13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

10. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Þetta mál er komið til d. og síðan til allshn. frá hv. Ed. og gengur út á það að slá því föstu, sem ef til vill mun ekki vera alveg ljóst áður, að leggja skuli útsvar á félög eða félag þar, sem það hefur skrásett heimilisfang, án tillits til þess, hvort stjórnendur félagsins eiga heima þar eða ekki, enda rekur félagið atvinnu sína á skrásetningarstað. En ákvæðið um skiptingu útsvars milli héraða á að haldast óbreytt. Eins og sést á nál. hv. allshn. Ed., mun frv. hafa verið sent til umsagnar félmrn., og lýsti það sig í umsögn sinni fylgjandi frv. efnislega, en með örlítilli breyt. þó. Og í hv. Ed. var frv. nokkuð lagað og hefur allshn. síðan sent þetta frv. nú til bæjarráðs Rvíkur, sem er þeirrar skoðunar, að efnislega sé hér ekki um breyt. að ræða samkv. þeim dómsvenjum, sem séu hafðar og skilningi á því, hvar leggja beri á útsvar.

Allshn. er sammála um, að ákveðið sé, að skip, sem gert er út einhvers staðar úti á landi, ef skrásett er þar og hefur þar aðalatvinnurekstur, leggur þar upp fisk og tekur ís, kol o. s. frv., eigi að greiða sín opinberu gjöld þar í sveit, þó að svo kunni að vera, að stjórn félagsins sé búsett í Rvík og hafi þar skrifstofu. Um þetta hefur verið nokkur vafi og tilhneiging til að telja skrásetningarstað slíkra skipa aðeins vera pro forma, til þess að komast hjá að greiða útsvar á þeim stað, þar sem stjórn félagsins raunverulega á heima. Meiri hl. allshn. vill telja eðlilegt, að félag, sem stofnað er úti á landi og skrásetur skip sín þar, leggur þar afla sinn og tekur nauðsynjar, greiði gjöld sín þar, jafnvel þó að stjórn og framkvæmdarstjóri sé búsettur utan þess staðar. Það er hægt að nefna nokkur dæmi, þar sem togurum er stjórnað úr Rvík, en eru ekki skrásettir hér, og hefur Reykjavíkurbær þá jafnvel viljað telja heimilisfang togarans pro forma. Frv. gengur í þá átt að draga þessar línur ljósar, þar eð því er slegið föstu með löggjöf, að útgerðarfélag skuli greiða útsvar til heimasveitar sinnar, þ. e. skrásetningarsveitar, þar sem atvinnureksturinn er raunverulega rekinn, og mælir því með því, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed.