20.02.1947
Neðri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

92. mál, tannlækningar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl., 2. þm. Eyf., hefur nú í rauninni flutt fram þau rök í þessu máli, að hv. dm. sjá, að hér er enginn voði á ferð, þótt þetta frv. okkar verði samþ. Ég get þess vegna verið fáorðari en ella. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir, að allir læknar og tannsmiðir, sem sönnuðu heilbrigðisstj., að þeir hefðu aflað sér nægilegrar þekkingar í þessari grein, fengju óáreittir að starfa áfram. Meiri hluti heilbr.- og félmn. vill vísa málinu frá, en minni hlutinn vill gera þá breytingu, að réttindin miðist við lækna og þá tannsmiði, sem þegar hafa réttindi til að starfa sjálfstætt. Og ég fæ ekki skilið þann voða, sem af því á að hljótast, að þessir örfáu menn starfi hér áfram.

Það er rétt hjá hv. frsm. minni hlutans, að l. um tannlækningar mæla svo fyrir eða gera ráð fyrir, að þetta fólk hafi ekki lengur rétt til að stunda iðn sína, eftir að tannlæknir er kominn í sama hérað. Þetta er ákaflega harðleikið, og ég þekki engin hliðstæð fyrirmæli um jafnskilyrðisbundin atvinnuréttindi. Þetta eru svo harðir kostir, að í framkvæmdinni hugsar enginn til að læra þessa iðn í framtíðinni. Og þá er að meta, hversu æskilegt það er, að enginn leggi stund á tannsmíðanám. Ef hér væru nægilega margir tannlæknar til að gera við tennur og smíða þær og inna af höndum öll störf í því sambandi, þá gæti ég gengið inn á, að rétt kynni að vera að tala um að útiloka aðra frá þessum störfum. En er ástandið hér þannig? Hér liggur fyrir skýrsla frá landlækni, þar sem hann gerir grein fyrir ástandinu í þessum efnum. Þar segir svo með leyfi hv. forseta:

„Vanhirða á tönnum og tannáta og önnur tannsýki er einn svartasti blettur á heilbrigðismenningu vor Íslendinga. Hann verður ekki afmáður, nema tannlæknum fjölgi mikillega frá því, sem nú er. Tannlæknar hér á landi eru enn ekki fleiri en svo, að liðlega svarar einum fyrir hvern tug almennra lækna, og utan Reykjavíkur og nokkurra allra stærstu kaupstaðanna er landið algerlega tannlæknislaust. Ef vel væri, þyrftu tannlæknar að vera drjúgum fleiri en almennir læknar.“

Sumstaðar erlendis eru fleiri tannlæknar en almennir læknar, en hér hafa tannlæknar svo yfrið nóg að gera, að sízt ætti að þurfa að amast við fólki, sem getur unnið þátt af þeirra störfum.

Þá hefur því verið haldið fram sem rökum í þessu máli, að samþykkt þessa frv. mundi verða til þess, að menn legðu hér síður stund á tannlæknanám en nú er. Ég veit nú ekki, af hverju það ætti að vera. Samkvæmt bréfi landlæknis á þskj. 399 virðist ekki hætta á atvinnuleysi tannlækna í náinni framtíð, því að í bréfinu stendur, að aðsókn að tannlæknaskólanum hér hafi verið sáralítil, og enn fremur, að henni virðist nú vera lokið í bili. En hvernig getur þá aðsóknin minnkað frá því, sem nú er, þótt nokkrir tannsmiðir héldu áfram atvinnuréttindum sínum, ef aðsókninni er þegar lokið? Ég skil hvorki upp né niður í þessari rökleysu, og að blanda algerlega saman svo ólíkum störfum sem tannviðgerðum og smíði gervitanna og að sporna við því, að tannsmiðir fáist til að vinna að iðn sinni, meðan hörgull er á tannlæknum, það skil ég bara ekki. Ég veit dæmi til þess, að það hefur tekið upp undir misseri hér í Reykjavík að fá tannviðgerð. Væri nú ekki nær, á meðan þannig horfir, að láta tannsmiðina í friði með starf sitt, því að tannlæknar hafa sannanlega nóg með sitt. Ég skil ekki ofurkappið af hálfu þeirra manna, utan þings og innan, sem vilja þetta frv. feigt. Ég er nú að vísu ekki sérfróður um þessi mál, en ég hef látið mér skiljast þörfina fyrir tannsmiði, sem eru fullfærir að vinna sitt verk, enda ekki bannaðir af heilbrigðisstj., en þeir búa við þau óviðunandi skilyrði, ef tannlæknir kemur á staðinn, að mega ekki starfa sjálfstætt áfram. En er öryggi almennings gagnvart tannsmiðnum meira, þótt tannsmiðurinn starfi óhindrað sjálfstætt án þess að tannlæknir sé á staðnum? Verður hæfni tannsmiðsins minni, þótt tannlæknir komi á staðinn, en læknirinn ætti að geta „kontrollerað“ starf tannsmiðsins, ef þess gerðist þörf? Ég skil ekki þessa röksemdafærslu.

Samkomulag hefur orðið milli okkar flm. þessa frv. og hv. minni hl. n., sem vill að vísu samþ. frv., en í mjög breyttu formi. Væri þannig slakað til, að réttindin næðu aðeins til þeirra tannsmiða, sem þegar hafa fengið leyfi til að starfa sjálfstætt, en samtímis yrðu settar reglur af heilbrigðisstj. um það, hvernig námi tannsmiða skuli komið fyrir, og um réttindi tannsmiða að náminu loknu. Þetta er út af fyrir sig ágætt fyrir framtíðina. En ég get þá heldur ekki séð, að það sé neitt, sem mælir á móti því, að þeir, sem hafa verið dæmdir hæfir til þess að mega inna störfin af hendi, fái að vinna þau framvegis, vegna þess að mér skilst, að engar brigður hafi verið bornar á það, að þetta fólk sé starfi sínu vaxið.

M. ö. o., mér finnst mega draga kjarna málsins fram í örfáum orðum: Tannlæknafjöldinn á landinu er meir en tíu sinnum minni hér heldur en í nágrannalöndum okkar, hlutfallslega, og þess vegna er augsýnilegt, að verkefni tannlækna við venjulegar tannviðgerðir er meira en nóg, þó að þessir þrír eða fjórir menn, sem hér er um að ræða, héldu sinu starfi. Í öðru lagi er enginn kominn fram, sem hefur leyft sér að bera brigður á, að þetta fólk, sem við tannsmíðar fæst hér, leysi starf sitt vel af hendi, hvort sem tannlæknir kemur nálægt því eða ekki. Í þriðja lagi hefur orðið samkomulag um að vinna að því, að komið verði fastri skipun á þessi mál, og það skilst mér, að meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. sé sammála um, að æskilegt væri, að komið væri á. Ég sé þess vegna ekki, að til sé í þessu máli nein eðlilegri leið heldur en sú, sem hv. minni hl. heilbr.- og félmn. hefur stungið upp á, og ég vil eindregið mæla með því, að till, hans um þetta verði samþ.

Alþ. hefur borizt umsögn um þetta frv. frá Læknafélagi Íslands. Í þessari umsögn læknafélagsins lýsir félagið yfir, að það telji ekki rétt, að frv. þetta nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það var upphaflega borið fram í, en segir hins vegar orðrétt (með leyfi hæstv. forseta) :

„Stjórn Læknafélags Íslands telur það eitt varðandi þetta mál geta komið til álita, hvort ekki mætti leyfa tannsmiðum, sem þegar hafa sett sig niður í einstökum héruðum, ef til vill með ærnum kostnaði, að halda þar áfram sjálfstæðu starfi, þó tannlæknir setjist þar að.“ M. ö. o., Læknafélag Íslands virðist vera algerlega inni á þeirri málamiðlunarleið, sem minni hl. hv. n. hefur komizt inn á í sínu nál., — og læknafélagið er hér auðvitað líka aðili í málinu, eins og Tannlæknafélag Íslands. (HelgJ: Það eru nú kannske veik meðmæli.) Hv. 1. þm. Rang. veit gerst um það, hvað hans stéttarfélag er veikt eða sterkt. En stéttarfélag þessa hv. þm. og hv. frsm. meiri hl. n. telur mjög vel koma til álita að leyfa þeim tannsmiðum, sem setzt hafa að á einhverjum stað, kannske með ærnum kostnaði, að halda áfram tannsmíðum, þó að tannlæknir setjist að á staðnum.

Ég hef svo ekki neitt frekar um þetta mál að segja, en vænti þess, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. till. hv. minni hl. heilbr.- og félmn., sem ég tel eftir atvikum þá eðlilegustu og sanngjörnustu leið, sem hægt sé að finna út úr þessu máli.