16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

10. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá útskýringu n. á atriði, sem ekki beint kemur fram í brtt., en má skilja af henni samt sem áður. Það er víðvíkjandi því, þegar fyrirtæki skrá sig á stöðum, sem þau aldrei koma á og engin viðskipti hafa við á neinn máta, nema bara skrá sig þar. Og þau tilfelli eru mörg. Hér er sagt í brtt.: „enda reki félagið atvinnu sína á skrásetningarstað.“ En hvað þá, ef þau reka ekki atvinnu sína á skrásetningarstað? Er það ekki samt sem áður löglegt heimili, þar sem þau eru skrásett? Það er það, sem þarf að athuga, að það eru nokkuð mörg atvinnufyrirtæki og einstaklingar, sem telja sig eiga heima þar, sem þau aldrei koma og hafa engin viðskipti, heldur bara skrá sig þar. Og þessi sveitarfélög, þar sem þessir aðilar eru skrásettir að eiga heima, gera kröfur um að mega leggja útsvör á þessa aðila, og þau fá það ekki, sé um gerviheimili að ræða. Ég skal ekki nefna nein dæmi, þó að ég gæti nefnt dæmi héðan og þaðan af landinu, frá Austurlandi og Vesturlandi, þar sem félög, sem hafa allmikla rekstrarumsetningu, eitt eða tvö svo að skiptir milljónum, telja sig eiga heima á öðrum stöðum en þar, sem þau reka atvinnu, og þar hefur verið lagður á þau partur af útsvarinu, sem þau hafa talið sig eiga heima. Það eru þessi gerviheimili, sem mér þykja leiðinlegust og erfiðast er við að eiga. Og þar sem verið er að eiga við að breyta þessum l. viðkomandi heimilisfangi atvinnufyrirtækja og atvinnurekenda, þá virðist mér eðlilegt, að athugað sé, hvort ekki á að koma þessum gerviheimilum undir hnífinn. Þau eru ekki nema bara skálkaskjól, — t. d. þegar útgerðarmaður í Rvík telur sig eiga heima suður í Garði, en kemur þar svo aldrei, heldur er hér og rekur atvinnu héðan. Það hefur komið fyrir tvívegis, að samningur hefur verið fyrir fram gerður við hreppsnefnd af atvinnurekendum, um að þeir fengju að eiga heimili í vissum hreppum með því að borga vissa upphæð til hreppsins í útsvar. Ég tel ekki rétt, að þetta megi eiga sér stað. Þó að þessi gerviheimili verði að teljast heimili með tilliti til l., og viðkomandi heimilissveit verði þess vegna að fá hluta af útsvörum viðkomandi aðila, þá eru þetta í raun og veru ekki nein heimili og ekki einu sinni heimaseta. Ég vildi vita, hvort hv. allshn. hefur athugað þetta, og hvað hún hefur hugsað um þetta, ef hún hefur athugað það.