20.02.1947
Neðri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

92. mál, tannlækningar

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Af ræðu hv. frsm. meiri hl. n. mætti ætla, að við í minni hlutanum vildum láta hag almennings víkja eða tefla honum í voða eða stofna hér nýja stétt manna, en hvort tveggja er misskilningur, og skal ég nú rekja þetta mál nokkuð.

Árið 1929 eru sett l. hér á Alþ. um tannlækningar, og í 4. gr. þeirra segir á þessa leið: „Öllum öðrum en tannlæknum eða þeim, er tannlækningaleyfi hafa, er óheimilt að setja gervitennur og tanngarða í menn. Þetta nær ekki til lækna, ef þeir sanna fyrir heilbrigðisstjórninni, að þeir hafi aflað sér nægilegrar þekkingar í þessari grein.“ Ég vil strax vekja athygli á því, að þá voru hér tveir tannsmiðir að minnsta kosti, er löggjöfin gerði fyrirvara um, og þessir menn starfa enn þá. Annar þeirra starfar hér í Reykjavík, og ég veit ekki til, að neinn voði hafi hlotizt af starfi þeirra.

Árið 1932 eru þessi l. svo rýmkuð á þann veg, að dómsmrn. sé heimilt að veita mönnum, er lokið hafa tannsmíðanámi, leyfi til þess að setja gervitennur eða tanngarða í menn í samráði við héraðslækna í þeim héruðum, sem eru tannlæknalaus. Þá voru gefin út nokkur tannsmíðaleyfi, er ná raunverulega aðeins til þriggja starfandi tannsmiða nú, fyrir utan þá tvo, sem fengu undanþáguna 1929. Ég vil benda á, að á Norðurlöndum og víðar eru tannsmiðir starfandi og til þeirra eru gerðar sérstakar kröfur, og nám þeirra er 5 ára nám. Á Norðurlöndum þurfa tannsmiðir að ganga undir próf hjá mönnum, er kunna sérstaklega fagið, og skila sínum sveinsstykkjum. Í lögum okkar er að vísu gert ráð fyrir, að tannsmiðir hafi eingöngu leyfi til að starfa í þeim héruðum, sem eru tann1æknislaus. En það segir sig sjálft, að það er enginn voði á ferðum né ástæða til að svipta þessa tannsmiði atvinnu sinni, þó að þangað komi tannlæknar, og viðvíkjandi því, sem hv. frsm. meiri hlutans sagði, að tannlæknar kæmu síður þangað, sem tannsmiðir störfuðu með réttindum, af því að atvinna tannlækna væri, fyrst a. m. k., að mestu bundin við tannsmíði, en ekki tannviðgerðir, þá er það auðsær misskilningur. Það fyrsta, sem fyrir liggur, er það, að tannlæknar undirbúi góminn, svo að hann geti tekið við gervitönnum, og ég er sannfærður um, að sú verður fyrst og fremst atvinna tannlæknis, sem kemur í tannlæknislaust hérað, að gera við tennur og undirbúa góminn, svo að unnt sé að smíða í hann tanngarð. Í Danmörku t. d. er útlærðum tannsmiðum heimilt að starfa hvar, sem er, og það eru ekki annað en bollaleggingar út í bláinn, er hv. 1. þm. Rang. talar um, að Danir séu í þann veginn að afnema þetta fyrirkomulag, þótt danskir tannlæknar vilji það.

Till. okkar gengur í stuttu máli út á það, að þeir tannsmiðir, sem þegar hafa fengið leyfi til að starfa, fái að starfa áfram fyrst um sinn, þótt tannlæknar komi þangað, sem tannsmiðirnir eru fyrir. Ég vil geta þess í sambandi við þetta, og það vita raunar allir, að hér í Reykjavík t. d. er svo erfitt að fá tannviðgerðir, að það tekur óralangan tíma, og það er því ábyggilega ekki neitt í hættu, þótt starfandi séu nokkrir tannsmiðir.

Andstæðingar þessa máls segja, að það sé eingöngu komið fram vegna einnar konu. Látum það gott heita. Þessi kona, sem átt er við, hefur verið tannsmiður í 20 ár og starfað sjálfstætt í 5 ár. Hún hefur sett upp sína stofu og kann sína iðn fullkomlega. Svo kemur að því, að tannlækni dettur í hug að setja upp útibú á þessum stað, og þá fær konan tilkynningu frá landlækni um að leggja niður sitt starf. Og ég skal upplýsa annað: Það eru aðeins þrír tannsmiðir, sem nú starfa sjálfstætt með tannsmíðaleyfi, og ég get vel nefnt nöfn þeirra. Það eru Björg Guðnadóttir í Hafnarfirði, Sigríður Þorláksdóttir, sem hefur starfað á Húsavík, og Ásta Hallsdóttir á Akranesi. Þetta eru nú öll ósköpin, og það nær ekki neinni átt að láta það gamla ákvæði haldast áfram í lögum, að tannsmiðir verði að víkja úr starfi sínu, þó að tannlæknar flytjist á sama stað. Hugsum okkur t. d. Seyðisfjörð, að þar væri tannsmiður, sem hefði komið þar upp dýru verkstæði og vélum, ætti þar sitt heimili og allar atvinnutekjur og væri búinn að vinna upp sitt starf, eins og kallað er, en svo dytti einhverjum tannlækni í hug að flytjast til Seyðisfjarðar um stundarsakir, og þá yrði tannsmiðurinn að flæmast burt frá allri atvinnu sinni á staðnum. Ég skil þetta ekki, það er engin sanngirni í þessu. Tannsmiðir kunna einnig sitt starf. Þeir draga hvorki úr mönnum tennur né plúmbera þær. Það eru læknarnir, sem undirbúa góminn fyrir gervitennur. Reynslan hefur líka sýnt, að í rauninni viðurkenna læknar starf tannsmiðanna fullkomlega, þeir hafa þá í þjónustu sinni og láta þá smíða tanngarðana.

Ég vil einnig taka það fram, að tannsmíðaleyfin eru aðeins veitt til fimm ára, og því er enn þá minni hætta á misnotkun í þessu efni. Því vænti ég nú þess, að Alþ. líti enn á þetta mál eins og 1929, er starfandi tannsmiðir voru ekki sviptir réttindum sínum, að það verði ekki látið viðgangast nú, að þrjár konur, sem unnið hafa störf sín í 20 ár, verði að flæmast burt úr iðn sinni vegna stéttarkenndar lækna hér, sem virðist eiga að ráða. Okkar vegur verður ekki minni, þótt við fylgjum í þessu efni sömu reglu og Danir, og það eru órökstuddar staðhæfingar einar hjá hv. frsm. meiri hl., að Danir ætli að fara að breyta þessu skipulagi sínu. Danskir læknar vilja það, en tannsmíðastéttin þar er líka viðurkennd, danskir tannlæknar og tannsmiðir fara mjög vel saman. Báðar stéttirnar standa mjög framarlega í sínum greinum, og það er engin minnkun fyrir Íslendinga að feta í fótspor Dana og hafa hér sams konar fyrirkomulag í þessum efnum.