13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

10. mál, útsvör

Jóhann Hafstein:

Það er fátt, sem ég vil bæta við. Hv. frsm. hefur gert grein fyrir því, að mál þetta var sent bæjarráði Rvíkur til umr., og það leit svo á, að breyt. væri varhugaverð að svo miklu leyti sem hún miðaði til að hnekkja þeirri meginreglu, að gjaldþegnar skuli útsvarsskyldir þar, sem þeir hafast við í raun og veru og eru heimilisfastir, hvað sem skrásetningu á manntali líður. Hv. frsm. tók réttilega fram, að bæjarráð telur frv. ekki skerða þá hagsmuni, sem það á að standa vörð um. Vil ég leyfa mér að vitna í umsögn bæjarráðs, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir bæjarráði vakir það eitt, að með engu móti verði gert auðveldara en nú er, að gjaldþegnarnir geti talið heimilisföng sín annars staðar en þau eru í raun og veru. Sennilega er það að vísu ekki gert með frv., en þá er það óþarft, ekki sízt þar sem vitað er, að nú er starfandi stjórnskipuð nefnd að endurskoðun allra útsvarslaganna. Má ætla, að sú nefnd láti ekki hvað sízt til sín taka að setja skýr og ótvíræð ákvæði um útsvarsskyldu gjaldþegnanna, þ. á m. hvar þeir skuli teljast útsvarsskyldir.“ Með tilvísun til þessa hef ég ekki talið ástæðu til að fylgja frv.