bækur þess hafa verið færðar og allt uppgjör farið þar fram, að það hefur aldrei verið gerð nein tilraun af Reykjavíkurbæ til að leggja útsvar á það félag. En það hefur verið lagt á þetta félag, sem rekið hefur atvinnu vestur í Arnarfirði, en hefur aðeins togarann hér þannig, að hann kemur einstöku sinnum til Rvíkur og lætur hér upp og tekur menn og fer svo til Englands með aflann og selur þar. Og af því hefur skapazt þessi misskilningur og engu öðru. Og ég vildi fá að heyra frá lögfræðingunum í allshn., hvort það teldist að reka atvinnu á einum stað, þó að togari komi þar við og fái þá afgreiðslu, sem hér hefur verið lýst. Slíkt gæti snert fleiri skip en togara, t. d. vöruflutningaskip, sem skrásett væru norður í Eyjafirði, og stjórn félagsins, sem rekur það, væri í Rvík. Það hefur atvinnu kannske hingað og þangað úti í heimi, losar hér vörur einstöku sinnum, en ekki fremur en annars staðar. Hvar rekur þetta félag annars staðar atvinnu með þessu skipi en þar, sem það hefur heimilisfang? Og hvar er það skrásett annars staðar? Þetta þarf að fá upplýst. — Og dómurinn viðkomandi Djúpuvík var út af togara, en ekki rekstri síldarverksmiðju. — Og ríkisskattanefnd hefur skilið þetta ákvæði l. mjög einkennilega. Hún gaf úrskurð um það einu sinni, að það skyldi leggja á eignaútsvar þar, sem þetta félag á lögheimili, en tekjuútsvar skyldi lagt á í Rvík, því að þar væri bókhaldið. Næsta ár snýr hún þessu við, og þá skal frá Rvík lagt fullt útsvar á tekjur og eignir þessa félags og einnig fullt útsvar í Suðurfjarðahreppi. Það virðist því ekki ótímabært að gera nú þessi ákvæði útsvarsl. svo skýr, að ekki þurfi menn að standa í málaferlum út af ákvæðum þeirra.

Ég get fellt mig við það, að 2. gr. frv. verði felld niður, af því að ég veit, að það eru uppi háværar raddir um það að fella niður skiptingu útsvara. Og ég veit persónulega, að það er það, sem hv. 7. landsk. þm. ætlast til, að sé gert. Ég skal á þessu stigi málsins ekkert fara inn á þetta atriði. Þessi gr. var sett hér inn fyrir mjög eindregin tilmæli sýslunefndar Barðastrandarsýslu, þar sem hún sagði, að þetta atriði væri valdandi deilum í sýslunni. Og hún hafði mikið til síns máls, því að nú á þessum tímum hafa sveitir sumar verið alveg þurrkaðar að ungum mönnum, sem farið hafa til að vinna við atvinnurekstur t. d. á Patreksfirði og Bíldudal. Þeir hreppar hafa fengið tekjur af atvinnu þessara manna, en hrepparnir heima fyrir tapað útsvarinu af fólkinu.

Af því að þetta frv. var lagt fram snemma á þinginu, — því var vísað til n. 16. okt., — vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann vilji hraða þessu máli. Það hefur verið níðzt á sumum aðilum árum saman fyrir það, að þessi leiðrétting hefur ekki fengizt á útsvarsl., sem hér er farið fram á, að gerð verði. Og það er mjög mikils virði fyrir þá aðila, að því verði hætt. Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti hafi helzt annan fund í dag, að þessum fundi loknum, til þess að hægt verði að afgreiða málið frá þessari hv. d. í dag, því að það er nauðsynlegt, að málið verði afgr. á þessu þingi. Ég ætla ekki að deila á hv. n. fyrir að halda málinu hjá sér. En ég vænti þess, að hæstv. forseti sýni allan áhuga á að hraða afgreiðslu þessa máls svo sem kostur er á.