18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

10. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti, út af þeirri ósk, sem fram hefur komið frá hv. 1. landsk. þm., vil ég leyfa mér að benda á, sem sjálfsagt þarf ekki að benda hæstv. forseta á, að þetta er þriðja árið, sem þetta frv. er boríð fram hér á hæstv. Alþ., þ. e. a. s. aðalfrv. Og þetta er þriðja árið, sem hv. 7. landsk. þm. á, að ég hygg, sæti í n., sem hefur lagzt á málið öll þessi ár. Og þó að þetta mál hafi verið svo oft fyrir hæstv. Alþ., þá hefur þessi hv. þm. aldrei haft áhuga fyrir að koma með þessa brtt. fyrr en nú, þó að ég hafi bent á þetta í umr. þá, sem hann færir sem rök fyrir brtt. Hann hefur ekki skilið þetta fyrr en nú. Ég væni þennan hv. þm. ekki um, að hann beri þessa brtt. fram nú til þess að koma málinu fyrir kattarnef, þó að svo líti út, að brtt. sé borin fram til þess að stöðva nú þetta mál. Ég fór fram á það að skipta ekki útsvörunum, ef báðar sveitir, þar sem unnið er og heimilissveit, eru innan sama sýslufélags, einmitt af þessum ástæðum, sem hv. 7. landsk. tók fram. Og ég hef fært rök fyrir þeirri till. minni. En þá áleit þessi hv. þm. hvorki nauðsynlegt að fella niður þá skiptingu né heldur hitt, að fella niður alla skiptingu á útsvörum, því að hvorki kom hann með þessa brtt., sem hér liggur fyrir og ég álít hárrétta, né heldur till. um að fá breyt. á þessu í meginatriðum, sem fyrir mér hefur vakað öll þessi ár. Ég vil því mælast til þess, að hæstv. forseti afgreiði þetta mál í dag. Það er búið að liggja í þessari hv. d. síðan í október í haust. Og ef hv. n. hefur ekki haft tækifæri til þess að athuga þetta mál síðan 10. okt., þegar málið kom fram, þá held ég, að hún athugi þetta mál ekki mjög gaumgæfilega það sem eftir er af þingtímanum. Kannske er beðið um frestun á afgreiðslu málsins til þess að drepa málið. Og ég vil, að hv. 7. landsk. þm. taki aftur sína brtt. Hans syndir eru nægilegar í sambandi við þetta mál, þó að hann ekki á síðustu stundu geri tilraun til þess að drepa málið hér. Hins vegar er hv. 7. landsk. þm. vel kunnugt um það, að allshn. hefur á undanförnum þingum hvað eftir annað vísað málinu frá af þeirri ástæðu, að hér sæti n. til þess að athuga öll útsvarsl. í heild. Og þetta atriði, skipting útsvara, er einmitt það mál, sem sú n. kemur sér minnst saman um. Þetta er það langstærsta deiluatriði í umr. um útsvarslöggjöfina, og ég er ekki í vafa um, að ef þessi d. samþ. þessa brtt. nú, þá er útilokað, að málið fái samþykki í Nd. á þessu þingi. En ég er þó sammála hv. 7. landsk. þm. um það, að þetta ætti að breytast í l., sem hann ber fram brtt. um nú. En mér skilst, að á næsta þingi eigi að koma gagngerð athugun á þessum l. öllum, og þá getur þetta atriði beðið þess tíma. Þó að ég því efnislega sé samþykkur þessum brtt. hv. 7. landsk. þm., mun ég greiða atkv. á móti brtt., af því að ég vil ekki láta það dragast að samþ. efni aðalfrv. — Ég mælist því mjög eindregið til þess við hæstv. forseta, að hann ljúki afgreiðslu málsins nú á þessum fundi.